Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hversu hratt fjölgar ferðamönnum?

Fjölgun ferðamanna í ár mun vega þungt í vaxandi útflutningstekjum og myndarlegum hagvexti. Batnandi horfur fyrir komandi fjórðunga í ferðaþjónustunni hafa aukið líkur á að ferðamönnum fjölgi hraðar í ár en við spáðum í ársbyrjun. Að sama skapi gæti útflutningur vaxið hraðar og vöxtur orðið meiri en áður var spáð.


Tæplega 700 þúsund ferðamenn sóttu landið heim á nýliðnu ári. Það er tæplega 45% aukning frá árinu 2020 en þó einungis um þriðjungur þeirra sem hingað komu árið 2019. Langflestir ferðamenn komu í júlí – október eða samtals um 470 þúsund ferðamenn.

Óneitanlega hafa skammtímahorfur greinarinnar versnað með risi Omicron bylgjunnar hér á landi sem og annars staðar. Þrátt fyrir það teljum við að ferðavilji fólks sé umtalsverður og fólk sé farið að ferðast þrátt fyrir veiruna. Í því ljósi er Ísland álitlegur ferðamannastaður í augum margra þar sem mögulegt er að ferðast hér án mikillar nándar við annað fólk.

Í nýlegri þjóðhagsspá okkar gerum við ráð fyrir því að 1,1 - 1,2 milljónir ferðamanna sæki landið heim á þessu ári. Gangi spá okkar eftir er það svipaður fjöldi og var hér árið 2015 en þó ríflega 40% færri ferðamenn en árið 2019. Á næsta ári gerum við ráð fyrir 1,5 milljón ferðamönnum og 1,7 milljónum árið 2024.

Vissulega ríkir enn veruleg óvissa vegna nýrra afbrigða faraldursins og hversu lengi hann mun vara. Útbreidd bólusetning meðal helstu ferðaþjóða hingað til lands og vægari veikindi af völdum Omicron-afbrigðis gefa hins vegar tilefni til hóflegrar bjartsýni.

Raunar hafa horfur fyrir fjölgun ferðamanna á yfirstandandi ári þegar batnað frá því spá okkar var gerð þótt ekki sé langt um liðið frá því spánni var lokað. Spágerðinni sjálfri lauk föstudaginn 14. janúar, sama dag og tilkynnt var um hertar samkomutakmarkanir hérlendis. Útlitið til skamms tíma var því ekki beysið þann daginn. Frá þeim degi hefur hins vegar orðið viðsnúningur í sóttvarnaraðgerðum og takmörkunum bæði hér á landi og víða meðal landa heims í átt til umtalsverðrar slökunar. Auk Íslands má þar nefna Bretland, Danmörk, Noreg, Holland, Frakkland, og Írland af nágrannaþjóðum okkar. Ítalía, Sviss og Finnland eru á sömu vegferð samkvæmt nýlegum fréttum. Samanlagt voru farþegar frá þessum löndum u.þ.b. 30% af ferðamönnum hingað til lands árin 2017-2019 og því getur vaxandi ferðavilji og minni smitótti í þeim haft umtalsverð jákvæð áhrif á fjölda ferðamanna hér á landi á komandi fjórðungum.

Eins og sjá má á myndinni áætlum við í spá okkar að fremur fáir ferðamenn sæki landið heim allra næstu mánuði enda tóku heimsóknir erlends ferðafólks til landsins nokkra dýfu í janúarmánuði samkvæmt fréttum. Með vorinu eru hins vegar horfur á að lifni jafnt og þétt yfir ferðamannastraumnum og áætlum við að á seinasta þriðjungi ársins verði ferðamenn 70% af fjöldanum á sama tímabili árið 2019. Sem fyrr segir bendir nýleg þróun til þess að óvissan í þessari spá sé talsvert meiri upp á við en niður. Með öðrum orðum gætu ferðamenn í ár hæglega orðið töluvert fleiri á meðan við teljum fremur litlar líkur á að þeir verði umtalsvert færri.

Ferðaþjónusta, ásamt útflutningi hugverka og fleiri þjónustuliðum, skýrir meirihluta þess 19% útflutningsvaxtar sem við spáum í ár. Við hann bætist hóflegur vöxtur í vöruútflutningi þar sem vegast á stóraukinn útflutningur á t.d. loðnu, eldisfiski og kísilmálmi annars vegar en hins vegar samdráttur í útflutningi áls og botnfisktegunda, sér í lagi þorsks. Aukinn ferðamannastraumur skilar svo meginhlutanum af 11% útflutningsvexti næsta ár og tæplega 5% vexti útflutnings árið 2024. Auk þess eru horfur á auknum útflutningi eldisfisks, áls og annarra iðnaðarvara ásamt vaxandi útflutningstekjum af hugverkanotkun svo nokkuð sé nefnt.

Fleiri ferðamenn glæða vöxt enn frekar

Þar sem líkur hafa aukist á að ferðamenn hingað til lands kunni að verða fleiri en við spáðum í janúar er forvitnilegt að slá mati á hvaða áhrif það geti haft á helstu spástærðir. Við stilltum því upp grófri sviðsmynd þar sem gert er ráð fyrir 1,5 milljón ferðamönnum í ár í stað 1,1-1,2 milljónum. Niðurstaðan bendir til þess að útflutningur myndi aukast um tæp 24% (sbr. við 19% í spánni) á þessu ári. Ef gert er ráð fyrir viðbótaráhrifum á neyslu, fjárfestingu og innflutning yrði hagvöxtur á þessu ári 5,3% (4,7%). Atvinnuleysi myndi hjaðna nokkru hraðar en ella og yrði að jafnaði 4,0% (4,5%). Þá yrði viðskiptaafgangur meiri en ella, eða 2,8% af VLF í stað 1,8% í þjóðhagsspánni. Horfur eru því að að krónan yrði heldur sterkari, sem svo aftur gæti haldið meira aftur af verðbólgu þegar fram í sækir.

Það er því ljóst að upptakturinn í komum ferðamanna hingað til lands mun hafa umtalsverð áhrif á efnahagsþróun komandi missera og að sama skapi kærkomin þróun að útlitið fari batnandi í þessari stærstu útflutningsgrein íslenska hagkerfisins.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband