Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Fjölmargir ferðamenn og minni vöruskiptahalli í september

Ferðamannafjöldi í nýliðnum september var hinn næstmesti í þeim mánuði frá upphafi og á sama tíma dró áfram úr halla á vöruskiptum við útlönd. Útlit er því fyrir að afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum hafi verið talsverður í mánuðinum og raunar á þriðja ársfjórðungi samanlagt. Horfur eru á lítilsháttar viðskiptaafgangi á árinu 2023 á heildina litið.


222 þúsund erlendir ferðamenn yfirgáfu landið um Keflavíkurflugvöll í septembermánuði samkvæmt nýbirtum tölum Ferðamálastofu. Eru það heldur fleiri en við höfðum spáð og jafngildir fjórðungs aukningu milli ára. Aðeins árið 2018 hafa ferðamenn í september verið fleiri. Sem fyrri voru Bandaríkjamenn fjölmennasti í þessum hópi (30% af heild). Næstir komu Þjóðverjar (6,9%), þá Pólverjar (4,8%), Kanadamenn (4,6%) og Bretar (4,6%). Kanadamönnum hefur fjölgað allnokkuð meðal ferðamanna hingað til lands síðustu mánuði og voru þeir ríflega 10 þúsund annan mánuðinn í röð.

Frá áramótum hafa 1,7 milljón erlendir ferðamenn farið um Keflavíkurflugvöll og jafngildir það ríflega þriðjungs fjölgun milli ára. Við spáðum því í þjóðhagsspá okkar í síðasta mánuði að fjöldinn þetta árið færi yfir 2,2 milljónir og bendir flest til þess að sú spá gangi eftir.

Dregur úr vöruskiptahalla

Vöruskiptahalli var 23,7 ma.kr. í september samkvæmt nýlega birtum bráðabirgðatölum Hagstofunnar. September er annar mánuðurinn í röð þar sem vöruskiptahalli minnkar talsvert frá mánuðinum á undan og hefur hallinn ekki verið minni frá því í mars síðastliðnum. Skrifast það bæði á tiltölulegt hóflegan vöruinnflutning og myndarlegan vöruútflutning í mánuðinum í samanburði við mánuðina á undan.

Alls voru fluttar út vörur fyrir tæplega 84 ma.kr. í september og hefur útflutningur ekki verið meiri í krónum talið í hálft ár. Þar vó ekki síst þungt að útflutningur sjávarafurða var með mesta móti auk þess sem útflutningur á iðnaðarvörum öðrum en áli tók nokkurn fjörkipp. Verðþróun á sjávarafurðum hefur verið tiltölulega hagfelld undanfarið á sama tíma og álverð hefur gefið allnokkuð eftir frá þeim hæðum sem það náði í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.

Vöruinnflutningur breyttist á sama tíma fremur lítið frá síðustu mánuðum en hann nam tæpum 108 ma.kr. í september. Hins vegar skrapp hann verulega saman miðað við sama mánuð í fyrra þegar vörur voru fluttar inn fyrir 134 ma.kr. Mestu munar þar um mikinn samdrátt milli ára í innflutningi á hrávörum (-24%) og eldsneyti (-49%) Eins og sjá má af myndinni var október í fyrra einnig óvenjulegur á innflutningshliðinni og trúlega verður slíkur samdráttur milli ára einnig í innflutningstölum næsta mánaðar.

Undanfarna fjórðunga hefur dregið hratt úr vexti bæði vöruinnflutnings og -útflutnings eftir hraðan vöxt árin 2021-2022. Reiknað á föstu gengi krónu miðað við gengisvísitölu Seðlabankans hefur útflutningur skroppið nær samfellt saman frá áramótum en innflutningsvöxtur verið öllu lífseigari á heildina litið. Samdráttur í útflutningi skrifast m.a. á verðlækkun á áli og minna útflutt magn sjávarafurða. Á innflutningshliðinni er viðsnúningurinn ekki síst til marks um hægari vöxt eftirspurnar eftir innfluttum fjárfestingar- og neysluvörum auk þess sem verð á eldsneyti og hrávörum gaf allnokkuð eftir fyrr á árinu.

Líklega allnokkur afgangur af utanríkisviðskiptum á 3. ársfjórðungi

Nú liggja fyrir tölur um vöruskipti á 3. ársfjórðungi. Samkvæmt þeim nam vöruskiptahalli 106 ma.kr. Tölur um þjónustuviðskipti hafa hins vegar ekki verið birtar nema til og með júní sl. Út frá hagvísum um ferðamannafjölda, kortaveltu og fleiri þætti má þó slá grófu mati á hvernig þau viðskipti hafi verið á fjórðungnum. Þar vega væntanlega þyngst myndarlegar tekjur af erlendum ferðamönnum í takti við verulega fjölgun þeirra milli ára. Við áætlum þannig að afgangur af þjónustuviðskiptum hafi verið í grennd við 137 ma.kr. á tímabilinu þótt vissulega sé umtalsverð óvissa fólgin í því mati.

Á heildina litið teljum við því að afgangur á viðskiptum við útlönd með vörur og þjónustu hafi verið í grennd við 30 ma.kr. á þriðja ársfjórðungi. Er það minni afgangur en á sama tíma í fyrra (48 ma.kr.) en vissulega vísbending um að innflæði tengt utanríkisviðskiptum hafi verið allnokkur á fjórðungnum.

Gengi krónu braggaðist nokkuð framan af 3. ársfjórðungi en gaf í kjölfarið talsvert eftir í september. Miðað við fram komnar tölur og áætlun okkar virðist í öllu falli ólíklegt að óhagfelld utanríkisviðskipti hafi spilað hlutverk í veikingu krónunnar frá ágústlokum.

Horfur eru á að þokkalegt jafnvægi verði á utanríkisviðskiptum út árið en þar munu vöruskiptahalli og afgangur af þjónustujöfnuði væntanlega togast á líkt og verið hefur undanfarin misseri. Við spáðum því í september að lítilsháttar afgangur yrði af viðskiptajöfnuði á árinu 2023 í heild en viðskiptahalli á fyrri helmingi ársins var 4 ma.kr. Ofangreind þróun virðist ríma ágætlega við þá spá.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband