Umtalsverður halli hefur verið á vöruskiptum við útlönd það sem af er ári og varð engin breyting þar á í september. Samkvæmt nýbirtum bráðabirgðatölum Hagstofunnar var vöruskiptahallinn í septembermánuði 45,5 ma.kr. og þar með um það bil tvöfalt meiri en á sama tíma fyrir ári. Alls voru fluttar út vörur fyrir ríflega 77 ma.kr. í síðasta mánuði og á sama tíma nam vöruinnflutningur tæpum 123 ma.kr.
Batnandi tíð í kortunum í utanríkisviðskiptum
Vöruskiptahalli við útlönd hefur verið verulegur undanfarið, ekki síst vegna mikils innflutnings tengt uppbyggingu gagnavera. Útflutningsvöxtur hefur verið hægur en horfur eru á aukningu á breiðari grunni. Útlit er fyrir batnandi utanríkisviðskipti á komandi misserum.
Eins og sjá má af myndinni hefur dregið í sundur með þróun vöruútflutnings og -innflutnings undanfarna fjórðunga. Þannig varð töluvert myndarlegri vaxtakippur á innflutningshliðinni en útflutningsmegin síðasta vetur og hefur innflutningsvöxturinn varað allt fram á þetta haust á meðan samdráttur hefur tekið við af vexti á útflutningshliðinni.
Undirliggjandi þróun í vöruskiptajöfnuðinum er þó góðu heilli hagfelldari en ofangreindar tölur gefa til kynna. Vöxturinn í vöruinnflutningi hefur undanfarið litast sterkt af miklum innflutningi fjárfestingarvara vegna uppbyggingar í gagnaverageiranum. Má þar nefna að á 12 mánaða tímabilinu til og með september sl. jókst innflutningur fjárfestingarvara að flutningatækjum undanskildum um 48% í krónum talið frá næstu 12 mánuðum á undan. Á sama tíma jókst innflutningurinn í heild um 12% á þennan mælikvarða enda var vöxturinn í innflutningi annarra vöruflokka almennt mun hægari. Uppbygging gagnaveranna er fjármögnuð af erlendum eigendum þeirra og fylgir því ekki gjaldeyrisútflæði slíkum innflutningi.
Undanfarna 12 mánuði hefur vöruútflutningur vaxið um 2% í krónum talið frá 12 mánaða tímabilinu þar á undan. Einkennir sá hægi vöxtur alla helstu undirliði. Þannig jókst útflutningsverðmæti sjávarafurða um 3%, iðnaðarvara um 1% og eldisafurða um 4% svo nokkuð sé nefnt. Hvað sjávarafurðir varðar hefur útflutt magn skroppið saman en á móti hefur verðþróun verið hagstæð. Þessu er svo öfugt farið í áliðnaði þar sem magnið hefur þokast upp á við en verðið gaf tímabundið eftir þótt það hafi raunar farið hækkandi á nýjan leik.
Horfur á vaxandi útflutningi á breiðari grunni
Í nýlega birtri þjóðhagsspá okkar, Hagkerfið að hausti, spáum við í spilin varðandi utanríkisviðskipti á komandi misserum. Þar kemur fram að hlutur ferðaþjónustu í heildar gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins óx hratt í kjölfar fjármálakreppunnar. Nam hann 19% af heildar útflutningstekjum árið 2010 en hafði vaxið í 35% árið 2019. Greinin skilaði tæpum þriðjungi útflutningstekna á síðasta ári og útlit er fyrir að það hlutfall verði áfram svipað á spátímanum.
Aðrir vaxtarbroddar munu trúlega taka við af ferðaþjónustunni í útflutningsvexti á komandi tíð. Má þar til að mynda nefna fiskeldi þar sem mikil uppbygging á sér stað um þessar mundir, sér í lagi í landeldi á laxi. Í fyrra námu útflutningstekjur greinarinnar alls 54 ma. kr. eða 5,6% af heildar vöruútflutningi. Útlit er fyrir allnokkra hækkun þessa hlutfalls á spátímanum. Vægi innlends virðisauka í þeim vexti verður einnig talsvert meira en ella vegna þess að landeldisfyrirtækin, sem leiða vöxt greinarinnar, eru að stærstum hluta í innlendri eigu á meðan eigendur sjókvíaeldisfyrirtækja eru að stórum hluta erlendir.
Þá hefur útflutningur á afurðum svokallaðs hugverkaiðnaðar, þ.e. vörum og þjónustu sem byggja að stærstum hluta á hagnýtingu hugvits, rannsókna og þróunar, verið í myndarlegum vexti undanfarið. Útflutningstekjur þessa geira námu alls 261 ma. kr. á síðasta ári sem svarar til ríflega 13% af heildar útflutningstekjum þjóðarbúsins árið 2024. Til samanburðar var þetta hlutfall 7% árið 2010.
Hugverkaiðnaður inniheldur nokkuð fjölbreytta flóru fyrirtækja, allt frá framleiðslu lækningatækja yfir í gerð sjónvarpsefnis og tölvuleikja. Meðal vaxtarsprota innan geirans á komandi tíð má til að mynda nefna lyfjaframleiðslu þar sem útlit er fyrir stóraukin umsvif. Einnig mun stórfelld uppbygging gagnavera um þessar mundir leiða af sér umtalsverða tekjuaukningu innan þessa geira á næstunni
Viðsnúningur utanríkisviðskipta í kortunum
Útflutningur vöru og þjónustu dróst saman um rúmlega 2% á síðasta ári eftir þriggja ára samfelldan vöxt. Loðnubrestur, skömmtun á raforku til álvera og slakur annar ársfjórðungur í ferðaþjónustu vógu hvað þyngst í samdrættinum. Raunar jókst vöruútflutningur lítillega í fyrra en allsnarpur samdráttur í þjónustuútflutningi vó þyngra.
Vöxtur í þjónustuútflutningi mun að mestu knýja þann ríflega 2% útflutningsvöxt sem við spáum í ár. Þar vegur þyngst hóflegur vöxtur í ferðaþjónustu og auknar þjónustutekjur hugverkaiðnaðar. Aukning á útflutningi eldisafurða og iðnaðarvara vegur svo ívið þyngra en samdráttur í útflutningi sjávarafurða hvað vöruútflutning varðar í ár.
Útflutningsvöxturinn glæðist svo enn frekar næstu tvö ár. Við áætlum að útflutningur aukist um 3% árið 2026 og um ríflega 3% árið 2027. Ein helsta ástæða hraðari vaxtar seinni tvö spáárin er forsenda okkar um hóflegan vöxt í ferðaþjónustu á sama tíma og útflutningur á afurðum hugvitsiðnaðar og fiskeldis sækir áfram í sig veðrið.
Sýn okkar á þróun innflutnings í ár hefur breyst nokkuð frá síðustu spá. Spáum við nú ríflega 6% vexti heildarinnflutnings í magni mælt í ár. Þar vegur ekki síst þungt að innflutningur fjárfestingarvara óx mikið á fyrri helmingi ársins, að miklu leyti tengt uppbyggingu í gagnaverum. Að sama skapi dregur trúlega talsvert úr innflutningi á fjárfestingarvörum á næsta ári og skýrir það að stórum hluta hægan innflutningsvöxt það ár. Aftur bætir svo í innflutningsvöxtinn á lokaári spárinnar.
Framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar verður því talsvert neikvætt á þessu ári, að sama skapi jákvætt á næsta ári en nokkurn veginn hlutlaust á lokaári spárinnar.