Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hagvöxtur stefnir í núllið í ár

Heimilin og hið opinbera draga vagninn hvað hagvöxt varðar þessa dagana, enda er fjárhagsstaða þessara aðila með betra móti. Ferðaþjónustan hefur verið þungamiðja þessarar hagsveiflu en mun líklega spila minna hlutverk næsta kastið.


Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar dróst verg landsframleiðsla (VLF) saman um 0,1% á þriðja fjórðungi þessa árs. Samdrátturinn var alfarið vegna neikvæðs framlags utanríkisviðskipta enda jukust þjóðarútgjöld (samtala neyslu, fjárfestingar og söfnunar birgða á útflutningsvörum í hagkerfinu) um 3,2% á fjórðungnum. Útflutningur skrapp hins vegar saman um nærri 13% á fjórðungnum og vó samdráttur í ferðaþjónustu þar þungt. Á móti minnkaði innflutningur vöru og þjónustu um nærri 9% í magni mælt.

Samtölur fyrstu 9 mánaða ársins leiða hins vegar í ljós að þrátt fyrir ofangreinda þróun eru það utanríkisviðskiptin sem hafa haldið hagvexti réttu megin við núllið. Á því tímabili skruppu þjóðarútgjöld saman um 0,9% en jákvætt framlag utanríkisviðskipta varð til þess að hagvöxtur mældist 0,2% á tímabilinu.

Eins og sést á myndinni eru það verulegur samdráttur í fjárfestingu og útflutningi sem vegast á við hægan vöxt í neyslu og umtalsverðan samdrátt innflutnings í hagvaxtartölunum.

Vaxtarbroddurinn frá útflutningi til fjárfestingar og neyslu

Áhugavert er einnig að skoða þróun hlaupandi meðaltals mismunandi liða þjóðhagsreikninganna, enda eru ársfjórðungstölurnar býsna kvikar eins og þær koma beint af kúnni. Greinilegur viðsnúningur virðist verða í leitni mismunandi liða á árunum 2016-2017 þar sem einkaneysla tekur jafnt og þétt við af útflutningi og síðar fjárfestingu sem helsti aflvaki vaxtar. Undanfarin misseri hefur svo innflutningur sveiflast frá því að vera dragbítur á vöxt til þess að vega af krafti á móti samdrættinum í fjárfestingu og útflutningi. Endurspeglar þessi þróun þá staðreynd að eftirspurn virðist hafa beinst meira að innlendum vörum og þjónustu samhliða því að hægja tók á hagvaxtartaktinum.

Ferðaþjónustan þungamiðja hagsveiflunnar

Sú hagsveifla sem nú er að renna sitt skeið hefur verið að mestu útflutningsdrifin. Þar vegur tilkoma ferðaþjónustu sem stærstu útflutningsgreinar þjóðarbúsins þungt. Eins og sést af myndinni var vaxandi þjónustuútflutningur einn helsti drifkraftur vaxtar allt frá árinu 2013 fram á árið 2017. Á móti vó hraður vöxtur vöruinnflutnings, en hann þjónaði bæði þeim tilgangi að afla aðfanga fyrir vaxandi ferðamannastraum og fóðra vöxt fjárfestingar og einkaneyslu. Að sama skapi eru það samdráttur í útflutningi þjónustu sem vegst á við minnkandi vöruinnflutning upp á síðkastið í þróun utanríkisviðskipta.

Íbúðafjárfesting enn í örum vexti

Undanfarin ár hefur orðið umtalsverð breyting á samsetningu íbúðafjárfestingar samhliða því að hægt hefur á vexti hennar eftir að hann náði hámarki um miðjan áratuginn. Í fyrra voru það íbúðafjárfesting og fjárfesting hins opinbera sem vógu upp samdrátt í fjárfestingu atvinnuvega og urðu til þess að fjárfesting í heild óx um 4% árið 2018. Það sem af er þessu ári er íbúðafjárfestingin hins vegar ein um hituna. Á fyrstu þremur fjórðungum ársins óx fjárfesting í íbúðarhúsnæði um 38%. Var vöxturinn sér í lagi myndarlegur á 3. ársfjórðungi en þá nam hann 54% á milli ára og hefur ekki verið hraðari í tæp þrjú ár.

Þessi myndarlegi vöxtur má sín hins vegar lítils gegn ríflega 23% samdrætti í fjárfestingu atvinnuvega og nærri 6% samdrætti í opinberri fjárfestingu. Hefur fjárfesting í heild því dregist saman um ríflega 9% það sem af er ári.

Heimilin og hið opinbera drifkraftur vaxtar á næstunni

Sem fyrr segir hefur einkaneysla í vaxandi mæli reynst helsti drifkraftur vaxtar eftir því sem leið á áratuginn. Góðu heilli hefur sá vöxtur hins vegar ekki byggt að vaxandi skuldsetningu heimila heldur hefur hann verið studdur af auknum kaupmætti og fólksfjölgun. Þótt verulega hafi hægt á einkaneysluvextinum er hann enn alldrjúg uppspretta vaxtar í innlendri eftirspurn og þar með stór hluti skýringarinnar á því að ekki er orðinn umtalsverður samdráttur í hagkerfinu þrátt fyrir að gefið hafi á bátinn í ferðaþjónustunni og fjárfesting láti nú undan síga.

Einkaneysla hefur oft og tíðum reynst sveifluaukandi þáttur í hagsveiflunni hérlendis þar sem heimilin hafa gengið allhratt um gleðinnar dyr á góðæristímum og safnað skuldum frekar en leggja til hliðar til magrari ára. Því virðist vera öfugt farið í þetta skiptið og er útlit fyrir að heimilin verði þvert á móti til þess að draga úr hagsveiflunni enda hafa þau mörg hver efni á að halda sínu striki hvað útgjöld varðar þótt tímabundið gefi á bátinn í útflutningi og fjárfestingu. Svipaða sögu má reyndar segja af hinu opinbera sem stendur styrkari fjárhagslegum fótum þessa dagana en oft áður þegar áföll hafa dunið yfir. Gerum við því ráð fyrir að heimilin og opinberi geirinn dragi áfram vagninn hvað vöxt varðar með aukningu einkaneyslu, samneyslu og fjárfestingu í íbúðarhúsnæði og innviðum.

Í þjóðhagsspá okkar sem gefin var út í septemberlok var því spáð að hagvöxtur yrði í kring um núllið þetta árið en myndi í kjölfarið mælast 1,3% á komandi ári, ekki síst fyrir tilstilli framangreinds vaxtar hjá heimilum og opinberum aðilum. Nýjustu tölur benda til þess að sú spá sé enn í fullu gildi.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband