Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Fjárfestasvik - nokkur atriði til að hafa í huga

Það borgar sig að taka sumum auglýsingum með fyrirvara


Lögreglan hefur vakið athygli á svikamálum að undanförnu þar sem freistað er að fá Íslendinga til að taka þátt í fjárfestingum, sem reynast þó blekking. Auglýsingar á samfélagsmiðlum og alls kyns gylliboð eru algeng og hafa í því samhengi jafnvel verið notaðar myndir af þekktum Íslendingum, sem tengjast auglýsanda þó ekki. Ekki er einungis um auglýsingar að ræða og er ekki óalgengt að komið sé á sambandi með símtölum, tölvupóstum og smáskilaboðum.

Nú nýlega hefur nokkuð borið á svikum ágengra sölumanna sem sækjast eftir afritum af skilríkjum og greiðslukortum í tengslum við ætlaðar fjárfestingar, sem aldrei verða.

Lögreglan bendir á nokkur atriði sem gott að hafa í huga ef rekist er á slíkar auglýsingar og ef sölumenn setja sig í samband við ykkur

  • Takið gylliboðum með mikilli tortryggni
  • Forðist að deila kortaupplýsingum og skilríkjum
  • Tilkynnið slíkar auglýsingar til Facebook með því að smella á „Report Ad“
  • Hægt er að hafa samband við lögreglu vegna slíkra mála á abendingar@lrh.is eða cybercrime@lrh.is

Ítarlegar upplýsingar má nálgast á upplýsingasíðu Íslandsbanka um netöryggi.