Foreldrahlutverkið kemur skemmtilega á óvart á þann veg að vera samtímis meira vesen en við höfðum áætlað en líka mun yndislegra. Þegar barn kemur í heiminn, með öllu tilheyrandi, viljum við umfram allt njóta þeirra góðu stunda sem við eigum með barninu og helst hafa þær sem allra flestar.
Fæðingarorlofsrétturinn sem launafólk hér á landi hefur er afar dýrmætur og skyldi ekki tekið sem sjálfsögðum hlut, þar sem hann gefur okkur færi á að njóta samveru með barninu án teljandi áhrifa á fjárhaginn. Eða þannig ætti hann að vera. Þrátt fyrir að hámarksgreiðslur hafi hækkað um fjórðung á undanförnum þremur árum og mánuði verið bætt við þá sem í boði eru mun taka fæðingarorlofs óumflýjanlega hafa áhrif á tekjur heimilisins, bæði í dag og á lífeyrisaldri.
Lægri tekjur í orlofi
Orlofsgreiðslan verður aldrei hærri en 80% heildarlauna og fer ekki yfir 600.000 kr. á mánuði. Þá er ekki greitt mótframlag í viðbótarlífeyrissparnað og þar sem hægir á réttindaávinnslu í lífeyrissjóði sökum lægri tekna hefur þetta einnig í för með sér tekjuskerðingu þegar komið er á eftirlaunaaldur. Ef við höfum ekki borð fyrir báru fjárhagslega þegar fjölgar í fjölskyldunni er hætt við að þetta valdi fjárhagslegum erfiðleikum eða í það minnsta áhyggjum og það er það síðasta sem við viljum verja fæðingarorlofinu í.
Samhliða skertum tekjum fylgir barneignum að sjálfsögðu kostnaður. Virkur markaður með notaðar barnavörur hjálpar vissulega við að halda þeim útgjöldum í skefjum en bílstólar, klæðnaður, bleyjur og aðrar nauðsynjar eru fljótar að telja.
Sama hvernig snýr á fjárhagshliðinni er þetta þegar öllu er á botninn hvolft allt saman að sjálfsögðu vel þess virði og rúmlega það.
Ekki spara barneignirnar, munum bara að spara fyrir þeim svo við njótum þeirra betur.
Greining birtist fyrst í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál