Ef rýnt er nánar í markaðsverð íbúðarhúsnæðis eru það sérbýli á höfuðborgarsvæðinu sem lækka mest í verði eða um 2,7%. Húsnæði á landsbyggðinni lækkar um 1,3% en verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu stendur í stað á milli mánaða.
Árshækkun íbúðaverðs mælist nú 1,9% og hefur ekki mælst minni síðan í byrjun árs 2011. Nú hefur íbúðaverð lækkað tvo mánuði í röð og óhætt að segja að snarpur viðsnúningur hafi orðið í þróun íbúðaverðs undanfarna mánuði. Til samanburðar var hækkunartakturinn í ársbyrjun 18,2%.
Verðbólguhorfur næsta kastið
Samsetning verðbólgunnar hefur breyst talsvert frá því að verðbólga mældist hvað hæst í ársbyrjun. Af 7,7% ársverðbólgu í ágúst skýrir þjónusta stærsta hluta verðbólgunnar eða um 2,3%, framlag innfluttra vara skýrir næst mest eða um 1,9% af heildarverðbólgunni. Þá heldur áfram að draga úr framlagi húsnæðisliðarins sem skýrir nú um 2% af verðbólgunni og að lokum skýrir framlag innlendra vara um 1,5%.
Við teljum að áfram dragi úr framlagi húsnæðisliðarins og innfluttra vara til heildarverðbólgunnar á næstu misserum og verðbólga muni eiga rót sína í hækkunum á innlendum vörum og þjónustu.