Ef rýnt er nánar í markaðsverð íbúðarhúsnæðis eru það fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu sem hækka mest í verði á milli mánaða eða um 0,5%. Húsnæði á landsbyggðinni hækkar um 0,2% en verð á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu lækkar um 0,3%.
Árshækkun íbúðaverðs eykst lítillega á milli mánaða og mælist nú 2,3%. Húsnæði á landsbyggðinni hefur hækkað mest undanfarið ár eða um 5,4%. Næst á eftir kemur fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu sem hafa hækkað um 1,8% undanfarið ár en sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hafa lækkað í verði um 0,7% á sama tímabili.
Flestir aðrir liðir hafa áhrif til hækkunar
Að húsnæðisliðnum undanskildum er það liðurinn föt og skór sem vegur þyngst til hækkunar í september. Liðurinn hækkar um 3,7% (0,14% áhrif á VNV) en um áhrif útsöluloka er að ræða. Verð á fatnaði og skóm hefur nú hækkað um 9,6% á síðustu tveimur mánuðum en alla jafna eru útsölulok bæði í ágúst og september.
Matur og drykkjarvörur hækkaði einnig í verði um 0,5% (0,07% áhrif á VNV) en á undanförnum mánuðum hefur hægt talsvert á hækkunum á matvöru, bæði vegna minni verðhækkana erlendis en ekki síst vegna sterkari krónu. Einnig hækkaði liðurinn tómstundir og menning um 0,7% (0,07% áhrif á VNV) þar sem þáttökugjöld í íþróttum og tómstundum vega þyngst til hækkunar í liðnum.
Þá hækkuðu aðrar vörur og þjónusta um 0,5% (0,03% áhrif á VNV) þar sem mest munar um verðhækkun hjá leikskólum og dagmæðrum sem er algengt að hækki á haustmánuðum.