Fjölgar ferðafólki í ár?

Vísbendingar eru um að jarðhræringarnar á Reykjanesi og afleiðingar þeirra hafi allnokkur áhrif á spurn eftir Íslandsferðum um þessar mundir. Aukist tekjur ferðaþjónustunnar ekki í ár miðað við síðasta ár leiðir það meðal annars til minni hagvaxtar, hægari styrkingar krónu og minni eftirspurnarþrýstings á íbúða- og vinnumarkaði en ella.


Ferðaþjónustuárið 2024  fór þokkalega af stað þótt nokkur merki séu um áhrif af jarðhræringum á Reykjanesi á spurn eftir Íslandsferðum líkt og á lokamánuðum síðasta árs. Samkvæmt nýlega birtum tölum Ferðamálastofu voru brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll tæplega 131 þúsund í janúar. Er það fjölgun um 8% frá janúar í fyrra en þó heldur undir spá okkar úr nýlega birtri þjóðhagsspá um ferðamannafjölda í mánuðinum.

Eins og gjarnan á þessum tíma árs voru Bretar fjölmennastir af þeim þjóðum sem sóttu landið heim í janúar. Tæplega 21% af heildarfjöldanum voru af bresku bergi brotin. Í öðru sæti voru Bandaríkjamenn (19%), þá komu Þjóðverjar (6%), Hollendingar (5%) og Kínverjar (4%). Síðasttalda þjóðin hefur undanfarið sótt nokkuð í sig veðrið á ný meðal ferðafólks hingað til lands eftir að hafa verið sjaldséð fyrst eftir að faraldrinum fór að linna. Ferðafólk frá Norðurlöndunum taldi alls tæplega 4% af heildarfjöldanum í janúar.

Eru tekjur af hverjum ferðamanni að skreppa saman?

Fjöldi ferðamanna segir vitaskuld ekki alla söguna um umsvif ferðaþjónustunnar á hverjum tíma. Þar skiptir ekki síður máli hversu lengi ferðafólk dvelur að jafnaði á landinu og hversu miklar tekjur verða til vegna hvers og eins. Undanfarið hafa ýmsir innan geirans haft af því áhyggjur að meðal dvalartími í Íslandsheimsóknum virðist vera að styttast og verðmætasköpun tengd hverjum og einum ferðamanni sé hugsanlega að minnka. Fróðlegt er því að bera saman þróun í fjölda ferðamanna við aðrar hagstærðir þeim tengdar á borð við veltu erlendra greiðslukorta hérlendis og fjölda gistinátta. Í þeim samanburði sleppum við í þetta skiptið árunum 2020-2021 enda olli faraldurinn því að slík hlutföll fóru á ferð og flug á því tímabili.

Gögn Hagstofunnar um gistinætur ná fram til loka síðastliðins árs. Ávallt er árstíðarsveifla í dvalarlengd ferðafólks á þann veg að Íslandsdvöl þeirra er að jafnaði lengri á sumrin en á veturna eins og glöggt má sjá af myndinni. Séu nóvember og desember síðasta árs bornir saman við árið 2022 sem og árin 2018-2019 kemur upp úr dúrnum að gistinætur á hvern ferðamann voru að jafnaði 2,6 í mánuðunum tveimur í fyrra. Á sama tíma fyrir ári var talan hins vegar 2,9, árið 2019 voru gistinætur á hvern ferðamann 3,2 og 2,8 í nóvember og desember árið 2018. Þessi einfaldi útreikningur rennir því stoðum undir fyrrnefndar áhyggjur.

Einnig er fróðlegt að bera saman þróun á veltu erlendra greiðslukorta hér á landi og fjölda ferðamanna. Hér þarf þó að setja þann fyrirvara að einhver hluti erlendu kortaveltunnar hér kann að vera vegna netverslunar erlendis frá og þá er einnig nokkuð um að innlendir aðilar eigi greiðslukort frá erlendum fjármálastofnunum.

Að því sögðu eru talsverð líkindi með þróun kortaveltunnar og gistináttanna undanfarin misseri. Árstíðarsveifla er greinileg í kortaveltutölunum, jafnvel þótt leiðrétt sé fyrir fjölda ferðamanna á hverjum tíma. Þannig var kortavelta vegna erlendra korta á Íslandi að jafnaði 147 þúsund fyrir hvern ferðamann sem sótti landið heim á 3. fjórðungi síðasta árs. Á lokamánuðum tveimur var talan hins vegar 110 þúsund og í janúar síðastliðnum 119 þúsund á hvern ferðamann.

Beinn samanburður á þessum tölum er vitaskuld snúnari en á gistinóttum þar sem verðlags- og gengisbreytingar hafa hér áhrif. Þó má nefna að fyrir hvern ferðamann var slík kortavelta 130 þúsund í nóvember og desember 2022 en 103 þúsund árið 2019 og 105 þúsund árið 2018. Það er því í öllu falli ljóst að leiðrétt fyrir verðlagsþróun er lækkunin á þessu hlutfalli milli lokamánaða áranna 2022 og 2023 enn meiri en þau 15% sem hlutfallið lækkaði um í krónum talið.

Með fyrrgreindum fyrirvara um hversu bókstaflega er hægt að túlka þessar tölur má sjá í þeim vísbendingar um að erlendir ferðamenn hér á landi haldi öllu þéttar um pyngjuna í Íslandsferð sinni þessa dagana en var fyrir ári síðan. Haldi sú þróun áfram gæti hún breytt nokkuð samhenginu milli tekjuvaxtar ferðaþjónustunnar og fjölgunar ferðafólks á næstu fjórðungum.

Hvað ef tekjur ferðaþjónustu aukast ekki í ár?

Í nýlega birtri þjóðhagsspá fjöllum við meðal annars um stöðu og horfur í ferðaþjónustu. Líkt og við væntum hélt vöxtur ferðaþjónustu ótrauður áfram allt síðasta ár þrátt fyrir jarðskjálfta og gosóróa á lokamánuðum ársins. Alls komu ríflega 2,2 milljónir ferðafólks hingað til lands um Keflavíkurflugvöll í fyrra og var árið það næst stærsta í sögunni að þessu leyti. Við bætist svo allnokkur fjöldi gesta sem sóttu landið heim með skemmtiferðaskipum og Norrænu.

Horfur eru á áframhaldandi vexti ferðaþjónustunnar á komandi misserum. Leiðandi vísbendingar á borð við úthlutun flugstæða og bókunarþróun benda til þess að árið 2024 verði metár hvað ferðamannafjölda varðar. Alls gerum við ráð fyrir því að ríflega 2,4 milljónir ferðafólks heimsæki Ísland í ár. Næstu árin gerum við ráð fyrir áframhaldandi aukningu þótt hlutfallslega hægi á. Teljum við að fjöldi ferðafólks verði tæplega 2,6 milljónir á næsta ári og ríflega 2,7 milljónir árið 2026.

Ferðaþjónustan skilar bróðurpartinum af þeim útflutningsvexti sem við gerum ráð fyrir í ár í þjóðhagsspá okkar. Í ljósi frétta af hugsanlegu bakslagi í bókunum og áhyggja af minnkandi tekjum á hvern ferðamann er því gagnlegt að skoða hverju það gæti munað fyrir efnahagsþróun hér á landi ef enginn vöxtur verður í greininni þetta árið, hvort sem það stafar af stöðnun í ferðamannafjölda, minnkandi tekjum á hvern ferðamann eða blöndu af þessu tvennu.

Einföld sviðsmyndargreining þar sem við höldum tekjum ferðaþjónustu óbreyttum milli áranna 2023 og 2024 leiðir í ljós að útflutningsvöxtur færi úr 2,9% niður í 0,2%. Á móti myndi draga úr innflutningsvexti vegna minni aðfangaþarfar greinarinnar sem og vegna heldur minni einkaneysluvaxtar. Viðskiptajöfnuður myndi því rýrna frá því að vera jákvæður um 0,7% af VLF yfir í að vera við núllið líkt og við áætlum að hafi verið í fyrra. Krónan myndi þar af leiðandi væntanlega styrkjast minna í ár en við gerum ráð fyrir í grunnspá. Hagvöxtur myndi samkvæmt þessu einnig verða lítill í ár, yrði 1,1% í stað þeirra 1,9% sem grunnspáin hljóðar upp á.

Áhrif á vinnumarkað yrðu einnig umtalsverð ef svona færi. Í grófum dráttum telst okkur til að hverjir 100 þúsund ferðamenn sem hingað koma skapi á bilinu 700 – 800 störf beint og óbeint. Gróflega má því gera ráð fyrir að sú ríflega 200 þúsund ferðamanna fjölgun sem við spáum í ár fjölgi störfum á íslenskum vinnumarkaði um á bilinu 1.400 – 1.600 að öðru óbreyttu.

Ef ekki verður vöxtur í greininni vegna stöðnunar í fjölda, minni tekna af hverjum ferðamanni eða blöndu af þessu tvennu dregur því talsvert úr framboði á störfum á vinnumarkaði í ár miðað við grunnforsendur okkar. Það hefði svo aftur væntanlega í för með sér talsvert minni hreina fólksflutninga til landsins, en aðflutningur fólks í atvinnuleit hefur verið helsta rót hraðrar fólksfjölgunar undanfarin tvö ár. Að sama skapi yrði eftirspurnarþrýstingur á íbúðamarkaði allnokkru minni en ella, bæði vegna hægari fólksfjölgunar og einnig vegna minni spurnar ferðafólks eftir íbúðum til skammtímaleigu.

Gæti flýtt kólnun hagkerfisins

Þótt minni styrking krónu gæti hægt á hjöðnun verðbólgu eru líkur á því að minni eftirspurnarþrýstingur á vinnu- og íbúðamarkaði sem og hægari vöxtur hagkerfisins í heild myndi vega þyngra í verðbólguþróun á komandi fjórðungum. Verðbólga gæti því hjaðnað heldur hraðar og stýrivextir lækkað öllu meira en við gerum ráð fyrir í grunnspá okkar. Það rímar við skoðun stjórnenda Seðlabankans sem svöruðu því aðspurðir á kynningarfundi eftir vaxtaákvörðun að mótbyr í ferðaþjónustu gæti orðið til þess að kæla hagkerfið fyrr en ella og leiða til minni þarfar fyrir peningalegt aðhald á næstunni.

Enn á mikið vatn eftir að renna til sjávar áður en það skýrist hvort grunnspá okkar eða ofangreind frávikssviðsmynd verður nær lagi. Í öllu falli virðist þó ljóst að núverandi atburðarás á Reykjanesi er ferðaþjónustunni ekki sama lyftistöng og „túristagosin“ á undanförnum árum virðast hafa verið. Hvort það breytist á ný verður tíminn að leiða í ljós.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband