Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Eftirlaun 2050

Hvernig verður staða lífeyrisþega eftir tæpa þrjá áratugi?


Ég hef auðvitað ekki hugmynd um í hvernig skapi ég verð árið 2050 eða hvað mig langar þegar þar að kemur. Svo skemmtilega vill þó til að rétt um það leyti mun ég álpast inn á lífeyrisaldurinn, í það minnsta eins og hann er skilgreindur í dag.

Hver ætli staða okkar lífeyrisþeganna verði, innan um alla fljúgandi bílana og vélmennin? Auðvitað er erfitt að spá fyrir um slíkt en það má þó reyna. Við búum svo vel að hinir ýmsu aðilar hafa reynt sitt besta við að rýna inn í framtíðina og þær spár getum við leikið okkur með til að teikna upp mögulega stöðu.

Allt annað og betra?

Þegar mín kynslóð kemst á lífeyrisaldur verður þar um að ræða fólk sem alla sína starfsævi hefur safnað réttindum í nútímalegt lífeyriskerfi. Það eitt og sér breytir stöðunni heilmikið frá því sem lífeyrisþegar búa við í dag en hlutfall af heildarlaunum sem runnið hefur í lífeyrissparnað hefur hækkað verulega síðustu þrjá áratugina eða svo. Þetta getur haft í för með sér miklar breytingar á högum, lífsgæðum og valkostum þeirra sem eldri eru... ef allt hefur gengið stóráfallalaust fyrir sig í millitíðinni. Þann varnagla er auðvitað vissara að slá við þessa hugarleikfimi eins og hún leggur sig.

Samkvæmt áhugaverðri skýrslu sem Talnakönnun vann fyrir lífeyrissjóðinn Birtu eru líkur á að lífeyrisgreiðslur muni á þessum tíma nema á milli 70% og 100% af meðalævitekjum fólks, sem er langt yfir því sem fæst að jafnaði í dag. Hæst verður hlutfallið hjá þeim tekjulægstu og lækkar eftir því sem tekjurnar hafa verið meiri. Þar sem ævitekjur ná að jafnaði hámarki upp úr fimmtugu getur þetta haft þau merkilegu áhrif að sumir koma til með að sjá tekjur sínar hreinlega aukast við það að hefja töku lífeyris.

Með öðrum orðum ætti kaupmáttur meginþorra lífeyrisþega að vera umtalsvert meiri árið 2050 en hann er í dag, ekki síst hjá konum. Þá munu sumir eiga væna eign í séreignarsjóði, sem gefur þeim aukinn sveigjanleika þegar kemur að starfslokum.

Þessi bætta staða lífeyrisþega (sem við vonum auðvitað að rætist) kemur til með að auka vægi þeirra í efnahagslífinu en þau áhrif aukast enn frekar þegar litið er til þess að lífeyrisþegar verða tvöfalt fleiri en í dag og koma til með að lifa lengur. Í dag er fjöldi 65 ára og eldri ríflega 20% af fjölda 15-64 ára en verður um þriðjungur árið 2050.

Og hvað á að gera við alla þessa peninga?

Lífeyriskerfið gæti orðið 150% stærra árið 2050 en það er í dag og það þarf að finna ávöxtunarleiðir fyrir þá fjármuni. En hvað ætlum við lífeyrisþegarnir að gera við alla þessa peninga þegar þeir verða millifærðir til okkar í hverjum mánuði? Þótt algengt sé í dag að fjárþörf fólks minnki á lífeyrisaldri þarf ekki endilega svo að vera eftir 27 ár. Ég reikna frekar með því að mín kynslóð muni í auknum mæli líta til sveigjanlegra starfsloka og að nýta sér séreignarsparnað til að ýmist auka neyslu sína eða greiða fyrir minnkað starfshlutfall. Framfarir í heilbrigðisvísindum koma vonandi til með að bæta heilsu lífeyrisþega sem hafa því bæði tækifæri, orku og fjárráð til að njóta efri áranna umtalsvert betur en almennt gengur og gerist í dag.

Betri staða flestra gefur ríkissjóði vonandi færi á að styðja betur við þá sem á því þurfa að halda og verða greiðslur Tryggingastofnunar til lífeyrisþega því væntanlega ekki almennar, líkt og í dag.

Heilt yfir lítur þetta því bara nokkuð vel út, í það minnsta ef fram heldur sem horfir. Þrátt fyrir það er þó hæpið að veðja fjárhagslegri framtíð sinni á að „kerfin reddi þessu“. Til að tryggja sig betur og auka enn frekar líkur á áhyggjulausu ævikvöldi er mikilvægt að muna eftir séreignarsparnaðinum, reyna að halda skuldsetningu í skefjum eins og kostur er og passa vel upp á varasjóðinn.

Höfundur


Björn Berg Gunnarsson

Deildarstjóri greiningar og fræðslu


Senda tölvupóst
8444869