Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,32% í júlí samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga lækkar úr 4,2% í 4,0%. Verðbólga miðað við VNV án húsnæðis lækkaði einnig milli mánaða og mælist ársverðbólga án húsnæðis nú 3,0%.
Hægir lítillega á verðbólgu en erfiður kafli fram undan
Ársverðbólga lækkaði lítillega í júlí þegar árstíðabundnar verðbreytingar tókust á. Útlit er fyrir að verðbólga aukist inn í haustið áður en hjöðnun hefst á ný. Líkur á frekari vaxtalækkunum á árinu fara þverrandi.
Mæling júlímánaðar er yfir okkar spá en við spáðum 0,2% hækkun VNV. Greiningaraðilar höfðu spáð 0,2%-0,3% hækkun VNV. Helsti munur á spá okkar og mælingu Hagstofunnar eru flugfargjöld sem hækkuðu töluvert meira en við gerðum ráð fyrir, annan mánuðinn í röð. Þróun annarra undirliða var heilt yfir nokkuð jákvæð og í takt við væntingar. Til dæmis virðist hækkunarhrina matar- og drykkjarvöru vera orðin bensínlaus í bili, líkt og við höfðum áður bent á.
Árvisshækkun flugfargjalda
Líkt og venjan er í júlí hækkuðu flugfargjöld talsvert enda háannatími í ferðaþjónustu og Íslendingar á faraldsfæti. Hækkunin var þó nokkru meiri en við höfðum spáð, annan mánuðinn í röð. Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 19,9% (0,48% áhrif á VNV) og höfðu þar með mest áhrif til hækkunar VNV í júlí. Alls hækkaði liðurinn ferðir og flutningar um 2,93% (0,47% áhrif á VNV) þar sem flugfargjöld skýra nær alla hækkunina, enda lækkuðu bílar um 0,16% í verði (-0,01% áhrif á VNV) og verð á eldsneyti var nær óbreytt milli mánaða. Við gerum ráð fyrir að hækkun flugfargjalda byrji að ganga til baka strax í næsta mánuði líkt og hefð er fyrir.
Útsöluáhrif á sínum stað
Sumarútsölurnar voru á sínum stað þar sem verð á ýmsum vörum lækkaði talsvert milli mánaða. Mest áhrif á VNV höfðu verðlækkanir í fataverslunum en verð á fötum og skóm lækkaði um 4,85% (-0,18% áhrif á VNV). Næst mest áhrif höfðu verðlækkanir á húsgögnum og heimilisbúnaði þar sem verð lækkaði um 2,16% (-0,10% áhrif á VNV). Sumarútsölur eru skammgóður vermir enda ganga þær til baka nokkuð hratt og við gerum ráð fyrir að sú verði raunin í ágúst og september.
Tíðindi felast í tíðindalítilli mælingu
Nokkuð tíðindalítið var í öðrum undirliðum, sér í lagi þeim sem haft hafa mest að segja um þróun verðbólgu á árinu, og mætti segja að það séu tíðindi í sjálfu sér. Þar ber helst að nefna verð á matar- og drykkjarvörum og reiknaða húsaleigu. Verð á matar- og drykkjarvöru var nánast óbreytt á milli mánaða og hafði engin áhrif á VNV í mánuðinum. Okkar spá gerði ráð fyrir 0,3% hækkun (0,05% áhrif á VNV). Við höfðum áður bent á að hækkunarhrina matvæla á fyrri árshelmingi gæti brátt orðið bensínlaus og mæling júlímánaðar gefur til kynna að það gæti reynst rétt, að öðru óbreyttu. Við teljum ástæður vera þær að áhrif kjarasamningsbundinna launahækkana hafa að mestu þegar komið fram.
Reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,27% á milli mánaða (0,05% áhrif á VNV), nokkru minna en sú 0,5% hækkun (0,10% áhrif á VNV) sem við væntum. Framlag reiknaðrar húsaleigu til hækkunar VNV á milli mánaða var síðast minna í janúar 2025 þegar hún lækkaði um 0,2%.
Nærhorfurnar
Gera má ráð fyrir því að verðbólgutakturinn muni aukast með haustinu þegar einskiptisliðir frá síðasta hausti, vegna gjaldfrjálsra háskóla og skólamáltíða, detta út úr mælingunni. Verðbólga mun því mælast 4,6% í október samkvæmt spá okkar. Við gerum ráð fyrir eftirfarandi í bráðabirgðaspá okkar:
- Ágúst: 0,2% hækkun VNV (4,1% ársverðbólga) - Útsölulok en flugverð byrjar að lækka. Niðurfelling skólagjalda í háskólum dettur út úr ársmælingunni.
- September: 0,2% hækkun VNV (4,6% ársverðbólga) - Áframhaldandi útsölulok en talverð lækkun flugverðs vegur á móti. Ýmsar gjaldskrárhækkanir. Gjaldfrjálsar skólamáltíðir detta úr út ársmælingunni.
- Október: 0,3% hækkun VNV (4,6% ársverðbólga) - Árstíðabundin áhrif hafa fjarað út. Flestir liðir leggjast á eitt og hækka smávegis. Ársverðbólga helst óbreytt frá mánuðinum á undan.
Mæling júlímánaðar er sú síðasta fyrir næsta fund peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands. Vaxtalækkun í ágúst er því svo gott sem út af borðinu.