Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Fyrsta íbúðin 2050

Hvernig verða aðstæður til íbúðakaupa eftir tæpa þrjá áratugi?


Ég var að kaupa mína fyrstu íbúð!

Loksins tókst það og ég mun aldrei gleyma þeirri hamingjustund þegar ég fékk lyklana af fyrstu íbúðinni minni afhenta í mars 2050. Ég hef heyrt að ég sé á þessum týpíska aldri fyrir fyrstu kaupendur, ég verð þrítug á árinu og meðalaldur fyrstu kaupenda er akkúrat í kringum þrítugt.

Það er langt síðan ég fór að hugsa um að kaupa mér íbúð og ég hef verið að safna mér fyrir útborgun í þó nokkuð mörg ár. Ég skal viðurkenna að þetta voru aðeins fleiri ár og meira mál en ég hafði kannski vonað í fyrstu. Það er stórt skref að kaupa sína fyrstu fasteign en mér er sagt að þannig hafi það svo sem alltaf verið. Ef ég ætti að gefa öðrum eitt ráð varðandi þetta ferli væri það að stofna séreignasparnað sem allra fyrst. Ég byrjaði á honum þegar ég byrjaði að vinna með skóla og gat núna nýtt hann í útborgun sem varð til þess að ég gat keypt íbúðina fyrr en ella.

Á meðan ég hef verið að safna mér fyrir útborgun hef ég fylgst vel með stöðunni á fasteignamarkaðinum. Sem betur fer hefur hann verið í miklu betra jafnvægi síðustu ár en var hér á árum áður. Við lærðum mikið af reynslunni í Covid þegar íbúðaverð hækkaði alveg svakalega og eftir það var ljóst að eitthvað þyrfti að gera til að sporna gegn svona miklum verðhækkunum. Á þessum tíma var það nefnilega ekkert nýtt á nálinni að íbúðaverð færi á skrið þegar eftirspurn breyttist hratt og framboðshliðin lengi að taka við sér.

Covid var dropinn sem fyllti mælinn í þessum efnum og farið var í allsherjar átak til að fjölga íbúðum í takti við íbúafjölda og almenna eftirspurn hverju sinni. Frá árinu 2023 hafa verið byggðar rúmlega 3.000 íbúðir að meðaltali á hverju ári, mismikið á milli ára en alltaf hefur verið miðað við horfurnar og þörfina næstu árin. Þetta hefur búið til allt annan og betri fyrirsjáanleika og með þessum hætti hefur verið komið í veg fyrir svona miklar íbúðaverðshækkanir eins og fólk bjó við fyrir þremur áratugum.

Það er líka gaman að segja frá því að á síðustu þremur áratugum hefur mikil áhersla verið lögð á sjálfbærni á Íslandi. Það hefur m.a. leitt til þess að ný sjálfbær hverfi hafa risið á höfuðborgarsvæðinu. Ég ákvað einmitt að kaupa mér íbúð í svoleiðis hverfi. Öll helsta þjónusta er innan hverfisins og svo get ég nýtt mér góðar almenningssamgöngur í vinnuna mína í miðbænum, sem iðar allur af mannlífi. Eins og flestir vinn ég líka heima tvo daga vikunnar og þá kemur þjónusta í hverfinu að góðum notum. Ég get skroppið út í lágvöruverslun eða á kaffihús þótt ég búi í svokölluðu úthverfi. Ef ég horfi í baksýnisspegilinn hvað þetta varðar síðustu þrjá áratugina sýnist mér þetta allt bara hafa gengið ljómandi vel upp og ég er stolt af því að hafa fengið vera partur af þessu ferðalagi... í nýju fínu íbúðinni minni.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu og fræðslu Íslandsbanka