Eftir tiltölulega stöðugt gengi krónu fram yfir mitt þetta ár gaf krónan nokkuð eftir síðsumars. Trúlega má skýra þá þróun að miklu leyti með lakari utanríkisviðskiptum það sem af er ári en í fyrra, ekki síst vegna bakslags í ferðaþjónustu og vöruútflutningi. Á fyrri helmingi ársins var viðskiptahalli til að mynda 78 ma.kr. samanborið við 9 ma.kr. á sama tíma árið 2023.
Haustgola í seglum krónunnar
Gengi krónu hefur sótt í sig veðrið á ný síðustu vikur eftir veikingu síðsumars. Flæði vegna fjárfestinga lífeyrissjóða, framvirkri stöðutöku á gjaldeyrismarkaði og nýfjárfestinga erlendra aðila hefur haft umtalsverð áhrif í ár og vegið á móti árstíðarsveiflu í utanríkisviðskiptum. Horfur eru á lítilsháttar styrkingu krónu allra næstu ár.
Áhrifin af óhagstæðari utanríkisviðskiptum komu þó ekki fram í gengi krónu fyrr en að áliðnu sumri eins og fyrr segir. Tvær skýringar eru nærtækar á a.m.k. talsverðum hluta þeirrar þróunar:
- Í fyrsta lagi jókst framvirk stöðutaka með krónu talsvert framan af ári en skrapp svo töluvert saman síðsumars. Í nýlega birtu riti Seðlabankans, Fjármálastöðugleika, er fjallað um þá þróun. Þar kemur fram að í júlí og ágúst lækkaði hrein framvirk staða viðskiptabankanna í gjaldeyri um 30 ma.kr. Á fyrri helmingi ársins hafði staðan hins vegar aukist um samsvarandi upphæð. Hrein gjaldeyrisstaða bankanna á hverjum tíma endurspeglar stöðutöku viðskiptavina þeirra með krónu, hvort sem er til gjaldeyrisvarna eða spákaupmennsku. Áhrifin á gjaldeyrismarkað verða svo í raun þegar samningarnir eru gerðir fremur en á gjalddaga þeirra.
- Hrein nýfjárfesting erlendra aðila í innlendum fjáreignum var talsverð á fyrsta fjórðungi ársins en sáralítil eftir það. Samkvæmt tölum Seðlabankans var hrein nýfjárfesting af þessu tagi ríflega 26 ma.kr. frá ársbyrjun til marsloka en sveiflaðist í kjölfarið lítillega milli mánaða þar til aftur kom til ríflega 3 ma.kr. innflæði í ágústmánuði. Bróðurparturinn af innflæðinu á fyrsta ársfjórðungi fólst í kaupum á ríkisbréfum en í ágúst voru hlutabréfakaup ráðandi. Þótt Seðlabankinn hafi keypt hluta af gjaldeyrisinnflæðinu í febrúar, samtals fyrir ríflega 9 ma.kr., og sett í gjaldeyrisforðann standa þó út af sem nemur 17 ma.kr. af gjaldeyrisinnflæði sem fjármagnaði hluta viðskiptahallans á tímabilinu beint eða óbeint.
Allra síðustu vikur hefur gengi krónu svo sótt í sig veðrið á nýjan leik. Til að mynda kostar evran nú 150,4 kr. á millibankamarkaði en hæst fór evran í 153,4 kr. í septemberbyrjun. Á þann kvarða hefur krónan því styrkst um tæp 2%. Gagnvart Bandaríkjadollar er styrkingin á sama tímabili hins vegar nærri 3% enda hefur dollarinn almennt gefið nokkuð eftir gagnvart öðrum gjaldmiðlum á tímabilinu.
Ekki liggur fyrir í opinberum tölum hvaða skýringar kunna að liggja að baki þessari styrkingu krónunnar. Nokkrar mögulegar ástæður er þó hægt að tína til:
- Vaxtamunur við útlönd er enn mikill og kann veiking krónu síðsumars að hafa ýtt undir áhuga erlendra sjóða á að fjárfesta á ný í innlendum verðbréfum líkt og raunin var á fyrsta ársfjórðungi.
- Fram kemur í Fjármálastöðugleika að lífeyrissjóðir hafa dregið úr gjaldeyriskaupum það sem af er ári í samanburði við síðasta ár. hrein gjaldeyriskaup þeirra námu 51 ma.kr. á fyrstu átta mánuðum ársins, sem er 17 ma.kr. samdráttur frá sama tíma í fyrra. Þrátt fyrir þetta hefur hlutfall erlendra eigna sjóðanna almennt haldið áfram að stíga samhliða meðbyr á erlendum mörkuðum. Bendir Seðlabankinn á að um mitt ár hafi 18 af 21 lífeyrissjóði verið komnir nærri eða yfir markmið um hlutfall erlendra eigna samkvæmt fjárfestingarstefnu viðkomandi sjóðs. Gæti því kaupáhugi sjóðanna á gjaldeyri hafa verið með minna móti undanfarnar vikur.
- September lítur út fyrir að hafa verið þokkalegur ferðaþjónustumánuður. Innflæði í lok háannar frá ferðaþjónustunni kann því að hafa verið nokkurt. Ef ekki hefur dregið enn frekar úr framvirkri stöðu með krónu hjá viðskiptavinum bankanna kann slíkt innflæði því að hafa stutt við krónuna frá septemberbyrjun.
- Horfur eru á niðurstaða í yfirtökutilboði JBT í Marel náist á komandi mánuðum. Marel er að stærstum hluta í eigum innlendra aðila, ekki síst lífeyrissjóða, sem fá í kjölfarið blöndu af reiðufé í evrum og hlutum í sameinuðu félagi. Áhugi þessara aðila á gjaldeyriskaupum gæti því tímabundið minnkað talsvert og hugsanlega munu einhverjir innlendir aðilar á endanum ráðstafa hluta söluandvirðisins hér innanlands.
Það gæti því orðið einhver frekari meðbyr með krónunni það sem eftir lifir árs þótt vissulega muni þættir á borð við þróun utanríkisviðskipta og framvirkrar stöðutöku á gjaldeyrismarkaði einnig ráða þar talsvert miklu.
Hægur meðvindur með krónu í kortunum næstu tvö ár
Í nýlega birtri þjóðhagsspá okkar er farið yfir útlitið fyrir gengisþróun krónu á næstu misserum. Horfur um utanríkisviðskipti á næstunni eru nokkru lakari en í síðustu spá okkar. Útlit er fyrir nokkurn viðskiptahalla í ár en jafnvægi á utanríkisviðskiptum næstu tvö ár. Í maí gerðum við hins vegar ráð fyrir hóflegum viðskiptaafgangi bæði í ár og árin 2025-2026.
Þó ættu ýmsir þættir að vera fremur jákvæðir fyrir gengi krónu. Útlit er fyrir allnokkurn vaxtamun við útlönd á komandi misserum. Þá er erlend staða þjóðarbúsins enn sterk og verðbréfaeign erlendra aðila hófleg í sögulegu samhengi og alþjóðlegum samanburði.
Á móti mögulegu gjaldeyrisinnflæði af ofangreindum ástæðum vega til dæmis áframhaldandi erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna þegar fram í sækir. Aðrir innlendir aðilar gætu einnig aukið við fjárfestingar erlendis þegar fram í sækir, sér í lagi ef krónan styrkist meira en við væntum.
Eins og fyrri daginn má búast við skammtímasveiflum í krónunni. Stóra myndin er þó að mati okkar sú að gengið verði líklega nokkuð stöðugt en að líkur séu á lítilsháttar styrkingu með batnandi viðskiptajöfnuði. Í spánni er gert ráð fyrir að krónan verði um það bil 2% sterkari í lok spátímans en hún var í ágúst sl. Það jafngildir því að evran kosti um það bil 148 kr. Er það nokkru veikari króna á spátímanum en við spáðum áður.
Þótt nafngengi krónu hækki lítið í spá okkar þýðir hraðari hækkun launa og meiri verðbólga hérlendis en í viðskiptalöndum okkar að raungengi krónu hækkar nokkuð á spátímanum þótt það nái trúlega ekki fyrri hágildum. Samkeppnishæfni Íslands ætti því að haldast heldur hagfelldari en árin 2017-2018 sem og á útrásartímanum 2005-2007. Hins vegar leitar raungengið líklega á endanum jafnvægis með veikingu á nafngengi krónu eins og jafnan áður ef munur á verðbólgu og launaþróun hér og erlendis verður viðvarandi.