Eldisgarður verður byggður í þremur áföngum. Fullbyggð mun landeldisstöðin framleiða 36.000 tonn af óslægðum laxi sem jafngildir 30.000 slægðum tonnum.
Gengið var frá fjármögnun fyrsta áfanga Eldisgarðs í lok apríl. Hún fólst annars vegar í útgáfu nýs hlutafjár í Samherja fiskeldi ehf. upp á 125 milljónir evra og hins vegar sambankaláni upp á 110 milljónir evra. Þá var greint frá því að til stæði að auka umfang hlutafjárútgáfunnar vegna mikils áhuga á verkefninu. Stækkunin er nú frágengin og hefur verið undirritaður áskriftarsamningur vegna útgáfu nýs hlutafjár fyrir 210 milljónir evra.
Fjármögnun að meðtöldu sambankaláninu er því alls 320 milljónir evra eða rúmir 45 milljarðar króna. Eiginfjárframlag hluthafa vegna fyrstu tveggja áfanga Eldisgarðs liggur nú fyrir sem gerir Samherja fiskeldi kleift að byggja landeldisstöðina hraðar en áður var fyrirhugað. Þannig getur félagið strax hafið undirbúning hönnunar og framkvæmda á öðrum áfanga stöðvarinnar.
Landeldi er fjárfrek þekkingargrein eins og veiðar og vinnsla
Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Samherja fiskeldis ehf., segir að hlutafjárútgáfan sé traustsyfirlýsing og henni fylgi rík ábyrgð.