Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Erlendum ferðamönnum fjölgar loks eftir faraldurinn

Maí var fyrsti mánuðurinn frá því í fyrrahaust þar sem erlendir ferðamenn voru fleiri en tíu þúsund. Vísbendingar eru um að ferðamenn dvelji hér lengur en áður og útgjöld þeirra séu að jafnaði meiri enda neysluglaðir Bandaríkjamenn mun stærri hluti heildarfjöldans en áður. Horfur eru á allhraðri fjölgun ferðamanna á seinni helmingi ársins og teljum við líklegt að maíspá okkar um 700 þúsund ferðamenn rætist.


14.400 erlendir ferðamenn héldu af landi brott um Keflavíkurflugvöll í maímánuði sl. Var það fyrsti mánuðurinn frá september 2020 þar sem brottfarirnar fóru yfir tíu þúsund, en sem kunnugt er hertu stjórnvöld verulega aðgerðir á landamærunum seint í ágústmánuði eftir að COVID-19 smitum tók að fjölga á nýjan leik hér á landi. Þótt fjöldi ferðamanna á þennan kvarða hafi einungis verið ríflega 1/10 af fjöldanum sem hingað kom í maí 2019, svo dæmi sé tekið, jafngildir þetta margföldun í fjölda á milli mánaða. Til samanburðar komu hingað til lands tæplega 18 þúsund ferðamenn samanlagt á fyrstu fjórum mánuðum ársins.

Bandaríkjamenn báru höfuð og herðar yfir aðrar þjóðir í fjölda þeirra sem sóttu landið heim í maímánuði. Ríflega helmingur allra sem hingað komu voru þarlendir borgarar. Næstfjölmennastir voru Pólverjar sem voru ríflega 9% þeirra sem taldir voru í mælingu Ferðamálastofu. Þar ber þó auðvitað að halda til haga að þarlendir borgarar sem hingað koma eru væntanlega ekki dæmigerðir ferðamenn heldur líklega frekar að heimsækja fjölskyldumeðlimi eða sækja skemmri tíma vinnu. Þjóðverjar vermdu þriðja sætið og voru tæplega 7% ferðamanna í maí þarlendir.

Fjölgun farþega og breytt hlutföll hinna ýmsu þjóða í brottförum um Keflavíkurflugvöll endurspeglast ágætlega í nýbirtum kortaveltutölum Rannsóknarstofnunar verslunarinnar fyrir maímánuð. Þar kemur fram að heildarvelta vegna erlendra ferðamanna var tvöfalt meiri í maí en í aprílmánuði og um það bil fjórfalt meiri en í maímánuði 2020. Bandaríkjamenn áttu ríflega 2/3 hluta veltunnar og Bretar og Þjóðverjar sigldu í kjölfarið með u.þ.b. 7% hlut hvor þjóð. Áhugavert er að sjá að velta slíkra korta var í maí sl. 30% af veltunni í sama mánuði 2019 þrátt fyrir að fjöldi brottfara væri einungis ríflega 11% af fjöldanum fyrir tveimur árum. Gæti þetta verið vísbending um að hver ferðamaður eyði nú mun meira fé hérlendis en áður en einnig gæti spilað inn í að talning á brottförum vanmetur fjöldann á landinu á hverjum tíma ef heimsóknum er að fjölga ört á milli vikna. M.ö.o. er líklega nokkur fjöldi þeirra sem voru að koma í maí talinn með júnígögnum Ferðamálastofu en trúlega eru talsvert færri sem detta þannig á milli apríl- og maímánaða.

Bandaríkjamenn áfram burðarásinn næstu mánuði?

Áhugavert er að skoða hversu gerólík samsetning ferðamanna er eftir þjóðernum nú þegar ferðalög eru að taka við sér eftir faraldur miðað við samsetninguna í glugganum sem opnaðist fyrir ferðalög í fyrrasumar. Frá miðjum júnímánuði fram í seinni hluta ágústmánaðar í fyrra voru ferðatakamarkanir hingað til lands í lágmarki og alls komu hingað til lands 115 þúsund ferðamenn á þessu tímabili. Þá voru hins vegar Bandaríkjamenn fáséðir eða aðeins 1,1% heildarfjöldans enda strangar takmarkanir í gildi um ferðir milli Bandaríkjanna og Evrópu á þeim tíma. Þjóðverjar (18% heildarfjölda) og Danir (14%) voru þá hvað fjölmennastir enda leiðin greið frá þessum löndum og ástandið í þeim tiltölulega gott á þessum tíma.

Fróðlegt verður að fylgjast með samsetningu ferðamanna hingað til lands á komandi misserum. Bandaríkjamenn verða líklega áfram einna fjölmennastir þjóða, enda hafa þeir reynst áhugasamir um Íslandsferðir eftir að slakað var á reglum um utanlandsferðir fyrir bólusett fólk þar í landi. Hins vegar lítur út fyrir að bakslag hafi komið í ferðavilja Breta upp á síðkastið eftir að smitum tók að fjölga þar í landi á nýjan leik síðustu vikur. Breska ríkisstjórnin tilkynnti í gær að áformuðum slökunum á sóttvörnum þar í landi þann 21. júní næstkomandi yrði frestað um fjórar vikur þar sem hið bráðsmitandi Delta-afbrigði Kórónuveirunnar væri að valda fjölgun smita og sjúkrahúsinnlagna upp á síðkastið. Flugfélagið Play tilkynnti nýlega um niðurfellingu á þremur ferðum til Lundúna í júlíbyrjun og vísaði til bakslags í bókunum Breta undanfarið.

Þá er ennþá talsverð óvissa um hvenær slakað verður á almennri kröfu um tvöfalda skimun og sóttkví erlendra ferðamanna sem ekki hafa fengið bólusetningu. Heilbrigðisráðherra gaf nýlega út að frá og með 1. júlí yrði hætt að skima þá sem framvísa vottorðum um bólusetningu eða fyrri sýkingu af völdum COVID-19, sem og börn. Reglurnar verða endurskoðaðar um miðjan júlí og ljóst er að reglan um tvöföldu skimunina gildir að minnsta kosti þangað til. Með hækkandi hlutfalli bólusettra í helstu Evrópulöndum skiptir þó líklega meira máli hvernig reglum er háttað við heimkomu og auðvitað hversu mikill ferðaviljinn er í hverju landi á hverjum tíma. Þá stendur einnig fyrir dyrum að samræma reglur um ferðalög milli ESB-ríkja á komandi vikum og þótt það snerti ekki landamærareglur hérlendis með beinum hætti gæti það haft áhrif á almennan ferðavilja á meginlandi Evrópu þegar lengra líður á sumarið.

Ennþá góðar líkur á að ferðamannaspá okkar rætist

Upptakturinn í komum ferðamanna hingað til lands eftir faraldurinn hefur dregist lengur en við og líklega flestir vonuðust til. Hins vegar eru horfur allgóðar um að nú fari heimsóknum hingað til lands að fjölga jafnt og þétt. Slakanir á landamæraaðgerðum hérlendis sem erlendis eru í kortunum þótt sjálfsagt eigi eftir að koma tímabundið bakslag hér og þar líkt og við erum nú að sjá í Bretlandi. Við spáðum í upphafi árs, og ítrekuðum þá skoðun í maíspá okkar, að ferðamenn hingað til lands yrðu í kring um 700 þúsund í ár. Þótt þróunin á fyrri hluta ársins hafi orðið óhagstæðari en við gerðum þá ráð fyrir er sú spá enn líkleg að rætast að mati okkar.

ISAVIA gaf nýverið út spá um flugumferð þar sem gert er ráð fyrir að um tvær milljónir farþega ferðist um Keflavíkurflugvöll á þessu ári sem myndi samsvara u.þ.b. 400 þúsund ferðamönnum inn í landið á árinu. Hins vegar tóku stjórnendur fyrirtækisins fram í viðtali í Viðskiptablaðinu að spáin væri varfærin og miðuð við núverandi framboð flugsæta til landsins. Mörg flugfélög væru að horfa til aukins framboðs á komandi fjórðungum en myndu ekki taka ákvörðun um slíkt fyrr en síðar í sumar.

Þá gæti breytt samsetning ferðamanna og aðrar áherslur í ferðalögum fólks milli landa líka reynst okkur búbót á næstunni. Til að mynda eru vísbendingar um að fólk sem sækir landið heim dvelji hér lengur en áður að jafnaði ef marka má bókanir á bílaleigum og hótelum. Bandaríkjamenn hafa líka reynst fremur loðnir um lófana þegar kemur að ferðaútgjöldum hér á landi og hærra hlutfall þeirra í hópi ferðafólks gæti því orðið til þess að auka tekjur ferðaþjónustunnar umfram það sem hausatalningin gefur til kynna. Á móti ber að halda því til haga að ferðafólk frá Asíu, sem sögulega hefur eytt hér hvað hæstum fjárhæðum hver og einn, fer líklega ekki að sjást í verulegum mæli hér á landi á ný fyrr en á nýju ári. Árið 2022 verður svo vonandi fyrsta heila árið eftir faraldur þar sem ferðalög milli landa eru með nokkuð eðlilegu móti og gerum við ráð fyrir 1,3 milljón ferðamanna til landsins það ár.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband