Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Atvinnuleysi færist í aukana

Það er í allra hag að tryggja lágt atvinnuleysisstig og fullnýta þekkingu, reynslu og hæfileika á vinnumarkaðinum svo hjól atvinnulífsins taki að snúast á nýjan leik.


Áhrif COVID-19 faraldursins á vinnumarkaðinn eru eitt helsta viðfangsefni stjórnvalda þessi dægrin. Atvinnuleysi hefur í för með sér vannýtingu þekkingar, reynslu og hæfileika fólks og því er brýnt að finna þeim kröftum viðnám sem fyrst. En hvert stefnir í þeim málum?

20.800 manns án vinnu

Atvinnuleysi mældist 9,9% í maí samkvæmt nýlegum tölum frá Hagstofunni en var til samanburðar 6% í sama mánuði 2019 og einungis 3% í maí 2018. Um 20.800 einstaklingar voru án vinnu þar sem hæst hlutfall atvinnulausra var á aldrinum 16-24 ára en um 40% atvinnulausra tilheyra þeim aldurshópi. Skýrist það að stórum hluta af fjölda námsmanna í leit að sumarvinnu.

Rösklega 23% Íslendinga á aldrinum 16-24 eru nú atvinnulausir, sem er tæpu prósenti minna en í apríl. Ástæðu þess mætti rekja til þeirra ákvörðunar stjórnvalda að stórauka framboð sumarstarfa fyrir námsmenn. Slíkar atvinnuleysistölur eru þó sjaldséðar og þarf að leita aftur til maí 2012 til að sjá viðlíka atvinnuleysi.

Samkvæmt nýlegri vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar fækkaði störfum um 22.000 á 12 mánaða tímabili fram til apríl 2020. Sem dæmi má nefna að á síðastliðnum þremur mánuðum hafa rúmlega 7.000 manns orðið fyrir barðinu á hópuppsögnum. Þó er vert er að minnast á að tölur Hagstofunnar taka ekki til greina einstaklinga í skertu starfshlutfalli á hlutabótum.

Hvert stefnir?

Í könnun Samtaka atvinnulífsins, sem gerð var meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins í maí og fyrstu viku júní, sögðu 94% þeirra ekki skort á vinnuafli og gera mun fleiri ráð fyrir að fækka starfsfólki enn frekar á komandi mánuðum en hyggja á fjölgun.  Nokkru fleiri þeirra telja þó að aðstæður í efnahagslífinu verði hér betri að sex mánuðum liðnum en í dag og rímar það við nýjustu mælingu Væntingavísitölu Gallup, en 6 mánaða væntingar hafa þar ekki mælst jafn jákvæðar í tvö og hálft ár.

Áhrifa uppsagna undanfarinna vikna og mánaða gætir ekki enn að fullu í atvinnuleysistölum þar sem margir vinna nú uppsagnarfrest. Enn frekari uppsagnir og lok uppsagnarfrests mun því væntanlega ýta enn frekar undir mælt atvinnuleysi á komandi mánuðum og er það í takt við þjóðhagsspá Greiningar Íslandsbanka þar sem við spáum því að atvinnuleysi verði að meðaltali 9,6% á þessu ári.

Vandamál á heimsvísu

Ísland er langt í frá eitt um vandamál vaxandi atvinnuleysis en fáir markaðir hafa komist hjá skelli á vinnumarkaði. Sem dæmi má nefna að OECD telur að í Bandaríkjunum muni atvinnuleysi ríflega þrefaldast og hafa viðlíka atvinnuleysistölur ekki sést þar í landi síðan á síðasta ársfjórðungi 1982 þegar atvinnuleysi fór yfir 10%. Efnahagslegur samdráttur er fylgifiskur aukins atvinnuleysis og spáir OECD 7,6% samdrætti á heimsvísu þetta árið. Í spá OECD er gert ráð fyrir að ekki komi til önnur bylgja smita, en komi til þess er sviðsmynd stofnunarinnar talsvert dekkri.

Launahækkanir og skertar ráðstöfunartekjur

Kjarasamningar undanfarinna tveggja ára skýra kaupmáttaraukningu fólks á vinnumarkaði en hún nær vitaskuld ekki til þeirra sem misst hafa vinnuna. Launavísitalan hefur nú hækkað um 6,4% undanfarna 12 mánuði og kaupmáttur launa um 3,8%, en eins og reifað var í nýlegu Korni var kaupmáttarvöxturinn í apríl og maí sá mesti í tvö ár. Raunlaun vinnandi fólks halda því í það minnsta sjó næsta kastið en þeir sem ekki hafa vinnu verða flestir fyrir verulegri tekjuskerðingu.

Afleiðingar atvinnuleysis eru skertur kaupmáttur, minni einkaneysla og svartsýnni væntingar til framtíðar. Þá rýrnar mannauður þeirra sem lengi eru án atvinnu jafnt og þétt. Slíkt getur leitt til enn frekari samdráttar landsframleiðslu og verri lífsgæða. Það er í allra hag að tryggja lágt atvinnuleysisstig og fullnýta þekkingu, reynslu og hæfileika á vinnumarkaðinum svo hjól atvinnulífsins taki að snúast á nýjan leik. Eins og áður kom fram spáum við að atvinnuleysi vaxi á næstu mánuðum en taki svo stefnu á langtíma meðaltal þegar hagkerfið tekur við sér að nýju snemma á næsta ári.

Höfundur


Tryggvi Snær Guðmundsson

Hagfræðingur


Senda tölvupóst