Blikur á lofti í útflutningsgeiranum

Neikvæðar fréttir af hinum ýmsu útflutningsgreinum hafa aukið hættuna á bakslagi í útflutningi á komandi fjórðungum. Hagvöxtur gæti orðið talsvert minni á næsta ári fyrir vikið.


Íslenska hagkerfið er lítið, opið hagkerfi þar sem útflutningur vöru og þjónustu leikur stórt hlutverk í þeirri hagsæld sem hér hefur skapast undanfarna áratugi. Undanfarnar vikur og mánuði hafa neikvæð tíðindi borist frá hinum ýmsu útflutningsgreinum sem kunna að breyta myndinni fyrir hagþróun komandi missera nokkuð. Við gerðum því stutta úttekt á stöðunni og settum saman einfalda sviðsmynd af því hvernig horfurnar gætu hafa breyst frá því við gáfum út þjóðhagsspá á haustdögum.

Tímabundinn samdráttur í álframleiðslu

Á seinasta ári var útflutningsverðmæti áls og álafurða alls 313 ma.kr. Það svarar til 33% af heildar vöruútflutningi og 16% af heildartekjum af útflutningi vöru og þjónustu í fyrra. Innflutt aðföng vega nokkuð þungt í rekstri álveranna auk þess sem hagnaður þeirra, eða eftir atvikum taprekstur, fellur til erlendra eigenda álveranna. Umtalsverður hluti virðisaukans verður þó eftir innanlands.

Áhrif framleiðsluskerðingarinnar hjá Norðuráli velta að stærstum hluta á því hversu lengi starfsemin verður skert. Í bili verður ekki gripið til uppsagna og tekur Norðurál þar með á sig þann skell sem ella yrði fyrir launatekjur landsmanna. Þá er enn óvissa um hvort, og í hve miklum mæli, skert orkunotkun álversins kemur niður á tekjum íslenskra orkufyrirtækja. Hins vegar eru þegar merki um áhrif minni vöru- og þjónustukaupa, til að mynda í minni væntum tekjum Eimskips á komandi mánuðum vegna minni vöruflutninga á vegum Norðuráls.

Kísilmálmframleiðsla í ládeyðu

Að álverum frátöldum hefur stærstur hluti orkunotkunar orkufreks iðnaðar verið vegna verksmiðjanna á Grundartanga og Bakka. Þær framleiða báðar málmblöndur með háu kísilinnihaldi til notkunar í mismunandi iðnaðargeirum.

Í júlí síðastliðnum var rekstur kísilvers PCC á Bakka stöðvaður tímabundið og rúmlega helmingi starfsfólks sagt upp störfum. 30 til viðbótar var svo sagt upp í september síðastliðnum. Nýlega kom fram í viðtali við forstjóra PCC á Bakka að líklega verði starfsemin ekki ræst að nýju fyrr en í fyrsta lagi næsta hauæst. Ekki væri hægt að útiloka að verksmiðjunni yrði lokað til frambúðar.

Lokunin á Bakka er vitaskuld verulegt högg fyrir Húsavík og nærsveitir. Þar hefur PCC verið stærsti vinnuveitandinn og auk heldur keypt vörur og þjónustu í talsverðum mæli af heimamönnum. Þar að auki hefur lokunin á Bakka áhrif á tekjur Landsvirkjunar og Eimskips, svo nokkuð sé nefnt.

Þá tilkynnti járnblendiverksmiðja Elkem á Grundartanga á haustdögum um samdrátt í framleiðslu og að einn af þremur ofnum verksmiðjunnar yrði stöðvaður frá desemberbyrjun í fimmtíu til sextíu daga vegna krefjandi markaðsaðstæðna.

Á síðasta ári voru brúttó útflutningstekjur frá kísilmálmverksmiðjunum tveimur ríflega 26 ma.kr. samkvæmt tölum Hagstofunnar. Ljóst er því að skert starfsemi í þeim mæli sem fyrir liggur að verður næsta kastið mun draga allnokkuð úr hreinum útflutningstekjum landsins svo lengi sem starfsemin kemst ekki á fullan skrið á nýjan leik.

Rýrari uppsjávarveiðar í kortunum

Fréttir af væntanlegu aflamarki í helstu uppsjávartegundum hafa verið nokkuð sitt á hvað undanfarið. Þannig leggur Alþjóðahafrannsóknaráðið ICES til að makrílafli næsta árs verði 70% minni en á yfirstandandi ári. Fyrir kolmunna hljóðar ráðgjöfin upp á 41% lækkun milli ára. Hins vegar leggur ICES til 33% hækkun í norsk-íslenskri vorgotssíld og er það nokkur sárabót.

Þá leggur Hafrannsóknastofnun til 44 þúsund tonna hámarksafla í loðnu á komandi ári eftir haustmælingu á stofninum. Það er vissulega rýrt í roðinu miðað við myndarlegar vertíðar áranna 2021-2023 en gæti þó orðið þjóðarbúinu allnokkur búbót eftir loðnubrest undanfarna tvo vetur. Ekki er heldur útilokað að ráðgjöfin verði á endanum eitthvað myndarlegri eftir frekari mælingar í upphafi næsta árs. Útflutningsverðmætið verður líka gjarnan talsvert meira í hlutfalli við veitt magn í rýrum loðnuvertíðum en myndarlegum, bæði vegna þess að verð loðnuafurða hækkar almennt í rýru árunum og eins verður áherslan á að vinna sem verðmætastar afurðir úr litlum afla.

Samanlagt lítur samt sem áður út fyrir að uppsjávartegundir skili á heildina litið heldur minni útflutningstekjum til þjóðarbúsins á næsta ári en þetta ár. Útflutningstekjur af afurðum uppsjávartegunda námu ríflega 94 ma.kr. árið 2024 sem svaraði til 4,8% af heildar útflutningstekjum þjóðarbúsins. Það munar því um það þegar samdráttur verður í útflutningi afurða slíkra tegunda eins og nú lítur út fyrir fimmta árið í röð.

Blikur á lofti í ferðaþjónustu

Ferðaþjónustan átti góðu heilli töluvert betri háönn þetta árið en útlit var fyrir. Alls fóru til að mynda tæplega 1,8 milljónir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll á fyrstu þremur fjórðungum ársins samkvæmt  mælingum Ferðamálastofu og er það tæplega 3% fjölgun frá sama tímabili í fyrra. Aðrir hagvísar tengdir ferðafólki, s.s. kortavelta erlendra korta og gistinætur sýna áþekka þróun.

Það eru hins vegar blikur á lofti varðandi komandi fjórðunga í greininni. Fall flugfélagsins Play í lok septembermánaðar hefur valdið nokkrum samdrætti í flugferðum til og frá landinu þótt félagið hafi raunar verið búið að breyta áherslum sínum verulega  undanfarna fjórðunga og erlendir ferðamenn hafi leikið þar smærra hlutverk en áður.

Hvort áhrif gjaldþrotsins verða einhver að ráði á þjóðarbúið og útflutningstekjur þegar næstu mánuðum sleppir veltur að okkar mati mest á því hvernig ferðaþjónustuveturinn verður, sem og upptakturinn fyrir næsta vor og sumar. Ef spurn mun virðist munu verða myndarleg eru allar líkur á að önnur flugfélög, innlend og erlend, fylli í það skarð sem Play skilur eftir sig rétt eins og þegar er að gerast varðandi flugframboð gagnvart íslenskum sólarlandaförum.

Ýmsir framámenn í greininni hafa hins vegar undanfarið lýst áhyggjum af bókunarstöðu á komandi vetri í fjölmiðlum. Þar spilar hátt raungengi krónu trúlega stórt hlutverk. Þá eru talsverðar áhyggjur innan greinarinnar af áhrifum aukinnar gjaldtöku stjórnvalda á samkeppnishæfni hennar á komandi misserum. Til að mynda hefur verið bent á að upptaka innviðagjalds á skemmtiferðaskip virðist hafa dregið talsvert úr umsvifum slíkra skipa hér við land með tilheyrandi tekjutapi.

Sviðsmynd með samdrætti í útflutningi 2026

Við gáfum fyrir rúmum mánuði síðan út þjóðhagsspá þar sem meðal annars var lagt upp með tilteknar forsendur fyrir útflutningsgreinar. Gerðum við þar ráð fyrir því að útflutningur myndi vaxa um 3% á næsta ári eftir ríflega 2% vöxt í ár.

Óvissa um þróun útflutningsgreina hefur vissulega aukist undanfarnar vikur og mánuði. Vel getur verið að þróunin verði eftir sem áður í takti við framangreinda spá. Líkur hafa þó að okkar mati, líkt og trúlega flestra, vaxið á því að geirinn muni eiga erfiðara uppdráttar en ella eftir þróunina sem rakin er hér að ofan.

Við höfum því gert einfalda sviðsmynd sem gerir ráð fyrir talsvert mótdrægari þróun en í grunnspánni. Í henni eru þær forsendur lagðar til grundvallar að framleiðsluskerðing verksmiðjanna á Grundartanga standi fram á mitt næsta ár, PCC á Bakka verði ekki starfrækt á árinu 2026, uppsjávarafli verði í takti við áætlunina hér að ofan og að ferðamenn á næsta ári verði álíka margir og árið 2024, þ.e. 3% færri en í ár. Vissulega væri hægt að teikna upp töluvert svartari sviðsmynd og yrðu áhrifin á þjóðarbúskapinn þá að sama skapi meiri. Á móti má benda á að í sviðsmynd okkar er ekki gert ráð fyrir teljandi mótvægisaðgerðum né því að ónýtt orka, starfskraftar eða fjármunir vegna samdráttar í útflutningi verði í teljandi mæli nýttir til annarrar verðmætasköpunar innan tímabilsins.

Miðað við framangreindar forsendur gæti hagvöxtur orðið í kring um 0,8% á næsta ári í stað þess 1,7% vaxtar sem við spáðum í septemberlok. Útflutningur vöru og þjónustu gæti þá í heild skroppið saman um 2-3% í stað 3% vaxtarins sem við spáum. Á móti myndi innflutningur vöru og þjónustu einnig skreppa saman í sviðsmynd okkar, en gert er ráð fyrir 1% vexti hans í grunnspá.

Gjaldeyrisflæði vegna utanríkisviðskipta yrði nokkuð óhagstæðara og því eru líkur á heldur veikari krónu fyrir vikið en í grunnspánni. Það myndi tímabundið ýta upp verðbólgu en að sama skapi myndu minni efnahagsumsvif minnka eftirspurnarverðbólgu á komandi misserum. Atvinnuleysi yrði öllu meira en í grunnspá, umsvif heimilanna myndu vaxa hægar og fyrirtæki sem byggja á innlendri eftirspurn myndu að sama skapi stíga frekar á bremsuna en ella.

Áhrifin á stýrivexti Seðlabankans fara á endanum eftir því hversu þrálát innflutt verðbólga myndi reynast og ekki síður hinu hvort verðbólguvæntingar tækju meira mið af tímabundnu verðbólguskoti eða hvort væntingar um minni verðbólguþrýsting síðar meir myndu vega þyngra. Það væri til að mynda hægt að ímynda sér að Seðlabankinn myndi bíða átekta til að byrja með varðandi áframhaldandi vaxtalækkunarferli, en að vaxtalækkunin yrði á móti hraðari þegar fyrstu áhrif veikari krónu á verðbólguna væru að baki.

‚Sem betur fer eru þó meiri líkur en minni á því að mögulegur mótvindur fyrir útflutningsgreinar verði tímabundinn og að íslenska hagkerfið sýni á næstu árum, eins og fyrri daginn, hversu sveigjanlegt það er, þegar og ef ytri eða innri áföll dynja á efnahagnum.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband