Jólagjafaleiðangrar utan landsteina er orðinn hluti af jólahefð ófárra landsmanna. Ýmsir hafa á síðustu árum freistað þess að spara sér einhverja þúsundkalla á hagstæðu gengi krónunnar eða finna vörur sem ekki eru í boði á íslenskum markaði. Aðrir sækja í jólastemminguna í stórborgum heimsins á meðan einhverjir vilja aukinn D-vítamín skammt yfir hátíðirnar á suðrænum slóðum fyrir síðari hluta skammdegisins. Hver svo sem ástæða utanlandsferðanna er skal greiðslukortið þó alltaf gripið með og áhugavert hefur verið að fylgjast með þróun erlendrar verslunar landans fyrir jól undanfarin ár.
Færðist erlenda jólaverslunin í íslenskar verslanir?
Undanfarin ár hefur þeim fjölgað sem gera sér ferð til útlanda til að versla jólagjafir en lítið sem ekkert hefur verið um slíkt nú í ár. Af reynslu sumarsins að dæma má gera ráð fyrir að í íslenska verslun hafi ratað talsverður skerfur þeirra fjárhæða sem ella hefði verið varið erlendis.
Jólainnkaup erlendis hafa færst í aukana
Þrátt fyrir að fleiri séu í seinni tíð farnir að versla gjafir erlendis kaupa langflestir enn megnið af þeim innanlands. Árið 2009 sögðust um 90% Íslendinga versla mest af jólagjöfum sínum innanlands og aðeins 4% erlendis, samkvæmt rannsókn Gallup. Vert er að nefna að fjárhagur heimila í landinu var ekki með besta móti í kjölfar fjármálakreppunnar 2008, krónan veik og því minna að sækja út fyrir landsteinana. Á hinn bóginn var Ísland árið 2017 á sínu sjöunda samfellda hagvaxtarári og hafði hlutfall þeirra sem versluðu megnið af gjöfum sínum erlendis rúmlega þrefaldast frá fyrrnefnda árinu.
Utanlandsferðir Íslendinga í desember aukist um 170%
Utanlandsferðum Íslendinga í desember hefur fjölgað um 170% undanfarinn áratug. Ferðavilji einstaklinga hefur þó skiljanlega verið afar lítill nú í ár sökum COVID-19 og möguleikarnir afar takmarkaðir. Frá því farsóttin barst til landsins í febrúar síðastliðnum hafa brottfarir landsmanna um Leifsstöð numið um áttunda hluta (12,5%) af því sem var árið áður.
Fróðlegt verður að sjá hvernig þeir sem höfðu hug á því að fara til útlanda ráðstöfuðu peningum sínum en þær tölur eru væntanlegar 13. janúar næstkomandi og munum við fjalla vandlega um þær þegar þarf að kemur. Gæti verið að gjafirnar séu dýrari en í fyrra, þar sem utanlandsferðum var sleppt? Sóttum við í ríkari mæli dýrari veitingastaði bæjarins, þrátt fyrir samkomutakmarkanir eða lögðum við andvirði ferðarinnar fyrir, jafnvel til að mæta áhrifum Kórónu kreppunnar?
Talsverðum fjármunum ráðstafað innanlands
Árið 2009 versluðu 10% Íslendinga í það minnsta einhverjar jólagjafir erlendis en á þeim tíma fóru rúmlega 16.000 manns til útlanda í desember. Kortavelta landsmanna utan Íslands nam þá rúmlega 4,3 mö.kr. og þar af var 3,3 mö.kr. ráðstafað í verslunum. Síðan þá hefur desember kortaveltan erlendis aukist um 270% og þeim hluta sem varið er í verslanir um 330%. Kortavelta þeirra 45.300 Íslendinga sem fóru til útlanda í desember 2017 var tæplega 13 ma.kr. svo um talsverðar fjárhæðir er hér að ræða og var rúmlega 8 af hverjum 10 krónum varið í verslunum. Vert er að nefna að þessar tölur taka einungis til notkunar kredit- og debetkorta að frádreginni notkun hraðbanka og heldur því ekki utan um kaup sem gerð eru með reiðufé.
Ef einhvern lærdóm er að draga af nýliðnu sumri þar sem utanlandsferðir voru umtalsvert færri en við höfum vanist er hann sá að Íslendingar leggja ekki allan þann pening til hliðar sem þar sparast. Í sumar dróst kortavelta okkar erlendis saman um 24,4 ma.kr. frá fyrra ári á meðan kortaveltan innanlands jókst um tæplega 23 ma.kr.. Meirihluta þess sem að öðru óbreyttu hefði verið eytt erlendis, var ráðstafað í neyslu innanlands (93%).
Innlenda neyslan hjálpar til
Verslanir, veitingastaðir og jafnvel hótel munu að öllum líkindum fá hluta af þeim fjármunum sem verja átti erlendis á aðventu og jólum, en hvað framhaldið varðar veltur það á framvindu faraldursins.