Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Ferðamannafjöldinn í júlí framar vonum

Fleiri erlendir ferðamenn sóttu Ísland heim í júlí en á sama tíma árið 2019. Bandaríkjamenn bera sem fyrr höfuð og herðar yfir fólk af öðru þjóðerni og virðist áhugi þar í landi á Íslandsferð síst fara minnkandi. Horfur eru á að fleiri ferðamenn sæki landið heim í ár en við spáðum í maí.


Erlendir ferðamenn á Íslandi voru ríflega 234 þúsund samkvæmt nýbirtum tölum Ferðamálastofu um brottfarir erlendra farþega um Keflavíkurflugvöll. Rétt er að taka fram að þar eru ekki meðtaldir þeir fjölmörgu ferðamenn sem sóttu landið heim með skemmtiferðaskipum í mánuðinum. Ferðamenn á þennan mælikvarða voru ívið fleiri en í sama mánuði árið 2019 og hafa þeir aðeins þrjú ár verið fleiri í júlí en í nýliðnum mánuði.

Sem fyrr báru Bandaríkjamenn höfuð og herðar yfir fólk af öðru þjóðerni meðal ferðamanna hér á landi. Alls komu 79 þúsund ferðamenn frá Bandaríkjunum til landsins í júlímánuði og jafngildir það tæplega 35% af heildarfjöldanum. Næstir á eftir þeim komu Þjóðverjar (7,3% af heild), Danir (5,6%), Bretar (5,1%), Pólverjar (5,0%) og Ítalir (3,6% af heild).

Ekkert lát virðist á áhuga fólks í Bandaríkjunum á því að sækja Ísland heim. Í nýbirtri umfjöllun Markaðarins kemur fram að samkvæmt nýlegri könnun YouGov-greiningarfyrirtækisins er Ísland eitt af fimm löndum sem Bandaríkjamenn hafa mestan áhuga á að heimsækja. Í grein Markaðarins er rætt við Sigríði Dögg Guðmundsdóttur, fagstjóra ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu, sem segir að Ísland taki stökk milli ára í könnun YouGov auk þess sem könnunin rími vel við önnur gögn Íslandsstofu um áhuga ferðamanna á landinu.

Fróðlegt er í þessu samhengi að skoða þróun vefleita tengt ferðalögum til Íslands með greiningartólinu Google trends. Við skoðuðum tíðni þrenns konar vefleitar sem telja má líklegt að fólk slái inn í leitarvél Google þegar það hyggur á Íslandsferð.

Í ljós kemur að áhugi á Íslandsferðum miðað við þennan mælikvarða hefur verið í sókn allt frá vorinu 2021 og virðist á heimsvísu almennt vera svipaður, ef ekki meiri, og hann var um þetta leyti fyrir þremur árum síðan. Ef sjónum er beint að Bandaríkjunum sérstaklega er þróunin enn jákvæðari og virðist áhugi á Íslandsferð þar í landi vera að nálgast það mesta sem mælst hefur í leitarvél Google undanfarin fimm ár.

Ferðafólk frá Bandaríkjunum hefur sýnt sig að vera yfir meðallagi eyðsluglatt í Íslandsferðum og dvelja hér að jafnaði heldur lengur en gengur og gerist með fólk frá Evrópu. Það er því jákvætt fyrir ferðaþjónustuna hversu áhugi þar í landi er mikill á ferðum hingað til lands þessa dagana og veit á gott fyrir komandi vetur og jafnvel næstu háönn í greininni. Þarna hjálpar vafalítið til að Bandaríkjadollarinn hefur styrkst gagnvart krónu það sem af er ári og því er tiltölulega hagstætt fyrir þarlent fólk að koma til landsins, a.m.k. í samanburði við ferðafólk frá flestum Evrópulöndum.

Horfur á fleiri ferðamönnum í ár en við væntum

Frá áramótum hafa rúmlega 870 þúsund ferðamenn sótt landið heim flugleiðis um Keflavíkurflugvöll. Til samanburðar sóttu tæplega 690 þúsund landið heim allt síðasta ár og tæplega 480 þúsund árið 2020. Borið saman við fyrstu sjö mánuði áranna fyrir faraldur eigum við þó enn talsvert í land að ná fjölmennasta ferðamannaárinu, 2018 (1,3 milljónir í jan-júlí) eða síðasta ári fyrir faraldur, 2019 (rúmlega 1,1 milljón) og munar þar vitaskuld mestu að fremur fáir sóttu Ísland heim á fyrstu mánuðum ársins.

Í þjóðhagsspá okkar í maí síðastliðnum spáðum við því að ferðamenn til Íslands yrðu á bilinu 1,5 til 1,6 milljónir á yfirstandandi ári. Eins og sést á myndinni hefur þróunin síðan þá verið umfram væntingar okkar og sér í lagi komu talsvert fleiri ferðamenn til Íslands í júlí en við höfðum áætlað.

Sem fyrr segir eru vísbendingar um að áhugi á Íslandi sem áfangastað sé mikill um þessar mundir. Varla spillir nýhafið eldgos heldur fyrir, svo fremi það fari ekki að gera innviðum á Reykjanesinu skráveifu eða trufla flug á komandi mánuðum. Við teljum því líklegt að erlendir ferðamenn á Íslandi verði að minnsta kosti 1,6 milljónir í ár og fari jafnvel eitthvað yfir þá tölu ef fram heldur sem horfir. Fjölgun ferðamanna hingað til lands á stóran þátt í þeim viðsnúningi í utanríkisviðskiptum frá halla til afgangs sem við teljum að muni eiga sér stað á seinni helmingi þessa árs og framangreind gögn eru síst til þess fallin að veikja þá skoðun okkar.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband