Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Breytir ferðaþjónustan sambandi krónu og viðskiptajafnaðar?

Vegna aukinnar hlutdeildar ferðaþjónustu í öflun gjaldeyristekna eru líkur á að hin gagnkvæma verkun útflutningstekna og raungengis ætti að vera meiri og skjótvirkari nú en áður.


Gerbreytt samsetning útflutningstekna felur í sér að samspil raungengis krónu og viðskiptajafnaðar Íslands mun væntanlega verða með nokkuð öðrum hætti en verið hefur undanfarna áratugi. Þótt áhætta tengd gjaldeyristekjum sé orðin býsna nátengd þróun ferðaþjónustunnar er ekki víst að það feli í sér umfangsmeiri frávik frá ytra jafnvægi eða meiri gengissveiflur en raunin hefur verið. Hið gagnstæða gæti raunar orðið uppi á teningnum ef það kemur á daginn að hinir gagnkvæmu togkraftar raungengisins og viðskiptajafnaðarins séu orðnir skjótvirkari en áður var.

Ferðaþjónustan tekur forustuna

Undanfarinn áratug hefur samsetning útflutningstekna þjóðarbúsins tekið stakkaskiptum. Ferðaþjónusta, sem aflaði um það bil fimmtungs útflutningstekna í upphafi áratugarins, stóð á bak við 43% heildarútflutningstekna Íslands á síðasta ári samkvæmt áætlun Greiningar Íslandsbanka. Þetta hlutfall var á sama tíma 17% fyrir sjávarútveg og 14% fyrir álútflutning. Að viðbættum öðrum þjónustuútflutningi áætlar Greining að heildarútflutningur þjónustu hafi numið 56% af öllum útflutningi þjóðarbúsins árið 2017. Horfur eru á að þetta hlutfall hækki enn frekar á næstunni. Þjónustuútflutningur mun því væntanlega skila bróðurparti útflutningstekna landsins á komandi árum og áratugum.

Stórauknar gjaldeyristekjur vegna þessa hraða vaxtar ferðaþjónustunnar áttu verulegan þátt í hækkun raungengis krónu árin 2015-2016. Raungengi krónu hefur hækkað um 26% frá árinu 2015, sé miðað við hlutfallslegt verðlag. Hefur raungengið sjaldan verið hærra á þann kvarða. Á mælikvarða hlutfallslegs launakostnaðar nemur hækkun raungengisins hins vegar 35% á þessu tímabili. Sá mælikvarði endurspeglar samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar, enda um mjög mannaflsfreka atvinnugrein að ræða. Íslensk ferðaþjónusta er því bæði orðin umtalsvert dýrari í þeim skilningi að erlendur ferðamaður fær talsvert minna fyrir hverja evru, dollar eða pund í Íslandsferð sinni en áður, og að sama skapi er kostnaður við þá þjónustu og vörur sem þessum sama ferðamanni standa til boða orðinn til muna meiri en var fyrir fáeinum árum.

Raungengið hefur áhrif

Mikil óvissa hefur ríkt um hvernig samspil raungengisins og eftirspurnar í ferðaþjónustu myndi þróast, enda hefur uppgangur greinarinnar verið afar hraður og gengisbreytingar á sama tíma miklar. Alþjóðlegar rannsóknir hafa leitt í ljós að breytingar á raungengi milli heimalands og áfangastaðar hafa umtalsverð áhrif á eftirspurn ferðamanna milli viðkomandi landa. Má þar nefna rannsókn sérfræðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 2014 , þar sem niðurstaðan var sú að teygni eftirspurnar í ferðamennsku milli OECD-landa gagnvart raungengisbreytingum væri u.þ.b. 0,2. Það felur í sér að 10% lækkun raungengis tiltekins áfangastaðar gagnvart heimalandsmynt samsvarar að jafnaði 2% fjölgun ferðamanna frá viðkomandi heimalandi til þess áfangastaðar. Auk þess hafði raungengið einnig áhrif á dvalarlengd samkvæmt sömu rannsókn, sem jók verulega heildaráhrif raungengisbreytinganna mælt í gistinóttum. Rannsóknin leiddi þó einnig í ljós að þessi raungengisáhrif voru minni þegar um lítil eyríki var að ræða og tengdust þá fremur raungengisbreytingum í heimalandi ferðamanna en gengisbreytingum á áfangastað.

Þróun undanfarinna ára bendir til þess að Ísland falli að einhverju leyti í þennan síðarnefnda flokk eyríkja hvað varðar áhrifaþætti á ferðamannastraum og tekjur ferðaþjónustunnar. Þannig hefur mikil raungengishækkun ekki enn orðið til þess að framkalla stöðnun, hvað þá fækkun þeirra sem sækja landið heim. Það er þó ómögulegt að aðskilja raungengisáhrifin frá öðrum áhrifaþáttum á borð við stóraukið framboð og lækkandi verð á flugi hingað til lands, tískustrauma í ferðavenjum og batnandi hag í heimalandi ferðalanganna sem hingað koma, enda stuttur tími til grundvallar.

