Hrein erlend staða þjóðarbúsins var jákvæð um 2.034 ma.kr. í lok marsmánaðar. Svarar það til ríflega 43% af vergri landsframleiðslu síðustu fjögurra ársfjórðunga. Frá ársbyrjun hafði erlenda staðan rýrnað um 77 ma.kr., eða sem samsvarar 1,6% af VLF. Erlendar eignir þjóðarbúsins voru alls 6.771 ma.kr. í marslok en skuldir voru 4.737 kr. á sama tíma.
Erlend staða sterk þrátt fyrir viðskiptahalla
Þrátt fyrir lítilsháttar rýrnun á upphafsfjórðungi ársins var hrein erlend staða þjóðarbúsins býsna sterk í lok mars. Verðlækkun á verðbréfamörkuðum og veiking Bandaríkjadollara gagnvart krónu skýra rýrnun erlendu stöðunnar að stærstum hluta. Traust erlend staða þjóðarbúsins er mikilvæg stoð fyrir íslensku krónuna og til þess fallin að draga úr hættu á mikilli og langvarandi veikingu hennar.
Þrátt fyrir verulegan viðskiptahalla á upphafsfjórðungi ársins, líkt og við fjölluðum nýverið um, leiddu fjármagnsviðskipti til 21 ma.kr. bata á erlendu stöðunni. Hér er rétt að taka fram að liðurinn Skekkjur og vantalið nam 81 ma.kr. í greiðslujafnaðaruppgjöri ársfjórðungsins sem bendir til að talsvert vanti upp á samræmi milli viðskipta- og fjármagnsjafnaðar í bókhaldi Seðlabankans.
Mótvindur á mörkuðum
Rýrnun erlendu stöðunnar skýrist því af neikvæðum gengis- og verðbreytingum en þær rýrðu hreinu erlendu stöðuna um 79 ma.kr. þar sem erlendar eignir lækkuðu um 168 ma.kr. en erlendar skuldir um 89 ma.kr. Þar hafa gengisbreytingar krónu nokkur áhrif. Tekið er fram í frétt Seðlabankans að gengi krónunnar hafi hækkað um tæp 1,3% miðað við gengisskráningarvog. Þar verður hins vegar einnig að taka með í reikninginn að verulegur hluti erlendra eigna lífeyrissjóðanna og annarra langtímasjóða er í Bandaríkjadollar á meðan gengisskráningarvogin endurspeglar líklega betur gjaldmiðlasamsetningu á erlendum skuldum. Bandaríkjadollarinn veiktist um tæp 5% á tímabilinu gagnvart krónunni.
Hlutabréfamarkaðir gáfu nokkuð eftir á fjórðungnum, hérlendis sem erlendis. Að jafnaði lækkaði verð á erlendum verðbréfamörkuðum um ríflega 2% á tímabilinu en verð á innlendum hlutabréfum um ríflega 6%.
Hér má rifja upp að umtalsverður munur er á samsetningu erlendra eigna og skulda þjóðarbúsins. Þannig er bein fjárfesting erlendra aðila í innlendum fyrirtækjum 851 ma.kr. umfram samvarandi fjárfestingar innlendra aðila erlendis. Þar vegur t.d. erlent eignarhald á orkusæknum iðnfyrirtækjum og gagnaverum hérlendis. Þá eru vaxtaberandi skuldir við útlönd einnig umtalsvert meiri en samsvarandi eignir, eða sem nemur 1.360 ma.kr. miðað við lok mars. Bróðurpartur þessara skulda ber hins vegar ekki íslenska vexti heldur endurspeglar vaxtastig í okkar helstu viðskiptalöndum.
Þegar kemur að eignahliðinni munar langmestu um verulega meiri eignir innlendra aðila í erlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum en sem nemur samsvarandi erlendri eign á innlendum fjáreignum af þessu tagi. Þar vega erlendar eignir lífeyrissjóða þungt, en þeir áttu jafnvirði 3.183 ma.kr. af slíkum eignum í lok fyrsta ársfjórðungs. Þá kemur gjaldeyrisforði Seðlabankans einnig fram á eignahliðinni en hann nam 865 ma.kr. í lok mars.
Mikilvæg stoð undir krónu
Sem fyrr segir nema hreinar erlendar eignir þjóðarbúsins ríflega 43% af VLF um þessar mundir. Er þar um grundvallar viðsnúning að ræða frá því fyrir fjármálakreppuna. Fram að henni hafði hreina erlenda staðan ávallt verið verulega neikvæð og um þverbak keyrði í aðdraganda hruns gömlu bankanna haustið 2008. Hagfellt uppgjör við kröfuhafa gömlu bankanna um miðjan síðasta áratug og allmyndarlegur viðskiptaafgangur lengst af á þeim áratug réði hvað mestu um batann í erlendri eignastöðu þjóðarbúsins.
Þessi trausta eignastaða Íslands gagnvart umheiminum er sem fyrr afar mikilvæg undirstaða fyrir krónuna þar sem fáum dettur í hug þessa dagana að fjármagnsflótti gæti valdið verulegum óstöðugleika eða kallað á gjaldeyrishöft á nýjan leik. Svo fremi sem viðskiptahalli fer ekki úr böndunum er útlit fyrir að hreina erlenda staðan verði áfram traust.