Enn er talsverður þróttur í neyslugleði landsmanna þrátt fyrir þráláta verðbólgu, háa raunvexti og sviptingar af ýmsu tagi á alþjóðavísu. Einn tímanlegasti hagvísirinn sem gefur vísbendingu um strauma og stefnur í einkaneyslu eru kortaveltutölur Seðlabankans enda fer kúfurinn af neysluútgjöldum landans í gegn um kortaveltuna.
Myndarleg veltuaukning utan landsteinanna
Samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans um greiðslumiðlun nam heildarvelta innlendra greiðslukorta ríflega 137 ma.kr. í júní sl. Í krónum talið jókst veltan frá sama mánuði í fyrra um tæp 5%. Sé veltan hins vegar staðfærð miðað við þróun verðlags og gengis krónu kemur upp úr kafinu að raunvöxtur innlendrar kortaveltu heimilanna var ríflega 2% frá sama mánuði í fyrra á meðan velta erlendis jókst um ríflega 10% milli ára. Á heildina litið jókst því kortavelta að raungildi um 2,3% í júní. Eins og sjá má af myndinni er vöxturinn í júní á þennan kvarða mun hægari en í apríl og maí en hins vegar áþekkur því sem gerðist að jafnaði á fyrsta fjórðungi ársins.