Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Bjargvætturinn í Notre Dame

Bernard Arnault nokkur hyggst leggja hátt í 30 milljarða króna til endurreisnar Notre Dame. En hvaðan kemur auður þessa manns?


Franski milljarðamæringurinn Bernard Arnault brást skjótt við stórbrunanum í Notre Dame á dögunum. Fyrirtæki hans, LVHM, hyggst reiða fram hátt í 30 milljarða króna til endurreisnar kirkjunnar.

Arnault þessi er sem stendur þriðji ríkasti maður heims og eru eignir hans og fjölskyldu metnar á yfir 11.000 milljarða íslenskra króna. Einungis Jeff Bezos og Bill Gates hafa safnað meiri auði en einhverra hluta vegna er nafn hans þó ekki kunnugt öllum.

Hvaðan kemur allur þessi auður?

Frá því Arnault festi kaup á tískuvörurisanum Christian Dior um miðjan 9. áratuginn hefur veldi hans heldur betur þanist út. Mörg af vinsælustu tísku- og snyrtivörumerkjum heims eru nú hluti móðurfélagsins LVHM auk áfengisframleiðenda á borð við Dom Pérignon, Hennessy, Moët og Veuve Clicquot.

Fljótlega eftir kaupin á Dior festi Arnault kaup á Luis Vuitton og í kjölfarið bættust við merki á borð við Givenchy, Guerlain, Marc Jacobs, Sephora, Tag Heuer, Gucci, Fendi, DKNY, Hermés og Bulgari. Merkjavara virðist sífellt verða vinsælli og endurspeglast það meðal annars í afkomu LVHM, en hagnaður fyrirtækisins á síðasta ári nam um 1.360 milljörðum íslenskra króna. Framlagið til endurreisnar Notre Dame jafngildir því um 2% hagnaðar ársins.

Arnault sjálfur hefur verið tíður gestur á topp 10 lista auðugasta fólk heims undanfarinn áratug. Eftir tvö ár í fjórða sæti lista Forbes átti hann á dögunum sætaskipti við fjárfestinn Warren Buffett og situr í fyrsta sinn í 3. sæti listans.

Heimildir: Forbes, The Fasionlaw, LVHM

Höfundur


Björn Berg Gunnarsson

Deildarstjóri greiningar og fræðslu


Senda tölvupóst