Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Ferðaþjónustan áfram langstærsta útflutningsgreinin

Ágjöf í ferðaþjónustu hefur leitt til samdráttar í útflutningstekjum greinarinnar og minni afgangs af þjónustuviðskiptum það sem af er ári en á sama tíma í fyrra. Ferðaþjónusta skilar þó ennþá jafnvirði nærri fjögurra af hverjum tíu krónum í gjaldeyristekjum þjóðarbúsins og ríður baggamuninn um að talsverður afgangur mun væntanlega reynast áfram af utanríkisviðskiptum.


Samkvæmt nýlegum tölum frá Hagstofu nam afgangur af þjónustujöfnuði 101 ma.kr. á þriðja fjórðungi ársins. Það er 22 mö.kr. minni afgangur en í sama fjórðungi fyrir ári og liggur munurinn að langstærstum hluta í minni tekjum af ferðaþjónustu. Þannig skruppu útflutningstekjur af ferðaþjónustu saman um 4,6 ma.kr. á milli ára, en sá liður endurspeglar útgjöld erlendra ferðamanna meðan á dvöl þeirra hérlendis stendur. Snarpastur var þó samdrátturinn í tekjum af samgöngum og flutningum, en þar nam hann 18,3 mö.kr. sem jafngildir því að ríflega fimmtungi færri krónur hafi komið í kassa innlendra aðila vegna ferðalaga útlendinga í ár en á sama tíma í fyrra.

Merkilegt nokk virðist 12% samdráttur í ferðalögum Íslendinga á erlenda grund í sumar ekki hafa skilað samdrætti í ferðaútgjöldum landsmanna í krónum talið. Slík útgjöld námu rétt tæpum 60 mö.kr. á þriðja fjórðungi ársins samanborið við 57 ma.kr. á sama tíma í fyrra. Hér, eins og raunar í öllum samanburði milli ára í þessum tölum, þarf að hafa í huga að krónan var að jafnaði u.þ.b. 10% veikari gagnvart erlendum gjaldmiðlum á þriðja fjórðungi þessa árs en á sama tímabili í fyrra. Útgjöld Íslendinga vegna ferðalaga erlendis í gjaldeyri virðast því að jafnaði hafa verið á svipuðu róli hjá hverjum og einum þeirra þetta árið og á því síðasta.

Minni undirliggjandi afgangur í ár

Á fyrstu þremur fjórðungum ársins nam afgangur af viðskiptum með vörur og þjónustu milli landa alls tæpum 97 mö.kr. samanborið við ríflega 85 ma.kr. á sama tímabili í fyrra. Þar ber að taka tillit til þess að vöruskipti voru óvenju hagstæð á fyrsta fjórðungi ársins vegna bókfærðrar sölu á flugvélum WOW-Air sem vitaskuld kom ekki til af góðu. Að skipum, flugvélum og öðrum óreglulegum vöruskiptaliðum undanskildum nam vöru- og þjónustujöfnuður á fyrstu 9 mánuðum ársins u.þ.b. 78 mö.kr. samanborið við 96 ma.kr. á sama tímabili árið 2018. Má því segja að undirliggjandi þróun sé í átt til minni afgangs af slíkum viðskiptum. Engu að síður má að okkar mati vel við una að afgangur af þessari stærðargráðu mælist enn af viðskiptum við útlönd eftir þann skell sem dundi á ferðaþjónustunni á fyrstu mánuðum þessa árs.

Ferðaþjónustan trónir áfram á toppnum

Þrátt fyrir ágjöf í ár er ferðaþjónustan enn langstærsta útflutningsgrein landsins og eru útflutningstekjur greinarinnar enn af svipaðri stærðargráðu og tekjur af fisk- og álútflutningi samanlagt. Námu tekjur af erlendum ferðamönnum alls 382 mö.kr. á fyrstu 9 mánuðum þessa árs samkvæmt sundurliðun Hagstofunnar, en á sama tímabili skilaði sjávarútvegur alls 192 mö.kr. tekjum og álútflutningur 161 ma.kr. tekjum. Ferðaþjónustan stóð því að baki 38% allra útflutningstekna þjóðarbúsins á tímabilinu, en á sama tímabili fyrir ári var þetta hlutfall hins vegar 42%.

Seðlabankinn birtir tölur um greiðslujöfnuð við útlönd á fyrstu þremur fjórðungum ársins ásamt erlendri stöðu þjóðarbúsins í septemberlok næstkomandi mánudag. Þegar liggja fyrir tveir veigamestu undirliðir viðskiptajafnaðar, þ.e. vöruskipti og þjónustujöfnuður, en í næstu viku bætast við tölur um fjármagns- og launatekjur á milli landa, fjárframlög og fleira af því tagi. Þegar liggur þó fyrir að viðskiptaafgangur verður umtalsverður í ár og því allar líkur á að 2019 reynist sjöunda árið í röð þar sem utanríkisviðskipti skila verulegum gjaldeyristekjum til þjóðarbúsins. Í þjóðhagsspá okkar sem birt var í septemberlok gerðum við ráð fyrir því að viðskiptaafgangur myndi reynast nærri 100 mö.kr., eða sem svarar til 3,5% af landsframleiðslu, þetta árið og að næstu tvö ár yrði afgangurinn i kring um 2,5% af landsframleiðslu hvort ár. Í ljósi nýjustu talna virðist sú spá enn vera í fullu gildi.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband