Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Ferðamönnum fjölgar á ný

Erlendir ferðamenn voru fleiri í mars en þeir hafa verið frá október í fyrra. Bretum hefur fjölgað hratt í hópi ferðafólks. Útlit er fyrir að ferðamenn verði í námunda við 1,5 milljónir á þessu ári og að ferðaþjónustan taki að nýju forystusætið meðal útflutningsgreina Íslands.


Brottfarir erlendra ferðamanna um Flugstöð Leifs Eiríkssonar voru um 101 þúsund í marsmánuði samkvæmt nýbirtum tölum Ferðamálastofu. Var mars þar með fjölmennasti mánuðurinn hvað erlenda ferðamenn varðar frá október síðastliðnum. Í samanburði við fyrri ár fellur fjöldinn í nýliðnum marsmánuði mitt á milli fjöldans í mars 2015 og 2016 og raunar hafa ekki fleiri erlendir ferðamenn sótt landið heim í mánuðinum síðan árið 2019.

Bretar snúa aftur

Bretar hafa sótt verulega í sig veðrið hvað Íslandsáhuga varðar undanfarna mánuði. Alls voru breskir ferðamenn ríflega fjórðungur þeirra sem landið sóttu heim í mars. Breskt ferðafólk voru drjúgur hluti heildarfjöldans yfir vetrarmánuðina árin fyrir COVID-19 faraldurinn og er greinilegt að það sækir í sama farið með hlutdeild þeirra þetta árið. Að Bretum frátöldum voru Bandaríkjamenn fjölmennastir (16%), þar á eftir komu Þjóðverjar (9%) og síðan Frakkar (6%).

Frá áramótum hafa nærri 245 þúsund erlendir ferðamenn sótt landið heim. Það eru 20-falt fleiri ferðamenn en hingað komu á sama tíma í fyrra. Til samanburðar voru ferðamenn hér á landi 334 þúsund á fyrsta fjórðungi ársins 2020 en í marsmánuði það ár fór áhrifa faraldursins á ferðamannafjölda fyrst að gæta fyrir alvöru. Árið 2019 voru erlendir ferðamenn hér hins vegar 458 þúsund á fyrsta fjórðungi ársins en rétt er að halda til haga að í lok þess fjórðungs lagði Wow-air upp laupana.

Hlutur ferðaþjónustunnar stækkar á ný

Fjöldi erlendra ferðamanna á fyrsta ársfjórðungi var einnig svipaður og á lokafjórðungi síðasta árs. Því virðist nærtækt að álykta að tekjur vegna þeirra hafi verið á svipuðu róli og þá var. Á síðasta fjórðungi ársins 2021 voru tekjur af erlendum ferðamönnum nærri 59 ma.kr. samkvæmt tölum Hagstofunnar. Til samanburðar má til að mynda nefna að tekjur af útflutningi áls voru 94 ma.kr. og sjávarafurða 86 ma.kr. á fyrsta ársfjórðungi. Ferðaþjónustan á líklega enn nokkuð í land með að ná fyrri sessi sem stærsta útflutningsgrein þjóðarbúsins en við teljum líklegt að það muni gerast síðar á árinu.

Horfur eru á að ferðamönnum muni fjölga allhratt á komandi fjórðungum. Bjartsýni ríkir innan ferðaþjónustunnar varðandi háannatímann þar sem bókunarstaða er almennt góð og hérlend sem erlend flugfélög hafa verið að bæta í flugframboð til og frá landinu. Vissulega hefur óvissa um komandi mánuði aukist í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Hækkun á eldsneyti gæti þannig leitt til hærri ferðakostnaðar á næstunni auk þess sem vaxandi verðbólga í heimalöndum ferðamanna gæti klipið í þær ráðstöfunartekjur sem almenningur hefur hugsað sér að nota til ferðalaga milli landa. Enn sem komið er eru þó fá merki um að ferðavilji hingað til lands hafi minnkað vegna þessa.

Við gáfum í janúar út þjóðhagsspá þar sem við spáðum því meðal annars að erlendir ferðamenn hingað til lands yrðu á bilinu 1,1 – 1,2 milljónir á þessu ári. Frá því spáin var gerð hafa horfur fyrir þetta ár hins vegar batnað nokkuð. Til að mynda var ferðamannafjöldinn á fyrsta fjórðungi ársins nær þeim fjölda sem áætluðum að hingað kæmi á þessum árstíma 2023 en spá okkar fyrir nýliðinn ársfjórðung. Þar við bætist framangreind þróun varðandi ferðabókanir og tíðni farþegaflugs á komandi fjórðungum.

Um miðjan febrúar birtum við sviðsmyndagreiningu þar sem farið var yfir hvaða áhrif hraðari fjölgun ferðamanna en við höfðum spáð gæti haft á efnahagshorfurnar. Í þeirri sviðsmynd var gert ráð fyrir 1,5 milljón ferðamönnum hingað til lands í ár. Þróunin síðan hefur styrkt okkur í þeirri trú að sviðsmyndin sé líkast til nær lagi en grunnspá okkar frá janúar varðandi ferðamannafjöldann í ár. Bati ferðaþjónustunnar verður því væntanlega hraðari en við áætluðum í janúar og útflutningstekjur greinarinnar gætu sem best orðið í líkingu við árið 2016. Það ár voru tekjur af erlendum ferðamönnum 465 ma.kr. sem svaraði til 38% af heildar útflutningstekjum þjóðarbúsins á árinu.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband