Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Heimilin stíga á neyslubremsuna

Undanfarna mánuði hefur dregið úr kortaveltu ef leiðrétt er fyrir verðlagi og gengi krónu eftir myndarlegan vöxt síðastliðin ár. Þetta er skýr vísbending að íslensk heimili haldi nú að sér höndum í kjölfar vaxandi óvissu um efnahagshorfur.


Undanfarna mánuði hefur dregið úr kortaveltu ef leiðrétt er fyrir verðlagi og gengi krónu eftir myndarlegan vöxt síðastliðin ár. Þetta er skýr vísbending að íslensk heimili haldi nú að sér höndum í kjölfar vaxandi óvissu um efnahagshorfur. Miðað við tölur Seðlabankans um kortaveltu í bæði janúar og febrúar er útlit fyrir að á fyrsta ársfjórðungi þessa árs verði meiri samdráttur í kortaveltu en á síðasta ársfjórðungi 2018. Einkaneysluvöxtur verður líklega talsvert hægari í ár en í fyrra.

Samkvæmt tölum Seðlabankans nam kortavelta í febrúar 67,1 mö.kr. sem er 7,3% aukning frá sama mánuði í fyrra. Hins vegar kemur önnur mynd á daginn ef mánaðartölurnar eru raunvirtar miðað við þróun neysluverðs og gengis. Á þann mælikvarða jókst bæði innlend og erlend kortavelta um 1,3% milli ára.

Þótt vöxtur hafi verið á þennan mælikvarða í febrúar frá sama mánuði í fyrra dróst kortavelta talsvert saman mánuðina á undan. Allt fram á mitt síðasta ár var raunvöxtur veltunnar mjög myndarlegur. Til að mynda óx veltan um 8,6% á fyrri helmingi síðasta árs frá sama tíma 2017. Árið 2017 nam vöxturinn ríflega 11% að jafnaði frá fyrra ári. Það hefur því dregið allhratt úr vaxtartaktinum og var lokafjórðungur síðasta árs fyrsti ársfjórðunginn frá því snemma árs 2013 þar sem samdráttur var í verðlags- og gengisleiðréttri kortaveltu á milli ára. Útlit er fyrir enn meiri samdrátt á fyrsta ársfjórðungi þessa árs miðað við tölur janúar og febrúar mánaðar.

Hægir á einkaneysluvextinum

Miðað við þróun á kortaveltu ásamt neikvæðari væntingum heimila og minni kaupmáttarvexti er óhjákvæmilegt að mati okkar að krafturinn sem hefur verið í einkaneyslunni muni hjaðna í ár. Spá okkar um einkaneyslu á árinu er að vöxturinn verði sá hægasti frá árinu 2013. Meðal helstu áhrifaþátta á þróun einkaneyslu er mannfjöldi annars vegar og þróun kaupmáttar hins vegar. Nýbirtar tölur Hagstofunnar um launavísitölu og kaupmátt benda til þess að kaupmáttarvöxtur á 1. ársfjórðungi verði sá hægasti frá árinu 2013. Þannig jókst kaupmáttur launa í janúar og febrúar að jafnaði um 2,5% frá sömu mánuðum í fyrra.

Þá hafa væntingar heimila mælst tiltölulega lágar miðað við Væntingavísitölu Gallup þótt þær hafi aðeins hækkað frá lokamánuðum síðasta árs. Loks má nefna að hægt hefur á fólksfjölgun frá því hún var sem hröðust á árinu 2017. Gerir Hagstofan nú ráð fyrir að landsmönnum fjölgi um tæp 2% á yfirstandandi ári. Til samanburðar var fólksfjölgunin 3,0% yfir árið 2017.

Í þjóðhagsspá okkar í janúar sl. spáðum við því að einkaneysla myndi vaxa um 2,7% í ár. Virðist sú spá enn í fullu gildi miðað við ofangreinda þróun.

Höfundar


Bergþóra Baldursdóttir

Sérfræðingur


Senda tölvupóst

Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Senda tölvupóst