Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Endalok LIBOR vaxta og breytingar um áramót

Þær viðmiðanir sem leysa munu af hólmi eldri tilboðsvexti verða í flestum tilvikum daglánavextir seðlabanka viðkomandi ríkja.


Næstkomandi áramót munu marka tímamót á alþjóðlegum fjármálamörkuðum þegar útgáfu og birtingu svokallaðra LIBOR (London Interbank Offered Rate) vaxta verður að mestu leyti hætt eftir margra ára undirbúningsvinnu fjölda aðila víða um heim. LIBOR vextir hafa verið ákvarðaðir á peningamarkaði með tvíhliða tilboðum (inn- og útlánsvaxtatilboðum) lykilbanka í hverju landi. Þær viðmiðanir sem leysa munu af hólmi eldri tilboðsvexti (LIBOR eða samsvarandi) verða í flestum tilvikum daglánavextir seðlabanka viðkomandi ríkja.

Um áramótin verður hætt að mynda LIBOR vaxtagildi á grundvelli tilboða fyrir svissneska franka, bresk pund og japönsk jen. Ákveðið var að fresta samsvarandi breytingu LIBOR vaxtagilda fyrir bandaríkjadali fram til loka júní 2023 en auk þess verða LIBOR vaxtagildi áfram birt fyrir bresk pund og japönsk jen a.m.k. út árið 2022 en undir breyttri aðferðafræði. Endanlega verður hætt að birta LIBOR vaxtagildi fyrir svissneska franka um áramótin.

Ljóst er að um allan heim eru enn í gildi samningar sem hafa að geyma tilvísanir til LIBOR vaxta og samningstími nær framyfir það tímamark þegar útgáfu og birtingu LIBOR vaxta í núverandi mynd verður hætt. Hluti af undirbúningsvinnu vegna þessara breytinga hefur því falist í því að ákvarða og mæla fyrir um hvaða vaxtaviðmið leysi LIBOR vexti af hólmi í slíkum samningum.

Nú liggur fyrir að samkvæmt breytingum á reglugerð Evrópusambandsins um fjárhagslegar viðmiðanir og undirgerðum sem Evrópusambandið hefur samþykkt, munu nánar tilgreind staðgönguvaxtaviðmið koma í stað LIBOR vaxta um áramótin í þeim samningum sem ekki hafa verið færðir yfir á aðra vexti. Þann 28. desember sl. samþykkti Alþingi breytingar á lögum um fjárhagslegar viðmiðanir, nr. 7/2021 vegna innleiðingar þeirra í íslenskan rétt. Breytingarlögin eru aðgengileg á vef Alþingis.

Samkvæmt framangreindum lagabreytingum taka umrædd staðgönguvaxtaviðmið beint við af þeim LIBOR viðmiðum sem falla brott, út líftíma viðkomandi samninga eða þar til aðilar semja sérstaklega um annað. Ekki er því sérstök þörf á að skilmálabreytingum vegna þeirra breytinga sem leiðir af lagasetningunni.

Vaxtaviðmið sem breytast um áramótin 2021/2022

Svissneskir frankar (CHF)

Á grundvelli fyrrnefndra lagabreytinga verða SARON vaxtaviðmið staðgönguvaxtaviðmið fyrir LIBOR-vaxtaviðmið í svissneskum frönkum . Þar sem mismunur var á SARON viðmiðunum og LIBOR CHF gildum fyrir tiltekin vaxtatímabil munu staðgönguvaxtaviðmiðin fela í sér fasta aðlögun (e. spread adjustment) sem var ákvarðað með hliðsjón af mismun á SARON og LIBOR CHF síðastliðin 5 ár. Frá og með 1. janúar 2022 munu SARON staðgönguvaxtaviðmið taka við af LIBOR-vaxtaviðmiðum fyrir svissneska franka samkvæmt eftirfarandi töflu:

Bresk pund (GBP) og japönsk jen (JPY)

Breska viðskiptaháttaeftirlitið (the Financial Conduct Authority) hefur tekið ákvörðun um að nýta heimild til þess að skylda útgefanda LIBOR vaxtaviðmiðana (ICE Benchmark Administration) til að gefa áfram út vaxtagildi fyrir 1, 3 og 6 mánaða vaxtatímabil fyrir bresk pund og japönsk jen. Grundvöllur þeirra verður hins vegar annar en hingað til og munu þau vaxtagildi byggja á svokallaðri tilbúinni aðferðafræði (e. „synthetic methodology“) í stað þess að byggja á tvíhliða tilboðum eins og áður. Með hinni nýju aðferðafræði er spáð fyrir um þróun daglánavaxta í viðkomandi gjaldmiðli fyrir viðkomandi tímabil og taka birt gildi mið af því. Samningar sem vísa til LIBOR vaxta í breskum pundum og japönskum jenum geta því áfram stuðst við þau vaxtagildi sem birt verða fyrir LIBOR eftir hinni nýju aðferðafræði frá og með næstu áramótum. Samkvæmt ákvörðuninni verða vaxtagildin birt með þessum hætti til a.m.k. til eins árs en ákvörðunin skal endurskoðuð árlega, að hámarki til 10 ára.

Nánari upplýsingar veitir starfsfólk Íslandsbanka, í gegnum netfangið fyrirtaeki@islandsbanki.is