Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Ársverðbólga eykst lítillega og mælist 7,7%

Útsölulok eru helsta ástæða þess að ársverðbólga jókst lítillega í ágústmánuði og mælist nú 7,7%. Útlit er fyrir að verðbólga verði í kringum 7-8% næstu mánuði og hjaðni svo hratt í kringum áramót.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,3% í ágúst samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga eykst lítillega, úr 7,6% í 7,7%. Árshækkun vísitölu neysluverðs án húsnæðis eykst einnig úr 7,1% í 7,6%.

Mæling ágústmánaðar er yfir birtum spám. Við spáðum 0,1% lækkun VNV á milli mánaða. Það helsta sem skilur á milli mælingu Hagstofunnar og okkar spá eru útsölulok á húsgögnum og heimilisbúnaði. Liðurinn hækkaði í mánuðinum en við gerðum ráð fyrir áframhaldandi útsölum í ágústmánuði. Einnig lækkar reiknaða húsaleigan minna en við spáðum.

Útsölulok vega þungt

Það helsta sem vegur til hækkunar í ágústmánuði er liðurinn föt og skór sem hækkar um 5,9% (0,21% áhrif á VNV). Um útsölulok er að ræða en liðurinn lækkaði um 8,7% í júlímánuði. Einnig hækkar liðurinn húsgögn og heimilisbúnaður um 1,3% (0,08% áhrif á VNV) vegna útsöluloka. Okkur þykir athyglisvert að liðurinn lækkaði einungis um 0,4% í júlímánuði og voru útsölurnar því ansi grunnar að þessu sinni.

Þá hækkaði liðurinn tómstundir og menning í verði um 0,8% á milli mánaða (0,08% áhrif á VNV) auk þess sem liðurinn matur- og drykkjarvörur hækkaði um 0,4% (0,05% áhrif á VNV). Það er minnsta hækkun í liðnum frá því í september í fyrra.

Ferðir og flutningar er sá liður sem vó þyngst til lækkunar í mánuðinum. Liðurinn lækkaði um 1,3% (-20% áhrif á VNV). Þar vegur þyngst lækkun á flugfargjöldum um 7,6% (-0,18% áhrif á VNV) en auk þess lækkuðu bílar í verði um 0,4% (-0,02% áhrif á VNV).

Verðlækkanir á íbúðamarkaði

Húsnæðisliðurinn stendur í stað á milli mánaða. Þar vegast á lækkun á reiknuðu húsaleigunni annars vegar og hækkun á greiddu húsaleigunni, hita og rafmagni hins vegar. Reiknaða húsaleigan lækkaði um 0,3% á milli mánaða (-0,05% áhrif á VNV). Þar lækkar markaðsverð íbúðarhúsnæðis um 0,8% en á móti hækkar vaxtaþátturinn um 0,5%. Greidda húsaleigan hækkar um 0,5% á milli mánaða (0,02% áhrif á VNV) auk þess sem hiti og rafmagn hækkar í verði um 1,1% (0,04% áhrif á VNV).

Ef rýnt er nánar í markaðsverð íbúðarhúsnæðis eru það sérbýli á höfuðborgarsvæðinu sem lækka mest í verði eða um 2,7%. Húsnæði á landsbyggðinni lækkar um 1,3% en verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu stendur í stað á milli mánaða.

Árshækkun íbúðaverðs mælist nú 1,9% og hefur ekki mælst minni síðan í byrjun árs 2011. Nú hefur íbúðaverð lækkað tvo mánuði í röð og óhætt að segja að snarpur viðsnúningur hafi orðið í þróun íbúðaverðs undanfarna mánuði. Til samanburðar var hækkunartakturinn í ársbyrjun 18,2%.

Verðbólguhorfur næsta kastið

Samsetning verðbólgunnar hefur breyst talsvert frá því að verðbólga mældist hvað hæst í ársbyrjun. Af 7,7% ársverðbólgu í ágúst skýrir þjónusta stærsta hluta verðbólgunnar eða um 2,3%, framlag innfluttra vara skýrir næst mest eða um 1,9% af heildarverðbólgunni. Þá heldur áfram að draga úr framlagi húsnæðisliðarins sem skýrir nú um 2% af verðbólgunni og að lokum skýrir framlag innlendra vara um 1,5%.

Við teljum að áfram dragi úr framlagi húsnæðisliðarins og innfluttra vara til heildarverðbólgunnar á næstu misserum og verðbólga muni eiga rót sína í hækkunum á innlendum vörum og þjónustu.

Við spáum því að ársverðbólga verði í kringum 7-8% næstu mánuði og hjaðni svo hratt í kringum áramót. Bráðabirgðaspá okkar lækkar fyrir september þar sem útsölulok virðast hafa komið að mestu fram í ágústmælingunni. Í bráðabirgðaspá okkar gerum við ráð fyrir 0,2% hækkun vísitölu neysluverðs í september, 0,3% í október og 0,2% í nóvember. Gangi það eftir mun verðbólga mælast 7,4% í nóvember. Við gerum ráð fyrir að verðbólga verði að jafnaði 8,6% á árinu.

Vissulega ríkir enn talsverð óvissa og nærhorfurnar velta mikið á íbúðamarkaðinum og innfluttu verðbólgunni. Við gerum ráð fyrir áframhaldandi lækkun á íbúðamarkaði en þó með minna móti, þar til íbúðaverð finnur sitt jafnvægi á allra næstu mánuðum. Ef íbúðaverð fer aftur á flug mun verðbólga líklega mælast meiri en hér er spáð. Þegar lengra líður á spátímann bætast fleiri óvissuþættir við. Sérstaklega má nefna kjaraviðræður sem styttist óðum í. Í langtímaspá okkar gerum við ráð fyrir að verðbólga verði 5% árið 2024 og 3,6% árið 2025.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband