Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hægasta hækkun íbúðaverðs í 8 ár

Talsvert hefur hægt á hækkun íbúðaverðs undanfarið. Markaðurinn virðist vera í nokkurskonar jafnvægi þessa dagana.


Samkvæmt nýbirtum tölum frá Þjóðskrá hefur fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 2,4% á síðastliðnum 12 mánuðum. Fjölbýli hefur hækkað í verði um 2,6% og sérbýli um 1,5%. 12 mánaða takturinn hefur ekki mælst lægri í 8 ár, eða allt frá vordögum árið 2011. Frá því að fasteignamarkaðurinn fór að taka við sér aftur eftir hrun hefur 12 mánaða hækkunartakturinn verið um 8,2% að meðaltali. Í byrjun síðasta árs fór þó að draga talsvert úr árstaktinum þegar framboð íbúða jókst og eftirspurnarspenna á markaðnum minnkaði.

Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkar á milli mánaða

Samkvæmt Þjóðskrá lækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 0,3% í nóvember milli mánaða. Fjölbýli lækkaði í verði um 0,3% en sérbýli stóð í stað á milli mánaða. Fasteignaverð hefur ekki lækkað á milli mánaða síðan í febrúar á þessu ári. Á síðastliðnum þremur mánuðum hefur fasteignaverð hækkað um 0,9% og síðastliðna sex mánuði hefur verðið hækkað um 1,1%.

Viðskipti á markaðnum svipuð og í fyrra

Þinglýstir kaupsamningar í nóvember voru rúmlega 600, heildarvelta þann mánuð nam 36 milljörðum króna og meðalupphæð á hvern kaupsamning var 55 milljónir króna. Þegar nóvember er borinn saman við október mætti halda að fasteignamarkaðurinn sé á hraðri niðurleið þar sem kaupsamningum fækkar um 34% og velta minnkar um 29%. Fjöldi samninga og velta í nóvembermánuði er hinsvegar á svipuðum slóðum og verið hefur það sem af er ári á meðan október sker sig umtalsvert úr. Hugsanlegt er að einhvers konar átak í þinglýsingu kaupsamninga hjá hinu opinbera skýri þetta frávik í október.

Hingað til hafa fjöldi kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu verið um 6.750 á þessu ári og stefnir fjöldinn að vera svipaður og árið 2018 þegar kaupsamningar voru 7.280 talsins. Þá hefur velta á markaði það sem af er ári numið 380 milljörðum en í fyrra yfir allt árið var veltan um 400 milljarðar. Það er því ekki að sjá að fasteignamarkaðurinn sé farinn á fullt aftur en á honum ríkir heldur engin ládeyða. Við teljum að á markaðnum ríki nokkurskonar jafnvægi og í nýjustu þjóðhagsspá okkar gerum ráð fyrir að raunverð fasteignaverðs muni standa í stað næstu þrjú árin.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband