Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Breytingar á þjónustu hjá Íslandsbanka

Bankaþjónusta hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum. Samhliða því að viðskiptavinir hafa í auknum mæli nýtt sér stafræna þjónustu hefur útibúaheimsóknum fækkað. Ljóst er að COVID-19 hefur flýtt þeirri þróun en frá áramótum hefur notkun á bankaþjónustu í appi aukist um 400%.


Einstaklingsþjónusta eflist í Laugardal

Aukin áhersla verður lögð á einstaklingsþjónustu í útibúi bankans í Laugardal en auk almennrar bankaþjónustu verður húsnæðislánaþjónusta bankans framvegis staðsett þar frá og með 8. júní. Samhliða þessum breytingum sameinast útibúin á Höfða og Granda útibúinu í Laugardal, Suðurlandsbraut.

Á undanförnu ári hefur dregið úr heimsóknum í útibú um allt að 70% með aukinni notkun stafrænna lausna. Eftir sameiningar útibúa verða útibú bankans á höfuðborgarsvæðinu því í Norðurturni við Smáralind, Laugardal og Hafnarfirði.

Fyrirtækjamiðstöð í Norðurturni

Þjónusta við lítil- og meðalstór fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu verður frá og með 8. júní sameinuð í eina Fyrirtækjamiðstöð í Norðurturni, höfuðstöðvum Íslandsbanka. Fyrirtæki geta þó sem fyrr leitað í öll útibú fyrir einfalda bankaþjónustu. Íslandsbanki hefur verið leiðandi á markaði meðal lítilla- og meðalstórra fyrirtækja og er með mestu markaðshlutdeildina á höfuðborgarsvæðinu. Með þessu móti verður hægt að þjónusta fyrirtækin með enn sveigjanlegri hætti.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka:

„Á undanförnum mánuðum hefur hegðun viðskiptavina breyst hratt og hefur COVID-19 flýtt þeirri þróun. Við sjáum mikið færri heimsóknir í útibú á sama tíma og notkun í appi margfaldast. Við leggjum áfram áherslu þróun stafrænna lausna við einföld bankaviðskipti en viljum tryggja persónulega ráðgjöf við stærri ákvarðanir. Ný þjónusta fyrir eldri borgara hefur svo sannarlega fengið góðar viðtökur og munum við halda áfram á þeirri braut. Með Fyrirtækjamiðstöð í Norðurturni og með öflugri einstaklingsþjónustu í Laugardal náum við auknum slagkrafti í þjónustu bankans.“