Á hinn bóginn hafa tekjur af hverjum og einum ferðamanni minnkað í krónum talið, en breyst fremur lítið ef leiðrétt er fyrir gengisþróun krónunnar undanfarin misseri. Virðist sem ferðamenn ákveði margir hverjir eftir sem áður að sækja landið heim, en verji hins vegar svipuðum hluta ráðstöfunartekna sinna til ferðarinnar og fyrr þótt kaupmáttur þeirra í krónum talið hafi minnkað. Er þetta í samræmi við niðurstöður sérfræðinga AGS um samband raungengis og fjölda gistinátta sem lýst er hér að framan. Þessi eiginleiki gæti raunar hjálpað til við að draga úr sveiflum í afkomu ferðaþjónustunnar í heild, þar sem breytileiki í tekjum í krónum talið verður minni en breytingar á fjölda ferðamanna að því gefnu að jákvætt samband sé til meðallangs tíma milli fjölda ferðamanna og gengisþróunar krónu.

Ágætis byrjun..

Segja má að samspil krónu og þjónustuútflutnings hafi þróast með hagfelldari hætti en flestir þorðu að vona undanfarið ár. Á vordögum 2017 sneru áhyggjur margra helst að því að metár í ferðaþjónustu myndi endurspeglast í miklu gjaldeyrisinnflæði og hraðri styrkingu krónu. Slík frekari hækkun raungengisins myndi í kjölfarið gera íslenska ferðaþjónustu ósamkeppnishæfa og kalla fram bakslag í greininni á sama tíma og aðrar útflutningsgreinar hefðu átt erfitt uppdráttar vegna hás raungengis. Þetta hefði svo í för með sér verulegan samdrátt í gjaldeyristekjum og gengisfall krónu síðar meir.

Þróunin varð svo á allt annan veg. Gengi krónu gaf eftir framan af sumri flestum að óvörum og hefur í kjölfarið verið tiltölulega stöðugt frá miðjum ágústmánuði á svipuðum slóðum og það var í upphafi árs 2017. Þessi þróun hefur minnkað hættuna á framangreindu bakslagi umtalsvert, og tel ég hana vera til marks um að allgott jafnvægi sé milli helstu krafta á gjaldeyrismarkaði um þessar mundir hvað sem síðar verður. Ekki verður heldur séð að árstíðasveifla í fjölda ferðamanna hafi þessa dagana nein áhrif á gengisþróun krónu til skemmri tíma. Væntanlega skýrist það meðal annars af aukinni framsýni aðila á gjaldeyrismarkaði, sem þar að auki eiga auðveldara en áður með að endurspegla skoðun sína í framvirkum viðskiptum í skyni að minnka gjaldeyrisáhættu eftir að fjármagnshöftum var að mestu aflétt.

Útflutningur og efnahagsþróun

Það verður þó ekki framhjá því komist að ört vaxandi hlutdeild ferðaþjónustunnar í sköpun gjaldeyristekna fyrir íslenskt þjóðarbú hefur í för með sér að gengisþróun krónu tengist í æ ríkari mæli þróun ferðaþjónustunnar. Í raun má skipta hagsögu síðustu áratuga á Íslandi í þrjú tímabil eftir því hvaða útflutningsgrein hefur verið helsti sveifluvaldur hagkerfisins og raungengisins. Þannig réðu aflabrögð og verðþróun í sjávarútvegi miklu um efnahagsþróun á hverjum tíma árabilið frá stríðslokum fram á tíunda áratuginn. Uppbyggingarskeið í orkufrekum iðnaði átti svo drjúgan þátt í mótun hagsveiflunnar á tíunda áratug síðustu aldar og fyrsta áratug þessarar aldar, enda um afar fjármagns- og mannaflsfrekar framkvæmdir að ræða á íslenskan mælikvarða. Má þar nefna til sögu byggingu álversins á Grundartanga og tengdar orkuöflunarframkvæmdir á árunum 1997-1998, og byggingu álvers Alcoa ásamt Kárahnjúkavirkjun 2003-2007. Á yfirstandandi áratug hefur svo ferðaþjónustan tekið við þessu hlutverki að stærstum hluta. Enn sem komið er höfum við þó ekki upplifað nema aðra hliðina á þeim peningi, þ.e. efnahagsuppgang og styrkingu krónu samhliða hröðum vexti greinarinnar.

Samspil raungengis og samkeppnishæfni í ferðaþjónustu er hins vegar líklega með talsvert öðrum hætti en við eigum að venjast í okkar hefðbundnu útflutningsatvinnugreinum, sjávarútvegi og orkufrekum iðnaði. Hinar hefðbundnu útflutningsgreinar eru til að mynda að mestu leyti verðþegar á alþjóðamarkaði. Það gildir nær alfarið um áliðnað, á meðan sjávarútvegurinn hefur takmarkað svigrúm til verðsetningar þar sem markaður fyrir afurðir hans er sundurleitari. Eftirspurn þessara afurða á alþjóðamörkuðum er því mjög verðteygin á meðan framboðið er tregbreytanlegt til skemmri tíma. Í sem stystu máli leiðir þetta til þess að hreint gjaldeyrisflæði vegna þeirra veltur til skemmri tíma á verðþróun á alþjóðamörkuðum og, í tilfelli sjávarútvegarins, á gæftum og aflaheimildum. Áhrif gengisbreytinga koma hins vegar ekki fram í útfluttu magni nema með langri tímatöf, en til skemmri tíma litið eru áhrifin fyrst og fremst á afkomu í þessum greinum, þar sem færri krónur koma í kassann til að borga launakostnað og önnur krónuútgjöld.

