Ferðamönnum fjölgar, en þó hægar en við væntum

Ferðamönnum um Keflavíkurflugvöll fjölgaði um tæp 10% milli ára á fyrsta fjórðungi ársins. Er það nokkru minni fjölgun en við væntum auk þess sem vísbendingar eru um að tekjur af hverjum ferðamanni kunni að vera að dragast saman. Líklega skýrist talsvert á komandi vikum hvort útlit er fyrir að tekjur ferðaþjónustunnar vaxi að ráði þetta árið eftir hraðan vöxt síðustu ára.


Erlendir ferðamenn um Keflavíkurflugvöll voru 173 þúsund í mars síðastliðnum samkvæmt nýbirtri brottfarartalningu Ferðamálastofu. Eru það álíka margir og mest varð árið 2018 og jafngildir fjölgun um tæp 8% á milli ára. Það eru engu að síður heldur færri ferðamenn en við áttum von á í ljósi þess að páskar voru að stærstum hluta í mars þetta árið en í apríl í fyrra.

Líkt og jafnan gerist með hækkandi sól tók ferðafólk frá Bandaríkjunum fram úr Bretum hvað hlutfall af heildarfjölda varðar í mars eftir að síðarnefnda þjóðin hafði verið fjölmennust á upphafsmánuðum ársins. Alls voru bandarískir ferðamenn tæp 22% af heildarfjölda og Bretar komu í öðru sæti með tæplega 20% hlutdeild. Þar á eftir komu Kínverjar (5,0%), Frakkar og Ítalir (4,8% hvor þjóð). Ferðahugur Kínverja hefur glæðst hressilega á nýjan leik eftir langvinnar ferðatakmarkanir og takmarkaðan verðavilja í kjölfar faraldursins. Þannig hafa þegar komið nokkru fleiri ferðamenn frá Kína hingað til lands það sem af er ári en komu allt árið 2022 og fjöldi þeirra á fyrsta ársfjórðungi er nærri helmingur af heildafjöldanum í fyrra.

Horfur í ferðaþjónustu fyrir þetta ár hafa verið mikið í umræðunni í vetur enda hafa vaxandi blikur verið á lofti um áhrif jarðhræringa á Reykjanesi sem og rýrnandi samkeppnishæfni á greinina eftir myndarlega endurkomu hennar að faraldri afstaðnum. Til að mynda hafa verið vísbendingar um að dvalartími Íslandsfara sé að styttast auk þess sem a.m.k. sumir aðilar innan ferðaþjónustunnar hafa fundið fyrir bakslagi í bókunum þótt það sé langt frá því algilt.

Ef rýnt er í tengda hagvísa og þeir bornir saman við brottfarartölur Ferðamálastofu kemur til að mynda í ljós að gistinætur á skráðum gististöðum voru 2,6 á hvern erlendan ferðamann. Er það talsverð breyting miðað við undanfarin ár. Þannig voru gistinætur í janúar og febrúar 3,1 að jafnaði í fyrra, 3,0 árið 2022 og 2,9 að jafnaði síðustu árin fyrir faraldur. Gistinóttum erlends ferðafólks á skráðum gististöðum fækkaði raunar um 2,5% milli ára í febrúar þrátt fyrir 14% fjölgun brottfara um Keflavíkurflugvöll á sama tíma samkvæmt frétt Hagstofunnar.

Þá leiðir samanburður á kortaveltu og ferðamannafjölda á fyrsta ársfjórðungi í ljós að kortavelta erlendra korta hjá innlendum færsluhirðum minnkaði í krónum talið um 11% milli ára. Þessar tölur hafa þó þann stóra annmarka að þær ná ekki yfir kortafærslur hérlendis sem erlendir færsluhirðar annast. Ýmis fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa fært viðskipti sín frá innlendum færsluhirðum til erlendra undanfarin misseri og hefur því gagnsemi kortaveltutalnanna sem tímanlegs hagvísis fyrir þróun í ferðaþjónustu minnkað. Verður fróðlegt að sjá gögn um veltu í greininni á upphafsmánuðum ársins þegar þau birtast síðar í mánuðinum, ekki síst til að varpa ljósi á hvernig þau ríma við framangreinda hagvísa.

Aukast tekjur ferðaþjónustunnar að ráði í ár?

Á fyrsta fjórðungi þessa árs fóru samtals 460 þúsund erlendir farþegar frá landinu um Keflavíkurflugvöll en það samsvarar rétt tæplega 10% fjölgun milli ára. Þróunin hefur þó verið heldur undir spá okkar um ferðamannafjölda á þessu ári sem birtist í þjóðhagsspá í janúarlok. Þar gerðum við ráð fyrir að 486 þúsund ferðamenn myndu sækja landið heim á fjórðungnum, sem hefði jafngilt 16% fjölgun milli ára.

Að sama skapi er enn töluverð óvissa um hvernig spá okkar um ríflega 2,4 milljónir ferðamanna hingað til lands á þessu ári muni ganga eftir, sem og hvort samræmi verði milli fjöldaþróunar og tekna í ljósi vísbendinga um styttri meðaldvalartíma það sem af er ári. Við fjölluðum nýverið um það hvaða áhrif lakari gangur í ferðaþjónustu en við væntum gæti haft á efnahagsþróun, stöðu vinnumarkaðar og þróun á íbúðamarkaði. Ef tekjur ferðaþjónustunnar aukast ekki að marki þetta árið, hvort sem er vegna lítillar fjölgunar, minni tekna af hverjum ferðalang eða blöndu beggja, mun hagkerfið kólna hraðar en nýlegar spár hafa almennt gert ráð fyrir. Líklega munu línur fyrir háönnina skýrast talsvert í þessum mánuði þegar stórir erlendir aðilar segja margir af eða á um stórar pantanir hjá innlendum ferðaþjónustufyrirtækjum fyrir sumarið og haustið.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband