Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Heilsar árið 2024 með hærri stýrivöxtum?

Peningastefnunefnd Seðlabankans var einróma um að láta óvissu vegna jarðhræringa á Reykjanesi ríða baggamuninn um óbreytta stýrivexti í nóvember. Líklega hefðu þó vextir verið hækkaðir ef sú óvissa hefði ekki verið til staðar. Líkur á frekari hækkun stýrivaxta hafa aukist en þróun allmargra áhrifaþátta á eftir að leggjast beggja vegna á vogaskálar nefndarfólks fram að næstu vaxtaákvörðun.


Peningastefnunefnd Seðlabankans var einróma í stuðningi við þá tillögu Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra að halda stýrivöxtum óbreyttum þann 22. nóvember síðastliðinn. Enginn nefndarmaður hefði heldur kosið aðra niðurstöðu. Er það í fyrsta sinn frá mars á þessu ári sem slíkur samhljómur er meðal nefndarmanna. Þetta kemur fram í nýbirtri fundargerð vegna funda nefndarinnar fyrir vaxtaákvörðunina í nóvember.

Líkt og greina mátti á yfirlýsingu nefndarinnar og kynningarfundi eftir vaxtaákvörðunina í nóvember réði óvissa um þróun og afleiðingar jarðhræringa á Reykjanesi baggamuninn um ákvörðunina um óbreytta vexti í þetta skiptið. Við teljum að líklega hefðu vextir verið hækkaðir ef sú óvissa hefði ekki komið til. Raunar fullyrti nýjasti meðlimur peningastefnunefndarinnar, Ásgerður Ósk Pétursdóttir, í viðtali við Viðskiptablaðið að hún hefði kosið að hækka vextina í nóvember ef ekki hefði komið til jarðhræringanna.

Helstu rök fyrir óbreyttum vöxtum sem nefndin ræddi í nóvember:

 • Rétt væri að staldra við og sjá hverju fram vindur í jarðhræringum á Reykjanesi vegna óvissu um áhrif á efnahagslífið, sér í lagi ríkisfjármál, ferðaþjónustu, húsnæðismarkaðinn og þar með á verðbólguhorfur. Sem fyrr segir réðu þessi rök úrslitum um óbreytta vexti í nóvember.
 • Hægt hefði áfram á umsvifum í efnahagslífinu og að dregið hefði úr vexti einkaneyslu og fjárfestingar.
 • Ljóst væri að áhrif undangenginna vaxtahækkana væru að koma fram, raunvextir hefðu hækkað frá því á fyrri hluta ársins og almenningur væri einnig svartsýnni um efnahagshorfur.
 • Verðtryggðir útlánavextir hefðu einnig hækkað undanfarið í takt við hækkun raunvaxta en það gæti að öðru óbreyttu dregið úr eftirspurn eftir útlánum..

Helstu rök fyrir hækkun vaxta voru:

 • Mikið áhyggjuefni væri hversu þrálát verðbólga væri og að verðbólguhorfur hefðu versnað á ný.
 • Áfram væru horfur á ágætum hagvexti, framleiðslupenna væri meiri en talið var og enn mikil spenna á vinnumarkaði.
 • Húsnæðisverð væri enn að hækka og vöxtur útlána til íbúðakaupa tekinn að aukast á ný.
 • Þótt vísbendingar væru um að hægt hefði á innlendri eftirspurn væru þær ekki einhlítar.
 • Líkur væru því á að taumhald peningastefnunnar væri ekki nægjanlegt til að koma verðbólgu í markmið innan ásættanlegs tíma.
 • Þörfin á auknu taumhaldi peningastefnunnar væri því svipuð og á síðasta fundi ef ekki væri fyrir óvissuna vegna mögulegra eldsumbrota. 
 • Í ljósi þess hversu þrálát verðbólga væri og að horfur væru á að hún myndi minnka hægt væri aukin hætta á því að hún myndi festast vel fyrir ofan verðbólgumarkmið.
 • Meiri áhætta væri því fólgin í því að herða taumhaldið of lítið heldur en of mikið.

Á fundum nefndarinnar var bent á að í ljósi verri verðbólguhorfa og vegna þess að enn væri nokkur kraftur í efnahagslífinu hefði líklega verið rétt að hækka vexti enn frekar ef ekki væri fyrir óvissuna tengda jarðhræringum á Reykjanesi. Einnig komu fram áhyggjur af því að ef verðbólguþrýstingur færi vaxandi á ný gæti það leitt til þess að hækka þyrfti vexti enn meira en ella og halda þeim lengur háum.

Verða stýrivextir hækkaðir eftir áramót?

Til upprifjunar var framsýn leiðsögn nefndarinnar í nóvember þessi:

Þótt áhrif vaxtahækkana undanfarin misseri séu að koma skýrar fram benda verri verðbólguhorfur til þess að það gæti þurft að herða taumhald peningastefnunnar enn frekar. Þrátt fyrir það hefur peningastefnunefnd ákveðið að halda vöxtum óbreyttum að sinni í ljósi þeirrar óvissu sem ríkir um efnahagsleg áhrif jarðhræringa á Reykjanesi. Mótun peningastefnunnar á næstunni mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.

Í ljósi þess að áhyggjur af miklum hamförum á Reykjanesi á næstunni hafa minnkað talsvert frá vaxtaákvörðuninni í nóvember verða að teljast talsverðar líkur á því að vextir verði hækkaðir við næstu vaxtaákvörðun Seðlabankans þann 7. febrúar 2024.

Það helsta sem við horfum til að muni hafa áhrif á skoðanir peningastefnunefndar fram að þeirri vaxtaákvörðun er til að mynda:

 • Nýlegar hagtölur: Þjóðhagsreikningar fyrir fyrstu níu mánuði ársins benda til nokkuð snarpari viðsnúnings í hagkerfinu undanfarið en Seðlabankinn gerði ráð fyrir í nóvemberspá sinni. Bankinn gerði ráð fyrir 1,75% hagvexti á þriðja fjórðungi en raunin var 1,1% vöxtur.
 • Afgreiðsla fjárlaga 2024: Fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár er nú á lokasprettinum í meðförum Alþingis. Enn virðist líklegast að fremur hóflegar breytingar verði frá upprunalegu frumvarpi en óvissan er fremur í því áttina að halli á ríkissjóði verði meiri, og aðhald ríkisfjármála þar með minna, en upprunalegt frumvarp hljóðaði upp á.
 • Verðbólguþróun: 12 mánaða taktur verðbólgunnar gæti lækkað allnokkuð í janúar. Seðlabankinn spáði í nóvember nokkurri hjöðnun verðbólgu á 1F 2024 (úr 7,9% á 4F 2023 í 6,8%). Janúartalan gefur tóninn fyrir fjórðunginn og verði hún yfir væntingum eykur það líkur á vaxtahækkun.
 • Kjarasamningar: Samningar renna flestir út á almenna markaðnum í janúarlok. Seðlabankastjóri nefndi í nýlegum viðtölum að greina mætti jákvæðari tón frá aðilum vinnumarkaðar varðandi hugsanlega „Þjóðarsátt 2.0“  þar sem samið yrði um hóflegar launahækkanir samhliða verðaðhaldi hjá fyrirtækjum í einkageira og hóflegri hækkun á opinberum gjöldum. Verði búið að semja á þjóðarsáttarnótum (eða af samningar verða á sérstaklega viðkvæmu stigi) gæti nefndin viljað bíða átekta.
 • Krónan: Veiking krónu frá septemberbyrjun fram í seinni hluta nóvember lagðist fremur illa í nefndina við síðustu vaxtaákvarðanir. Frá vaxtaákvörðun í nóvember hefur krónan hins vegar styrkst um nálega 2,5%. Frekari styrking krónu fram til janúarloka myndi heldur draga úr líkum á vaxtahækkun og öfugt ef krónan veikist aftur.
 • Verðbólguvæntingar: Fyrir febrúarbyrjun verða komnar nýjar mælingar á verðbólguvæntingum fyrirtækja, heimila og markaðsaðila. Þær, ásamt þróun verðbólguálags á markaði, gætu haft áhrif miðað við áhyggjur nefndarfólks af viðvarandi háum verðbólguvæntingum.
 • Reykjanesórói: Ekki eru öll kurl komin til grafar varðandi jarðhræringar og hugsanlegt gos á Reykjanesinu. Ef aftur bætir umtalsvert í óvissu þeirra vegna, hvað ef kemur til goss sem hefur umtalsverð áhrif á innviði og efnahagsstarfsemi á Suðvesturhorninu gæti það trompað aðra áhrifaþætti líkt og í nóvember.

Það er því ekki á vísan að róa með hvort vaxtahækkunarferli Seðlabankans haldi áfram í febrúar eða hvort botninn hafi verið sleginn í það í ágúst síðastliðnum. Í öllu falli teljum við líklegt að frekari hækkun vaxta verði ekki veruleg. Þó er ekki hægt að útiloka að herða þurfi aðhald peningastefnunnar allnokkuð til viðbótar ef frekari hjöðnun verðbólgu lætur á sér standa á fyrri helmingi næsta árs eða verðbólgutakturinn hækkar jafnvel á nýjan leik.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband