Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Ferðaþjónustan komin á fulla ferð eftir faraldur

Umsvif ferðaþjónustunnar í september voru um það bil þau sömu og í sama mánuði 2016 og 2019. Horfur fyrir komandi misseri í greininni eru góðar en þó er talsverð óvissa um komandi vetur, sér í lagi hvað breska ferðamenn varðar. Við gerum ráð fyrir að 1,7 milljónir erlendra ferðamanna sæki landið heim í ár og 2 milljónir á næsta ári.


Samkvæmt nýlega birtum tölum Ferðamálastofu fóru tæplega 177 þúsund erlendir farþegar frá landinu um Keflavíkurflugvöll í september. Er þetta svipaður fjöldi og fór um flugvöllinn í þessum mánuði árin 2016 og 2019, en ríflega ¾ af metfjöldanum í september 2018. Fjöldinn er einnig í takti við spá okkar sem birt var í síðasta mánuði.

Líkt og undanfarið voru Bandaríkjamenn fjölmennastir meðal erlendra þjóða sem sóttu landið heim. 30% heildarfjöldans var þarlendur en í næstu sætum voru Þjóðverjar (9%), Bretar (6%), Spánverjar og Frakkar (5% hvor þjóð). Þá voru ferðamenn frá hinum Norðurlöndunum samtals 8% heildarfjöldans sem heimsótti Ísland í mánuðinum. Ferðamenn frá Asíu eru hins vegar enn sjaldséðir hér á landi í kjölfar faraldursins og þannig var aðeins ríflega einn af hverjum hundrað ferðamönnum frá Kína og tengdum landsvæðum.

Verður bakslag í vetur?

Eftir tvö erfið ár í ferðaþjónustu þar sem faraldurinn réði að stórum hluta ferðinni um komur ferðamanna hingað til lands hefur hagur greinarinnar vænkast hratt undanfarið.

Erlendir ferðamenn hingað til lands voru tæplega 1,3 milljónir á fyrstu níu mánuðum ársins ef miðað er við brottfarartölur um Keflavíkurflugvöll. Svo margt ferðafólk hefur ekki sótt landið heim á þessu tímabili frá árinu 2019. Þótt heimsóknir fólks frá Asíu séu mun færri nú en fyrir faraldur hefur fjölgun ferðafólks frá Bandaríkjunum og Evrópu bætt það upp.

Þess má geta að samkvæmt Ferðamálastofnun sameinuðu þjóðanna (UNWTO) voru ferðalög á heimsvísu á fyrstu sjö mánuðum ársins 57% af því sem tíðkaðist fyrir faraldur. Hér á landi var þetta hlutfall hins vegar 77% á sama tímabili og sé horft til háannar er hlutfallið talsvert yfir 90% ef þetta ár er borið saman við árið 2019.

Það er vissulega ekki alfarið á vísan að róa varðandi komandi mánuði hjá ferðaþjónustunni. Efnahagshorfur hafa dökknað talsvert hjá mörgum þeirra þjóða sem hvað helst sækja Ísland heim. Sér í lagi eru horfur fyrir veturinn tvísýnar á meginlandi Evrópu og í Bretlandi. Ferðafólk frá síðarnefnda landinu er einmitt sérstaklega mikilvægur hluti af vetrarferðaþjónustu hér á landi. Þannig komu 3 af hverjum 4 Bretum sem sóttu Ísland heim árin fyrir faraldur utan háannatíma og sker þjóðin sig úr hvað þetta varðar eins og sjá má af grafinu hér að ofan.

Enn sem komið virðast góðu heilli fá merki á lofti um að rýrnandi kaupmáttur og lakari efnahagshorfur hafi áhrif á ferðavilja hingað til lands. Þar þarf þó að hafa í huga að ferðahegðun á heimsvísu hefur breyst verulega frá því faraldurinn skall á, fólk bókar nú ferðir með styttri fyrirvara en áður og að sama skapi virðast áformaðar ferðir vera blásnar af eða þeim seinkað með styttri fyrirvara en var.

Jákvæð teikn á lofti fyrir næstu misseri

Útlitið fyrir komandi misseri í ferðaþjónustu er gott þótt framangreind óvissa tengd þróun mála í Bretlandi sem og á meginlandi Evrópu á komandi vetri sé umtalsverð. Bókunarstaða og vaxandi tíðni áætlaðra flugferða til og frá landinu ásamt vísbendingum á borð við vefleitir samkvæmt Google trends benda til þess að fjöldi ferðamanna á komandi fjórðungum gæti orðið áþekkur fjöldanum árið 2019.

Við spáum því í nýlegri þjóðhagsspá okkar að 1,7 milljónir ferðamanna sæki landið heim á þessu ári. Gangi spá okkar eftir er það svipaður fjöldi og var hér fyrir sex árum síðan. Á næsta ári gerum við ráð fyrir 2 milljónum ferðamanna og 2,2 milljónum árið 2024. Hafa ber í huga að spá þessi miðast við brottfarir um Keflavíkurflugvöll en talsverður fjöldi mun auk þess sækja landið heim um Akureyrarflugvöll sem og með skemmtiferðaskipum.

Hægari fjölgun ferðamanna þegar frá líður í spá okkar skýrist meðal annars af tvísýnum efnahagshorfum á komandi misserum bæði vestan og austan hafs sem og hærra raungengi sem gerir Ísland að dýrari áfangastað en verið hefur undanfarið.

Höfðatalning segir vitaskuld ekki alla söguna um tekjuöflun ferðaþjónustunnar heldur skiptir líka miklu hversu lengi hver ferðamaður dvelur hér á landi og hversu mikil vöru- og þjónustukaup hans eru á hverjum dvalardegi. Góðu heilli lítur út fyrir að tekjur af hverjum ferðamanni fari vaxandi og skiptir miklu að viðhalda þeirri þróun á komandi árum.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband