Byr í seglum einkaneyslunnar á öðrum fjórðungi

Kortavelta landsmanna jókst umtalsvert að raungildi á öðrum fjórðungi ársins. Vöxtur einkaneyslu var væntanlega talsverður á fyrri helmingi ársins og útlit er fyrir allnokkurn vöxt á árinu í heild.


Enn er talsverður þróttur í neyslugleði landsmanna þrátt fyrir þráláta verðbólgu, háa raunvexti og sviptingar af ýmsu tagi á alþjóðavísu. Einn tímanlegasti hagvísirinn sem gefur vísbendingu um strauma og stefnur í einkaneyslu eru kortaveltutölur Seðlabankans enda fer kúfurinn af neysluútgjöldum landans í gegn um kortaveltuna.

Myndarleg veltuaukning utan landsteinanna

Samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans um greiðslumiðlun nam heildarvelta innlendra greiðslukorta ríflega 137 ma.kr. í júní sl. Í krónum talið jókst veltan frá sama mánuði í fyrra um tæp 5%. Sé veltan hins vegar staðfærð miðað við þróun verðlags og gengis krónu kemur upp úr kafinu að raunvöxtur innlendrar kortaveltu heimilanna var ríflega 2% frá sama mánuði í fyrra á meðan velta erlendis jókst um ríflega 10% milli ára. Á heildina litið jókst því kortavelta að raungildi um 2,3% í júní. Eins og sjá má af myndinni er vöxturinn í júní á þennan kvarða mun hægari en í apríl og maí en hins vegar áþekkur því sem gerðist að jafnaði á fyrsta fjórðungi ársins.

Velta innlendra korta erlendis endurspeglar bæði neyslu í utanlandsferðum sem og vörukaup landsmanna í erlendum netverslunum. Ferðagleði landsmanna hefur verið töluverð það sem af er ári og skýrir hún vafalítið drjúgan hluta af aukningunni í erlendri veltu það sem af er ári. Raunar gefa nýlega birtar tölur Ferðamálastofu yfir brottfarir um Keflavíkurflugvöll til kynna að utanferðum landsmanna hafi fjölgað um tæpan fjórðung á fyrri helmingi ársins frá sama tíma í fyrra. Þeim tölum ber þó að taka með nokkrum fyrirvara þar sem skipting milli innlendra og erlendra farþega í talningunni hefur verið býsna sveiflukennd í undanförnum mælingum og vísbendingar eru um að hlutur erlendra farþega sé þar vanmetinn. Til samanburðar jókst staðvirt kortavelta innlendra korta erlendis um tæp 13% á fyrri helmingi ársins miðað við sama tíma í fyrra.

Byr í seglum einkaneyslunnar

Einkaneysla óx um 2,3% á fyrsta fjórðungi ársins samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Var það mesti vöxtur hennar í tvö ár. Á öðrum fjórðungi jókst kortavelta landsmanna um 5,5% að jafnaði enda var vöxturinn í apríl og maí með mesta móti eins og fyrr segir. Svo hraður hefur kortaveltuvöxturinn ekki verið á þennan kvarða frá þriðja fjórðungi ársins 2022 en í þeim fjórðungi óx einkaneysla um ríflega 7% samkvæmt tölu Hagstofunnar.

Aðrir hagvísar sem gefa tóninn um einkaneyslutaktinn ýta sömuleiðis undir þá skoðun okkar að einkaneysluvöxturinn muni reynast allmyndarlegur á öðrum fjórðungi. Má þar nefna að nýskráningar bifreiða til einstaklinga jukust um 47% á fjórðungnum frá sama tíma í fyrra. Þá hefur stórkaupavísitala Gallup, sem mælir hug neytenda til fyrirhugaðra kaupa á húsnæði, utanlandsferðum og bifreiðum sótt í sig veðrið það sem af er ári frá síðasta ári.

Heimilin eru almennt í ágætri stöðu til að bæta í einkaneysluna án þess að tefla á tæpasta vað í heimilisbókhaldinu. Þau eiga mörg hver drjúgan uppsafnaðan sparnað og kaupmáttur launa hefur aukist nokkuð síðustu fjórðunga samanborið við sama tíma í fyrra þrátt fyrir þráláta verðbólgu. Á hinn bóginn hefur atvinnuleysi mjakast upp á við þótt einhver spenna ríki enn sums staðar á vinnumarkaði. Auk þess hefur dregið verulega úr fólksfjölgun upp á síðkastið frá því sem mest var fyrir nokkrum misserum. Til dæmis fjölgaði landsmönnum 0,7% frá 1. desember í fyrra fram á mitt þetta ár samkvæmt gögnum Þjóðskrár, sem jafngildir 1,2% fólksfjölgun á ársgrundvelli. Til samanburðar fjölgaði landsmönnum um 1,9% 12 mánuðina þar á undan og árin 2022 og 2023 nam fjölgunin 3% hvort ár. Með fyrirvara um að skekkjur kunna að leynast í gögnum Þjóðskrár er breytingin í fjölgunartaktinum samt sem áður ótvíræð að okkar mati.

Í þjóðhagsspá okkar sem út kom í lok maí gerðum við ráð fyrir því að einkaneysla muni aukast um 2,7% í ár, sem er hraðasti neysluvöxtur frá árinu 2022. Miðað við fram komnar vísbendingar virðist sú spá enn góð og gild. Á næstu tveimur árum áætlum við svo að vöxturinn verði heldur hægari, eða 2,1% árið 2026 og 2,6% árið 2027. Hjaðnandi raunvextir ættu að styðja við neysluvöxtinn þegar fram í sækir en fremur hæg fólksfjölgun og hóflegur kaupmáttarvöxtur dempa vöxtinn trúlega eitthvað eftir þetta ár.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband