Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Batnandi utanríkisviðskipti í boði ferðaþjónustu

Allmyndarlegur bati í ferðaþjónustu á stærstan þátt í þeim afgangi sem var af vöru- og þjónustuviðskiptum á 3. ársfjórðungi eftir halla á fyrri árshelmingi. Eftir þungt högg vegna faraldursins sækir útflutningur nú í sig veðrið á nýjan leik. Þrátt fyrir jákvæðan viðsnúning á seinni árshelmingi verður líklega halli á vöru- og þjónustuviðskiptum i ár en horfur eru á afgangi á næstu árum.


Afgangur var af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd á 3. ársfjórðungi eftir talsverðan halla á slíkum viðskiptum á fyrri helmingi ársins. Alls var afgangurinn 12,9 ma.kr. og má þakka hann 60,3 ma.kr. afgangi af þjónustuviðskiptum en á móti vó 47,4 ma.kr. vöruskiptahalli. Þjónustuafgangurinn hefur ekki verið jafn myndarlegur frá því fyrir faraldur og á hann sér kunnuglegar skýringar.

Ferðaþjónustan sækir í sig veðrið á ný

Langstærstan hluta afgangsins má nefnilega skýra með tæplega 57 ma.kr. afgangi af viðskiptum vegna ferðalaga og ríflega 17 ma.kr. afgangi vegna farþegaflutninga með flugi. Svo mikill hefur slíkur afgangur ekki verið í í tvö ár enda hefur faraldurinn vitaskuld haft víðtæk áhrif á ferðaþjónustu hér sem annars staðar í heiminum.

Að ferðaþjónustutengdum liðum slepptum var einnig tæplega 2 ma.kr. afgangur af þjónustuviðskiptum tengdum upplýsinga- og fjarskiptatækni og svipaður afgangur vegna fjármálaþjónustu milli landa. Rannsóknar- og þróunarkostnaður til útlanda umfram tekjur var hins vegar óvenju mikill (-8,7 ma.kr. nettó) og þá voru hreinar tekjur vegna notkunar hugverka óvenju rýrar í roðinu, en sá liður er reyndar afar sveiflukenndur milli ársfjórðunga.

Þótt ferðagleði Íslendinga hafi aukist talsvert síðasta sumar frá fjórðungunum á undan vóg það takmarkað gegn stóraukinni sókn erlendra ferðamanna til landsins að áliðnu sumri. Alls komu 370 þúsund ferðamenn til Íslands á 3. ársfjórðungi og hafa þeir ekki verið fleiri frá lokafjórðungi ársins 2019. Þar að auki skilaði hver ferðamaður umtalsvert meiri tekjum inn í þjóðarbúið en raunin var fyrir faraldur eins og fjallað var um í nýlegu Korni.

Útflutningur á uppleið

Á heildina litið er útflutningur farinn að sækja töluvert í sig veðrið eftir þungt högg vegna faraldursins á síðasta ári. Heildarútflutningur vöru og þjónustu var ríflega 356 ma.kr. á 3. ársfjórðungi og hefur ekki verið meiri í krónum talið í tvö ár. Þar spilar vissulega inn í að gengi krónu var að jafnaði tæplega 7% veikari á fjórðungnum en árið 2019, svo tekið sé dæmi af síðasta heila árinu fyrir faraldur.

Verðþróun á mörkuðum hefur einnig verið áliðnaðinum hagfelld og nam útflutningur álafurða ríflega 79 mö.kr. á tímabilinu sem samsvarar 60% meiri útflutningstekjum en á sama tíma í fyrra. Lítilsháttar samdráttur varð hins vegar í útflutningstekjum af sjávarafurðum á fjórðungnum samanborið við síðasta ár, en slíkar tekjur námu alls tæplega 65 mö.kr. á tímabilinu. Sé horft á leitni undanfarinna fjórðunga hefur slíkur útflutningur hins vegar almennt verið að sækja í sig veðrið og nam hann alls 286 mö.kr. á tímabilinu frá lokafjórðungi síðasta árs til 3. fjórðungs þessa árs.

Halli í ár en afgangur í sjónmáli

Líklega verður 2021 annað árið í röð þar sem halli verður á vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd. Þróunin innan ársins er hins vegar til betri vegar eftir 83 ma.kr. halla á fyrri árshelmingi. Þannig virðist lokafjórðungur ársins stefna í að verða drýgri fyrir ferðaþjónustuna en við væntum og vöruskiptahalli í október var sá minnsti frá apríl síðastliðnum. Fljótt á litið gæti því vöru- og þjónustujöfnuður orðið nærri jafnvægi á síðasta fjórðungi þessa árs.

Útlitið er einnig bjart fyrir komandi misseri hvað utanríkisviðskipti varðar. Útlit er fyrir myndarlega loðnuvertíð í vetur og lítur því út fyrir talsverðan vöxt í útflutningi sjávarafurða á komandi ári öfugt við það sem við væntum í þjóðhagsspá okkar í september. Þá eru ennþá meiri líkur en minni á mikilli fjölgun ferðamanna á næsta ári þótt vissulega sé ekki á vísan að róa þar vegna óvissu um þróun faraldursins. Loks er verð á áli enn býsna hátt í sögulegu samhengi þótt það hafi gefið nokkuð eftir frá hæstu hæðum ársins. Á móti vegur þó að verð á ýmsum innfluttum aðföngum hefur hækkað mikið undanfarið.

Á heildina litið teljum við að afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum geti orðið á bilinu 80-100 ma.kr. á næsta ári og enn myndarlegri árið 2023. Horfur um utanríkisviðskipti eru því góðar og verði ekki djúpt og langvarandi bakslag vegna faraldursins stefnir hagkerfið aftur hraðbyri í myndarlegan afgang í slíkum viðskiptum líkt og raunin var áratuginn fyrir faraldur.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband