Rösklega 23% Íslendinga á aldrinum 16-24 eru nú atvinnulausir, sem er tæpu prósenti minna en í apríl. Ástæðu þess mætti rekja til þeirra ákvörðunar stjórnvalda að stórauka framboð sumarstarfa fyrir námsmenn. Slíkar atvinnuleysistölur eru þó sjaldséðar og þarf að leita aftur til maí 2012 til að sjá viðlíka atvinnuleysi.
Samkvæmt nýlegri vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar fækkaði störfum um 22.000 á 12 mánaða tímabili fram til apríl 2020. Sem dæmi má nefna að á síðastliðnum þremur mánuðum hafa rúmlega 7.000 manns orðið fyrir barðinu á hópuppsögnum. Þó er vert er að minnast á að tölur Hagstofunnar taka ekki til greina einstaklinga í skertu starfshlutfalli á hlutabótum.
Hvert stefnir?
Í könnun Samtaka atvinnulífsins, sem gerð var meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins í maí og fyrstu viku júní, sögðu 94% þeirra ekki skort á vinnuafli og gera mun fleiri ráð fyrir að fækka starfsfólki enn frekar á komandi mánuðum en hyggja á fjölgun. Nokkru fleiri þeirra telja þó að aðstæður í efnahagslífinu verði hér betri að sex mánuðum liðnum en í dag og rímar það við nýjustu mælingu Væntingavísitölu Gallup, en 6 mánaða væntingar hafa þar ekki mælst jafn jákvæðar í tvö og hálft ár.
Áhrifa uppsagna undanfarinna vikna og mánaða gætir ekki enn að fullu í atvinnuleysistölum þar sem margir vinna nú uppsagnarfrest. Enn frekari uppsagnir og lok uppsagnarfrests mun því væntanlega ýta enn frekar undir mælt atvinnuleysi á komandi mánuðum og er það í takt við þjóðhagsspá Greiningar Íslandsbanka þar sem við spáum því að atvinnuleysi verði að meðaltali 9,6% á þessu ári.
Vandamál á heimsvísu
Ísland er langt í frá eitt um vandamál vaxandi atvinnuleysis en fáir markaðir hafa komist hjá skelli á vinnumarkaði. Sem dæmi má nefna að OECD telur að í Bandaríkjunum muni atvinnuleysi ríflega þrefaldast og hafa viðlíka atvinnuleysistölur ekki sést þar í landi síðan á síðasta ársfjórðungi 1982 þegar atvinnuleysi fór yfir 10%. Efnahagslegur samdráttur er fylgifiskur aukins atvinnuleysis og spáir OECD 7,6% samdrætti á heimsvísu þetta árið. Í spá OECD er gert ráð fyrir að ekki komi til önnur bylgja smita, en komi til þess er sviðsmynd stofnunarinnar talsvert dekkri.