Aðlögun hagkerfisins að jafnvægi í gegn um hið sífellda samspil raungengis og viðskiptajafnaðar hefur af þessum sökum gjarnan verið á þann veg að í kjölfar breytinga á ofangreindum áhrifaþáttum á útflutningstekjur og þar með viðskiptajöfnuð hefur raungengið breyst, að mestu með breytingum á nafngenginu. Hér áður fyrr var gengið reyndar einfaldlega fellt með handafli í þessu skyni. Þær breytingar hafa svo leitt til breytinga á magni innflutnings, sem svo aftur hefur rétt nokkuð af viðskiptajöfnuðinn. Útflutningshliðin spilaði því ekki virkt hlutverk í þessari aðlögun, heldur var orsakasamhengið að mestu leyti frá útflutningshlið til raungengis til innflutningshliðar viðskiptajafnaðarins.

Virkara samband milli raungengis og útflutnings?

Þessu er líklega töluvert öðruvísi farið með ferðaþjónustuna. Þótt eftirspurn þar sé vissulega teygin, samanber rannsóknina sem vitnað var til að framan, er samband verðþróunar og eftirspurnar miklu flóknara en í tilfelli vöruútflutningsgreinanna. Aðilar í geiranum verðleggja sig til dæmis ýmist í krónum eða erlendum gjaldmiðlum, og mjög mismunandi er með hve löngum fyrirvara verð þeirra eru fastsett. Breytingar á nafngengi krónu skila sér því mismikið og mishratt inn í breytingar á því verði sem ferðalangar hingað til lands standa frammi fyrir. Þá er framboð í greininni töluvert teygnara en í hefðbundnum útflutningsgreinum, og hægara um vik fyrir ferðaþjónustuaðila að stilla af framboð og verð með sem hagfelldustum hætti fyrir rekstur sinn en t.d. álver sem flytja þarf út nokkurn veginn sama magn afurða í hverjum mánuði hvað sem tautar og raular. Sé bæði eftirspurn minna teygin og framboð teygnara í ferðaþjónustu en í fyrrnefndum vöruútflutningsgreinum ætti jafnvægi að nást við hærra verið og minna magn en ella, sem minnkar alla jafna hættuna á því að afkoma greinarinnar í heild verði neikvæð. Hækkun á raungengi ætti því að draga bæði úr framboði og eftirspurn í ferðaþjónustunni sem heild í áþekkum takti að öðru jöfnu.

Ýmsar erlendar rannsóknir sýna að samband þjónustuútflutnings og raungengis er sterkara en raunin er með vöruútflutning. Má þar nefna rannsókn Eichengreen og Gupta frá árinu 2012 , sem og athyglisverða rannsókn seðlabanka Nýja-Sjálands þar sem niðurstaðan var að raungengishreyfingar höfðu mun meiri áhrif á þjónustuútflutning en útflutning landbúnaðarvara, auk þess sem fyrrnefndi útflutningurinn brást við breytingum í alþjóðlegri eftirspurn meðan sá síðarnefndi þróaðist fremur í takti við breytingar á heimsmarkaðsverði og veðurskilyrðum. Ekki er úr vegi að ætla að hægt sé að heimfæra þessar niðurstöður á ferðaþjónustu og sjávarútveg hér á landi.

Í sem stystu máli eru líkur á því hin gagnkvæma verkun útflutningstekna og raungengis ætti að vera meiri og skjótvirkari nú en áður. Eftir því sem þjónustuútflutningur spilar stærra hlutverk í öflun útflutningstekna mun aðlögun hagkerfisins að ytra jafnvægi líkast til í ríkari mæli verða bæði á útflutningshlið og innflutningshlið viðskiptajafnaðarins. Þar sem öflun gjaldeyristekna hvílir að meirihluta til á útflutningi þjónustu nú um stundir gæti þessi eiginleiki dregið úr þeim sveiflum sem alla jafna hafa einkennt bæði viðskiptajöfnuð og raungengi í nútíma hagsögu Íslands. Það gæti þá reynst mikilvægt mótvægi við þá samþjöppun áhættu sem felst í tilkomu ferðaþjónustunnar sem langstærsta útflutningsatvinnuvegar þjóðarbúsins. Verður býsna áhugavert að sjá hvort það jafnvægi sem einkennt hefur gjaldeyrismarkað undanfarið hálft ár er til marks um slíkar breytingar, eða hvort komandi misseri fela í sér afturhvarf til fyrri tíðar hvað varðar sveiflur á raungenginu og ytra jafnvægi þjóðarbúsins.

Greinin birtist fyrst í Vísbendingu

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Senda tölvupóst