Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Uppseldar frystikistur urðu að viðskiptahugmynd

Grímur Þór Gíslason, Grímur kokkur, sá tækifæri í því að framleiða tilbúna rétti þegar hann sá frétt um að nær allar frystkistur í landinu væru uppseldar.


Frá því að fjölskyldufyrirtækið Grímur kokkur var stofnað í núverandi mynd árið 2005, hefur framleiðsla fyrirtækisins nær hundraðfaldast. Þegar fyrirtækið var stofnað var ársframleiðsla þess um fjögur tonn á ári en er nú um 380 tonn.

Þetta kemur fram í Reynslubankanum á vef Íslandsbanka, hvar stjórnendur lítilla og stórra fyrirtækja deila áskorunum í fyrirtækjarekstri og miðla af reynslu sinni.

Grímur kokkur er í eigu hjónanna Ástu Maríu Ástvaldsdóttur og Gríms Þórs Gíslasonar. Þau stofnuðu veisluþjónustu árið 1999 en eðli málsins samkvæmt starfa veisluþjónustur að mestu um helgar. Þau áttuðu sig fljótt á því að nauðsynlegt væri að koma á verkefnum í miðri viku. Hjá fyrirtækinu starfa í dag 15 manns.

„Við sáum tækifæri í því að framleiða fiskrétti, grænmetisrétti og aðra tilbúna rétti því við sáum gat á markaðnum,“ segir Grímur Þór í myndbandinu og bætir því við að honum hafi jafnframt langað til að nýta betur það sjávarfang sem áður var flutt úr Eyjum óunnið.

Sem fyrr segir hefur fyrirtækið vaxið töluvert frá stofnum þess. Í myndbandinu greinir Grímur Þór frá því þegar hann, mánuði eftir hrun bankanna haustið 2008, sá áhugaverða frétt um að nær allar frystikistur í landinu væru svo gott sem uppseldar. Fram að þeim tíma hafði fyrirtækið ekki selt frystivörur en sáu sér þarna leik á borði og hóf framleiðslu á frostnum magnpakkningum. Það reyndist mikil lukka, frystivörurnar slógu í gegn og urðu að söluhæstu vörum fyrirtækisins.

Eins og sannur Eyjamaður fer Grímur Þór fögrum orðum um heimabæ sinn og segir gott að reka fyrirtæki í Vestmannaeyjum.

„Kosturinn við að vera í Vestmannaeyjum er smæðin á samfélaginu,“ segir Grímur Þór.

„Velviljinn í bæjarfélaginu er gífurlegur gagnvart fyrirtæki sem stundar nýsköpun og er að byggja upp störf.“

Reynslubankinn - Grímur kokkur


Grímur Þór segir frá stofnun fyrirtækisins

Í Reynslubankanum deila stjórnendur lítilla og stórra fyrirtækja áskorunum í fyrirtækjarekstri og miðla af reynslu sinni.