Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Ganga neytendur hægar um (neyslu)gleðinnar dyr?

Nýlegar væntingamælingar benda til þess að íslensk heimili telji viðsjárverða tíma framundan og ætli að fara sér hægar í stærri neysluákvörðunum á borð við bifreiðakaup og utanlandsferðir. Lífseig einkaneysla samhliða vaxandi svartsýni hefur einkennt síðustu misserin víða um lönd. Útlit er fyrir að einkaneysluvöxtur hér á landi þetta árið verði innan við helmingur af vextinum í fyrra.


Brún landsmanna léttist aðeins í sumarbyrjun hvað varðar efnahagsmál og vinnumarkað. Nýlega birt Væntingavísitala Gallup hækkaði um 3 stig í júní eftir samfellda lækkun undanfarna fjóra mánuði. Fleiri heimili eru þó svartsýn en bjartsýn á stöðu og horfur í hagkerfinu líkt og raunin hefur verið samfellt í rúmt ár. Nýjasta gildi vísitölunnar er 81,1 stig og þar með talsvert undir 100 stiga jafnvæginu milli bjartsýni og svartsýni meðal almennings.

Minni stórkaupahugur í landsmönnum

Gallup birti einnig nýjustu mælingu á fyrirhuguðum stórkaupum neytenda, en undir þá skilgreiningu falla m.a. bifreiðakaup, utanlandsferðir og íbúðakaup. Ef marka má þá mælingu dregur áfram úr vilja almennings til slíkra stórkaupa og hefur stórkaupavísitalan ekki mælst lægri frá árinu 2021. Þó er núverandi mæling ekki sérlega lág í sögulegu ljósi eins og sést á myndinni.

Mest lækkar undirvísitala fyrirhugaðra húsnæðiskaupa. Töldu 4,4% svarenda líklegra en ekki að þau myndu ráðast í íbúðakaup á næstunni. Til samanburðar var þetta hlutfall 7,1% haustið 2020. Síðan þá hafa aðstæður á íbúðamarkaði vitaskuld breyst mikið, íbúðaverð hækkað umtalsvert og vextir á nýjum íbúðalánum sömuleiðis auk þess sem lánaskilyrði hafa verið hert.

Bifreiðakaup og utanlandsferðir eru umtalsverður hluti af innfluttri neyslu landans og hefur ör vöxtur á hvoru tveggja átt sinn þátt í viðskiptahalla undanfarinna missera. Það gæti því munað um minna í viðskiptajöfnuði landsins á komandi fjórðungum ef verulega dregur úr slíkum neysluvexti, hvað þá ef samdráttur verður. Kaup heimila á nýjum bifreiðum tóku reyndar myndarlegan fjörkipp í maí eftir samdrátt mánuðina á undan. Trúlega hefur þó talsverður hluti þeirra bílakaupa þegar verið ákveðinn og jafnvel frágenginn allnokkru fyrr. Í öllu falli hyggjast ríflega 12% svarenda ráðast í bílakaup næstu mánuðina og hefur þetta hlutfall ekki verið lægra í 3 ár.

Þróun VVG og Stórkaupavísitölunnar rímar við aðra tímanlega hagvísa sem tengjast þróun einkaneyslu og benda til nokkurs viðsnúnings í neyslugleði landsmanna á öðrum fjórðungi ársins. Til að mynda skrapp kortavelta heimila að raungildi saman um ríflega 5% að jafnaði í apríl og maí frá sama tíma fyrir ári. Þá dróst kaupmáttur launa að meðaltali saman um 0,2% á sama tíma. Einkaneysla jókst um tæp 5% á fyrsta fjórðungi þessa árs eftir nærri 9% vöxt í fyrra en væntanlega mun neysluvöxturinn verða mun hægari það sem eftir lifir árs. Í nýlegri þjóðhagsspá okkar spáum við 3,2% einkaneysluvexti í ár og skýrist stærstur hluti þess vaxtar af fólksfjölgun. Neysla á hvern landsmann mun hins vegar líklega breytast fremur lítið milli ára.

Hugarfarskreppa?

Lífseigur einkaneysluvöxtur og hátt atvinnustig á sama tíma og væntingar mælast fremur lágar er raunar ekki einskorðað við Ísland undanfarna fjórðunga. Svipaða þróun má sjá víða í nágrannalöndunum og hefur það valdið efnahagsgreinendum talsverðum heilabrotum. Hafa samdráttarspár í hinum ýmsu hagkerfum ekki síst byggt á neikvæðri þróun á væntingamælikvörðum bæði meðal heimila og stjórnenda fyrirtækja. Kreppan hefur hins vegar látið á sér standa víðast hvar enn sem komið er.

Þetta fyrirbæri hefur fengið nafnið „vibecession“, sem ef til vill mætti þýða sem hugarfarskreppu, í skrifum greinenda erlendis. Mögulegar skýringar eru meðal annars sú röð skella sem dunið hefur á heimshagkerfinu frá byrjun áratugarins (heimsfaraldur, Úkraínustríð, verðbólguskot, vaxtahækkanir) þar sem eitt hefur tekið við af öðru, viðhaldið óvissu og komið í veg fyrir þá tilfinningu almennings að efnahagsástandið sé í sæmilegu jafnvægi.  

Sér í lagi hafa ýmsir horft til verðbólguskotsins sem geisað hefur undanfarin misseri meðal landa heims og kallað fram snarpar vaxtahækkanir víðast hvar eftir áratugi hóflegrar verðbólgu og fremur lágra vaxta. Þar sem laun hafa óvíða utan Íslands haldið í við verðbólgu upp á síðkastið beinast sjónir margra sér í lagi að minnkandi kaupmætti launa sem virðist vega þyngra en hátt atvinnustig í huga neytenda. Heimilin virðast því hafa brugðist við dýrtíðinni með því að ganga á uppsafnaðan sparnað frá faraldurstímanum, sem kann að skýra misræmið milli kaupmáttarþróunar og væntinga annars vegar, og neysluþróunar hins vegar. Góðu heilli er þó kaupmáttarþróunin farin að þokast í rétta átt á ný víðast hvar eftir því sem verðbólga hjaðnar og laun hækka hraðar en verið hefur. Í kjölfarið hafa væntingar víða í helstu iðnríkjum tekið að hækka á nýjan leik.

Forvitnilegt verður að fylgjast með hvort samband væntinga og einkaneysluþróunar verður áfram allsterkt líkt og verið hefur. Enn sem komið er virðist þó flest benda til þess að hægari einkaneysluvöxtur muni fylgja í kjölfar niðursveiflunnar í væntingum hérlendra neytenda líkt og fyrri daginn.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband