Tæplega 700 þúsund ferðamenn sóttu landið heim á nýliðnu ári. Það er tæplega 45% aukning frá árinu 2020 en þó einungis um þriðjungur þeirra sem hingað komu árið 2019. Langflestir ferðamenn komu í júlí – október eða samtals um 470 þúsund ferðamenn.
Óneitanlega hafa skammtímahorfur greinarinnar versnað með risi Omicron bylgjunnar hér á landi sem og annars staðar. Þrátt fyrir það teljum við að ferðavilji fólks sé umtalsverður og fólk sé farið að ferðast þrátt fyrir veiruna. Í því ljósi er Ísland álitlegur ferðamannastaður í augum margra þar sem mögulegt er að ferðast hér án mikillar nándar við annað fólk.
Í nýlegri þjóðhagsspá okkar gerum við ráð fyrir því að 1,1 - 1,2 milljónir ferðamanna sæki landið heim á þessu ári. Gangi spá okkar eftir er það svipaður fjöldi og var hér árið 2015 en þó ríflega 40% færri ferðamenn en árið 2019. Á næsta ári gerum við ráð fyrir 1,5 milljón ferðamönnum og 1,7 milljónum árið 2024.