Áhrif framleiðsluskerðingarinnar hjá Norðuráli velta að stærstum hluta á því hversu lengi starfsemin verður skert. Í bili verður ekki gripið til uppsagna og tekur Norðurál þar með á sig þann skell sem ella yrði fyrir launatekjur landsmanna. Þá er enn óvissa um hvort, og í hve miklum mæli, skert orkunotkun álversins kemur niður á tekjum íslenskra orkufyrirtækja. Hins vegar eru þegar merki um áhrif minni vöru- og þjónustukaupa, til að mynda í minni væntum tekjum Eimskips á komandi mánuðum vegna minni vöruflutninga á vegum Norðuráls.
Kísilmálmframleiðsla í ládeyðu
Að álverum frátöldum hefur stærstur hluti orkunotkunar orkufreks iðnaðar verið vegna verksmiðjanna á Grundartanga og Bakka. Þær framleiða báðar málmblöndur með háu kísilinnihaldi til notkunar í mismunandi iðnaðargeirum.
Í júlí síðastliðnum var rekstur kísilvers PCC á Bakka stöðvaður tímabundið og rúmlega helmingi starfsfólks sagt upp störfum. 30 til viðbótar var svo sagt upp í september síðastliðnum. Nýlega kom fram í viðtali við forstjóra PCC á Bakka að líklega verði starfsemin ekki ræst að nýju fyrr en í fyrsta lagi næsta hauæst. Ekki væri hægt að útiloka að verksmiðjunni yrði lokað til frambúðar.
Lokunin á Bakka er vitaskuld verulegt högg fyrir Húsavík og nærsveitir. Þar hefur PCC verið stærsti vinnuveitandinn og auk heldur keypt vörur og þjónustu í talsverðum mæli af heimamönnum. Þar að auki hefur lokunin á Bakka áhrif á tekjur Landsvirkjunar og Eimskips, svo nokkuð sé nefnt.
Þá tilkynnti járnblendiverksmiðja Elkem á Grundartanga á haustdögum um samdrátt í framleiðslu og að einn af þremur ofnum verksmiðjunnar yrði stöðvaður frá desemberbyrjun í fimmtíu til sextíu daga vegna krefjandi markaðsaðstæðna.
Á síðasta ári voru brúttó útflutningstekjur frá kísilmálmverksmiðjunum tveimur ríflega 26 ma.kr. samkvæmt tölum Hagstofunnar. Ljóst er því að skert starfsemi í þeim mæli sem fyrir liggur að verður næsta kastið mun draga allnokkuð úr hreinum útflutningstekjum landsins svo lengi sem starfsemin kemst ekki á fullan skrið á nýjan leik.
Rýrari uppsjávarveiðar í kortunum
Fréttir af væntanlegu aflamarki í helstu uppsjávartegundum hafa verið nokkuð sitt á hvað undanfarið. Þannig leggur Alþjóðahafrannsóknaráðið ICES til að makrílafli næsta árs verði 70% minni en á yfirstandandi ári. Fyrir kolmunna hljóðar ráðgjöfin upp á 41% lækkun milli ára. Hins vegar leggur ICES til 33% hækkun í norsk-íslenskri vorgotssíld og er það nokkur sárabót.