Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verður 2021 sterkara ferðamannaár en við væntum?

Ríflega 100 þúsund ferðamenn sóttu landið heim í októbermánuði og eru þeir nú orðnir fleiri en allt árið í fyrra. Bandaríkjamenn bera höfuð og herðar yfir aðrar þjóðir í heimsóknum hingað til lands. Tekjur af hverjum ferðamanni hafa aukist talsvert frá því fyrir faraldur og útlit er fyrir að tekjuöflun greinarinnar vaxi hröðum skrefum á komandi misserum.


Erlendir ferðamenn sem fóru af landi brott um Flugstöð Leifs Eiríkssonar voru ríflega 103 þúsund í liðnum október samkvæmt nýlegum tölum frá Ferðamálastofu. Var það svipaður fjöldi og í mánuðinum á undan en flestir urðu ferðamenn það sem af er ári í ágústmánuði, nærri 152 þúsund. Líkt og í septembermánuði voru ferðamenn í október fleiri en við höfðum vænst og virðist sem ferðavilji hingað til lands sé enn talsverður þrátt fyrir takmarkanir á landamærunum og sveiflur í faraldrinum á haustdögum.

Rétt eins og mánuðina á undan báru Bandaríkjamenn höfuð og herðar yfir aðrar þjóðir í heimsóknum hingað til lands í október. Þarlent ferðafólk var nærri 33 þúsund talsins og lætur því nærri að 3 af hverjum 10 ferðamönnum hafi verið frá Bandaríkjunum í októbermánuði. Næstir þar á eftir komu Bretar (ríflega 10 þúsund), Þjóðverjar voru tæplega 10 þúsund, Norðurlandabúar tæp 9 þúsund og Pólverjar ríflega 5 þúsund.

Ferðamenn á árinu líklega í takti við bjartsýnisspá

Það sem af er þessu ári hafa fleiri ferðamenn sótt landið heim en allt árið í fyrra. Í októberlok voru brottfarir erlends ferðafólks um Leifsstöð samtals orðnar 548 þúsund en voru alls 479 þúsund á árinu 2020. Við spáðum í septembermánuði að u.þ.b. 600 þúsund ferðamenn myndu sækja landið heim í ár og ekki þarf því marga ferðalanga í nóvember og desember til þess að heildarfjöldinn fari umfram þá spá. Í ljósi þess að Bandaríkin hafa nú opnað landamæri sín fyrir bólusettu ferðafólki og takmarkanir í Evrópulöndum eru enn sem komið er litlar þrátt fyrir ris í faraldrinum víða sýnist okkur blasa við að ferðamenn í ár verði á endanum jafnvel nær 700 þúsund og þar með eldri spá okkar frá ársbyrjun, sem og bjartsýnu sviðsmyndina í spá okkar á haustdögum.

Bandaríkjamenn ríflega þriðjungur ferðamanna

Eins og nefnt var hér að ofan hefur ferðafólk frá Bandaríkjunum verið fjölmennt í hópi ferðalanga til Íslands þetta árið. 37% ferðafólks á fyrstu 10 mánuðum ársins er upprunnið þar í landi enda opnaði Ísland landamærin fyrir bólusettum Bandaríkjamönnum á vordögum og hafa undirtektir þeirra við þeirri breytingu verið miklar og góðar. Hlutfall þeirra af heildarfjölda ferðafólks hefur raunar aldrei verið hærra en í ár þótt ávallt hafi þeir verið drjúgur hluti þeirra sem sótt hafa Ísland heim.

Hátt hlutfall Bandaríkjamanna eru góðar fréttir fyrir ferðaþjónustu hérlendis þar sem þeir gera gjarnan vel við sig á ferðalögum hingað til lands. Þannig kom fram í skýrslu okkar um ferðaþjónustu árið 2019 að einungis Kínverjar eyddu hér hærri fjárhæðum á hverjum degi heimsóknar sinnar árið áður. Þarlendir ferðamenn eru hins vegar sjaldséðir hér á landi þessa dagana og var einungis 0,4% ferðafólks hingað til lands af kínverskum uppruna það sem af er ári. Ætti það ekki að undra þar sem Kínverjar, líkt og sum önnur lönd í Asíu, hafa beitt ströngum landamæratakmörkunum undanfarin misseri.

Að Bandaríkjamönnum undanskildum voru Þjóðverjar (9,7%) fjölmennastir í hópi ferðamanna á fyrstu 10 mánuðum ársins. Pólverjar voru ríflega 7% ferðafólks til landsins en væntanlega er þar að stórum hluta um að ræða fólk í fjölskylduheimsóknum til landa sinna sem hér eru búsettir. Norðurlandabúar og Bretar voru hvorir um sig tæp 6% og Frakkar tæp 5% ferðafólks hingað til lands á tímabilinu. Ferðafólk frá Bretlandi hefur sér í lagi verið að sækja í sig veðrið í Íslandsferðum á haustdögum sem hljóta að teljast jákvæð tíðindi enda hafa breskir ferðamenn síðustu ár gjarnan verið ákveðinn burðarás í ferðamennsku hér á landi utan háannar.

Meiri tekjur af hverjum ferðamanni í ár

Það hjálpar líka væntanlega til við tekjuöflun ferðaþjónustunnar að ferðafólk hingað til lands virðist að jafnaði dvelja heldur lengur hér á landi undanfarna mánuði en raunin var fyrir faraldur. Ef bornar eru saman gistinætur á skráðum gististöðum samkvæmt tölum Hagstofunnar og framangreindar fjöldatölur má gróflega áætla að hver ferðamaður hafi að jafnaði gist hér 4,7 nætur á 3. fjórðungi þessa árs. Til samanburðar voru gistinætur á hvern ferðamann 4,3 á 3F 2019 og 3,7 á sama tíma 2018.

Einnig er forvitnilegt að bera saman fjölda ferðamanna og kortaveltu þeirra hér á landi, sem Rannsóknastofnun verslunarinnar heldur utan um. Á 3. ársfjórðungi var kortavelta ferðamanna hér á landi (þ.e. velta að frátöldum kaupum á flugfargjöldum o.fl.) 60,6 ma.kr. Á sama tímabili 2019 var þessi tala 77,4 ma.kr. og 80,7 ma.kr. árið 2018. Sé deilt í heildartölurnar með fjölda ferðamanna á hverju ári er upphæðin á hvern ferðamann 164 þ.kr. á 3F 2021, 116 þ.kr. á 3F 2019 og 101 þ.kr. á 3F 2018. Í millitíðinni hefur verðbólga vissulega verið nokkur og gengi krónu gefið eftir, og því ekki hægt að bera þessar tölur saman með beinum hætti. Þeim ber hins vegar saman við framangreindar gistináttatölur og aðrar vísbendingar um meiri útgjöld hvers ferðamanns um sig á borð við lengri meðalleigutíma bílaleigubíla.

Bjartar langtímahorfur fyrir ferðaþjónustuna

Óneitanlega hafa skammtímahorfur fyrir ferðaþjónustuna heldur dökknað með risi faraldursins hérlendis sem í ýmsum nágrannalöndum síðustu vikur. Eftir sem áður virðist útlitið þó bjart þegar lengra er skyggnst fram á veg. Við gáfum í september út þjóðhagsspá þar sem því var spáð að ferðamenn hingað til lands gætu orðið nærri 1,3 milljónir á næsta ári og tæplega ein og hálf milljón árið 2023. Ef sú ánægjulega þróun heldur áfram að virðisauki á hvern ferðamann verði að jafnaði meiri en var þegar straumur þeirra var sem stríðastur árin fyrir faraldur virðist framtíð ferðaþjónustunnar björt þótt gefið hafi verulega á bátinn í greininni síðustu misserin.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband