Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Heimilin stíga á neyslubremsuna

6% samdráttur kortaveltu landsmanna í maímánuði að raunvirði frá sama tíma í fyrra var sá mesti síðan í ársbyrjun 2021. Maímánuður var einnig fyrsti mánuðurinn frá september í fyrra þar sem hreint gjaldeyrisinnflæði varð vegna kortaveltu milli landa. Vísbendingar eru um að heimilin stigi á neyslubremsuna þessa dagana og að einkaneysla vaxi mun minna í ár en í fyrra.


Heildarvelta innlendra greiðslukorta var 118,6 ma.kr. í maímánuði samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans. Í krónum talið jókst veltan á milli ára um tæp 5%. Annað kemur hins vegar á daginn þegar veltan er raunvirt miðað við þróun verðlags og gengis krónu. Á þann kvarða skrapp kortaveltan saman að raunvirði um rúmlega 6% og hefur samdrátturinn ekki verið meiri á þennan mælikvarða frá janúar faraldursárið 2021. Maí er annar mánuðurinn í röð þar sem kortavelta innlendra korta minnkar á milli ára að raunvirði en í apríl nam samdrátturinn ríflega 4% á þennan mælikvarða. Er þetta mikill viðsnúningur miðað við undanfarna fjórðunga. Raunvöxtur kortaveltu var ríflega 6% á fyrsta fjórðungi þessa árs og í fyrra var vöxturinn að jafnaði tæp 10%.

Eins og sjá má af myndinni er samdrátturinn milli ára nær alfarið til kominn vegna minni veltu hjá innlendum verslunum og þjónustuveitendum. Innlend velta íslenskra korta dróst þannig saman um tæp 8% í maí frá sama mánuði 2022 en kortavelta erlendis um 0,3% á sama tíma.

Kortaveltujöfnuður jákvæður á ný

Heildarvelta erlendra greiðslukorta hér á landi var 26,9 ma.kr. í maí. Hefur slík velta ekki verið meiri frá september í fyrra og miðað við maí í fyrra vex veltan um þriðjung. Er maímánuður einnig fyrsti mánuðurinn frá september í fyrra þar sem velta erlendra korta hér á landi er meiri en velta innlendra korta á ferðalögum erlendis og í erlendum netverslunum. Hreint innflæði tengt kortaveltu milli landa var þannig 644 m.kr. en í maí í fyrra var hins vegar tæplega 3 ma.kr. halli á kortaveltujöfnuðinum.

Útlit er fyrir talsvert hreint gjaldeyrisinnflæði vegna kortaviðskipta á komandi mánuðum. Eins og sjá má af myndinni hefur tímabilið frá júní til september nær ávallt verið tími innflæðis frá kortaviðskiptum undanfarin ár ef undan er skilið fyrsta faraldursárið 2020. Miðað við vísbendingar um komandi háönn ferðaþjónustunnar annars vegar, og líklega þróun einkaneyslu Íslendinga á erlendri grundu hins vegar, bendir allt til þess að háönnin þetta árið verði í myndarlegri kantinum að þessu leytinu. Á móti má búast við að vöruskiptahalli verði áfram allnokkur þótt líklega höfum við séð það mesta í þeim efnum í fyrrahaust.

Horfur á mun hægari einkaneysluvexti í ár en í fyrra

Þróun kortaveltunnar er að okkar mati nokkuð afgerandi vísbending um breytingar í neyslutakti landsmanna. Virðast heimili landsins vera að stíga nokkuð þétt á neyslubremsuna eftir mikla neyslugleði undanfarinna missera. Aðrar vísbendingar á borð við Væntingavísitölu Gallup ríma við þessa skoðun okkar. Þá gefur þróun kaupmáttar tilefni til að ætla að heimilin þurfi að horfa heldur meira í peninginn á komandi mánuðum en raunin var allt fram á mitt síðasta ár.

Í nýlegri þjóðhagsspá okkar spáðum við því að draga myndi verulega úr einkaneysluvexti í ár miðað við síðasta ár. Hljóðar spá okkar upp á 3,2% raunvöxt einkaneyslunnar í ár samanborið við 8,7% vöxt í fyrra. Framangreindar tölur styrkja okkur í þeirri trú að þetta verði raunin. Þróun einkaneyslu vegur þungt í hagvexti enda hefur einkaneysla verið um það bil helmingur af vergri landsframleiðslu á Íslandi undanfarin ár. Hægari einkaneysluvöxtur hefur því mikið að segja um þá niðurstöðu okkar að hagvöxtur helmingist á milli ára og verði rétt rúm 3% á þessu ári. Það ættu svo að vera jákvæð tíðindi fyrir peningastefnunefnd Seðlabankans sem hefur vísað ítrekað til kraftmikillar innlendrar eftirspurnar í vaxtaákvörðunum sínum undanfarna fjórðunga.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband