Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hagvöxtur í fyrra sá mesti frá árinu 2007

Mikill vöxtur og vaxandi þenslumerki einkenndu þjóðarbúið í fyrra. Eftir því sem leið á árið dró úr vextinum og þar átti minni einkaneysluvöxtur stóran þátt. Framundan er talsvert hægari hagvöxtur þar sem hagkerfið þokast jafnt og þétt í átt að betra jafnvægi eftir hraðan vöxt.


Hagvöxtur á árinu 2022 var 6,4% samkvæmt nýlega birtum tölum Hagstofunnar. Var það heldur minni vöxtur en við höfðum áætlað í þjóðhagsspá okkar sem út kom í febrúarbyrjun en þó hraðasti hagvöxtur frá því herrans ári 2007. Stóra myndin er einnig býsna keimlík þeirri sem dregin var upp í febrúarspá okkar: Hagkerfið var í örum vexti sem var drifinn að stórum hluta af mikilli einkaneyslu landsmanna, auk þess sem endurkoma ferðaþjónustunnar og allmyndarleg fjárfesting atvinnuvega ýttu undir vöxt.

Þótt hagvöxtur hafi verið myndarlegur allt síðasta ár dró þó allnokkuð úr vaxtartaktinum á lokafjórðungi ársins. Vöxturinn náði hámarki í 8,2% á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en var kominn niður í 3,1% undir lok árs. Eins og sést á myndinni skýra hægari vöxtur einkaneyslu og útflutnings minnkandi hagvöxt að stærstum hluta.

Ferðaþjónustan undirstaða útflutningsvaxtar

Þrátt fyrir talsverðan halla á vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd í fyrra var framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar í stórum dráttum hlutlaust eins og endurspeglast í því að vöxtur þjóðarútgjalda var hinn sami og hagvöxtur, þ.e. 6,4% á síðasta ári. Ör vöxtur þjónustuútflutnings var burðarásinn í tæplega 21% útflutningsvexti í fyrra. Þar munar vitaskuld mest um vaxtarkipp í ferðaþjónustunni sem kom til baka af krafti um leið og faraldurinn fór að slaka á klónni á heimsvísu. Á heildina litið jókst þjónustuútflutningur um 54% í fyrra í magni mælt en vöruútflutningur um rúma prósentu á sama tíma.

Aukinn innflutningur á þjónustu vó einnig þyngst í tæplega 20% innflutningsvexti á síðasta ári. Á heildina litið jókst slíkur innflutningur um tæp 40% í magni mælt milli ára en vöruinnflutningur um tæp 12% á sama mælikvarða. Meiri innflutt þjónusta endurspeglar bæði kaup fyrirtækja á þjónustu af ýmsu tagi en einnig að talsverðum hluta aukin neysluútgjöld landsmanna á ferðum erlendis.

Fjárfesting fyrirtækja í sókn eftir lægð

Líkt og við bjuggumst við var fjárfesting atvinnuvega ein um hituna að drífa tæplega 7% vöxt fjármunamyndunar á árinu 2022 frá fyrra ári. Slík fjárfesting jókst um rúmlega 15% á síðasta ári og var dreifing meðal helstu atvinnugreina nokkuð jöfn að sögn Hagstofunnar. Er það annað árið í röð sem atvinnuvegafjárfesting sækir í sig veðrið eftir umtalsverðan samdrátt þrjú árin þar á undan.

Fjárfesting í íbúðarhúsnæði skrapp hins vegar saman um ríflega 6% í fyrra á þennan mælikvarða. Í frétt Hagstofunnar er þó bent á að umfang fjármunamyndunar í íbúðarhúsnæði hafi verið sögulega hátt þrátt fyrir þennan samdrátt enda fjölgaði fullgerðum íbúðum um tæplega 3.200 á síðasta ári samkvæmt gögnum frá HMS. Óverulegur samdráttur mældist einnig í fjármunamyndun hins opinbera í fyrra eftir nokkurn vöxt árið 2021.

Einkaneysla á flugi, bókstaflega og óbeint

Sem fyrr segir átti kraftmikill einkaneysluvöxtur drjúgan þátt í miklum hagvexti á síðasta ári. Á heildina litið óx einkaneysla um 8,7% í magni mælt sem er hraðasti vöxtur hennar síðan 2005. Einkaneysluvöxturinn var sér í lagi hraður á fyrri helmingi síðasta árs en á seinni árshelmingi dró jafnt og þétt úr honum.

Hagstofan dregur í frétt sinni fram þá áhugaverðu staðreynd að þótt dregið hafi umtalsvert úr kaupmáttarvexti miðað við launavísitölu eftir því sem leið á árið jukust heildarlaunatekjur um rúmlega 15% á síðasta ári. Því hafi aukinn kaupmáttur, þegar tekið er tillit til verðlagsbreytinga, á þann mælikvarða fylgt einkaneyslu nokkuð vel á síðasta ári. Sér í lagi var einkaneysluvöxturinn mikill í liðum sem tengjast samgöngum og ökutækjakaupum auk þess sem mikill vöxtur var í útgjöldum vegna ferðalaga erlendis.

Talsvert hægari vöxtur í kortunum

Hinar nýju tölur Hagstofunnar staðfesta þá mynd sem við drógum upp í þjóðhagsspánni í febrúarbyrjun af hagkerfi sem á undanförnum misserum hefur farið hratt úr talsverðum slaka í þenslu. Þá eru að okkar mati skýr merki í tölunum og öðrum hagvísum um að vaxtartakturinn hafi náð hámarki á fyrri hluta síðasta árs og að framundan sé talsvert hægari vöxtur sem í meira mæli byggir á auknum útflutningi.

Í þjóðhagsspá okkar er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði 3,4% bæði í ár og á næsta ári, en tæp 3% árið 2025. Hagkerfið muni því jafnt og þétt þokast í átt að betra jafnvægi, hvort sem horft er til innlendra umsvifa eða ytra jafnvægis.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband