Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Ávarp stjórnarformanns

Árið 2018 var ár mikilla breytinga og þróunar hjá Íslandsbanka. Það hefur sjaldan sést eins vel og á liðnu ári hversu hratt fjármálakerfið er að breytast með tilkomu nýrrar tækni og tók bankinn virkan þátt í þeirri vegferð.


Efnahagslífið hefur hægt á sér eftir mikinn vöxt undanfarinna ára og gera má ráð fyrir frekari samþjöppun og hagræðingu í lykilatvinnugreinum þjóðarinnar. Ný hvítbók ríkisstjórnar um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið var birt í lok árs og verður spennandi að sjá útkomuna úr þeirri vinnu. Íslandsbanki er leiðandi fyrirtæki á Íslandi með tilliti til samfélagslegrar ábyrgðar og faglegra stjórnarhátta og mun bankinn áfram byggja á traustu starfsfólki sínu á komandi árum til að veita viðskiptavinum sínum enn betri þjónustu.

Breytt bankakerfi með stafrænni þróun

Hröð tækniþróun er að breyta starfsemi hefðbundinna banka og mun tilkoma fjártæknifyrirtækja á fjármálamörkuðum auka samkeppnina sem er jákvætt fyrir neytendur. Íslandsbanki er vel í stakk búinn til að takast á við þessar breytingarí rekstarumhverfi sínu. Bankinn náði t.a.m. mikilvægum áfanga á haustmánuðum 2018 þegar nýtt grunnkerfi var tekið í notkun sem er stærsta tækniverkefni bankans til þessa. Blásið var til stafrænnar sóknar á árinu og margar nýjar viðskiptalausnir þróaðar en sífellt fleiri viðskiptavinir kjósa að sinna bankaviðskiptum sínum sjálfir í gegnum stafrænar dreifileiðir bankans í stað heimsókna í útibú.

Tími tiltektar í efnahagslífinu

Hagvöxtur á árinu 2018 var allmyndarlegur þrátt fyrir að tímabil ævintýralegs uppgangs í ferðaþjónustu hafi runnið sitt skeið árið áður. Í ár er gert er ráð fyrir hægari hagvexti vegna samdráttar í atvinnuvegafjárfestingu og hóflegs vaxtar í einkaneyslu. Jafnframt vex þjónustuútflutningur nú hægar en hann hefur gert undanfarin ár. Það má því búast við að þessir drifkraftar hagvaxtar síðustu ára muni taki sér hlé á árinu en í kjölfarið er búist við að vöxturinn glæðist að nýju árið 2020. Miklar breytingar hafa átt sér stað í stærstu atvinnugreinum landsins og samþjöppun hefur átt sér stað í bæði ferðaþjónustu og sjávarútvegi. Í skýrslu sem unnin var fyrir Íslandsbanka á liðnu ári kom fram að lítil og meðalstór fyrirtæki knýja áfram hagvöxt í landinu. Þau eru betur í stakk búin fyrir hvers konar áföll og hafa byggt upp heilbrigðan rekstur sem er verulega ánægjulegt. Það er því kjörið tækifæri fyrir fyrirtæki landsins að nýta nýtt ár til að endurskipuleggja reksturinn, hagræða og undirbúa sig vel áður en vöxturinn tekur vonandi við sér aftur.

Áskoranir fjármálakerfisins

Í lok ársins kom út hvítbók ríkisstjórnarinnar um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Þar koma fram góðar athugasemdir og hugmyndir um það sem betur megi fara í íslensku fjármálakerfi. Um nokkurt skeið hefur verið til umfjöllunar að selja Íslandsbanka og styður hvítbókin við þær hugmyndir. Bankinn hefur lengst af verið í einkaeigu og einkennist menning bankans af því. Ljóst er að bankinn er tilbúinn til sölu eftir hagræðingu og fjárfestingu í grunnstoðum undanfarinna ára. Miðað við þær tölur sem fram hafa komið má ætla að söluandvirði Íslandsbanka geti samsvarað fjórum til fimm nýjum háskólasjúkrahúsum. Það er því ljóst að það væri til mikils að vinna fyrir íslenska skattgreiðendur að sala á Íslandsbanka fari vel fram og væri erlent eignarhald eða skráning á erlendan og nnlendan markað æskilegt. Það er hinsvegar í höndum eigandans, íslenska ríkisins, að ákveða slíkt en afar mikilvægt er að söluferlið verði traust, sanngjarnt og gagnsætt.

Ennþá eru skattar á íslensk fjármálafyrirtæki margfalt hærri en í nágrannalöndunum. Slíkt er bagalegt í umhverfi þar sem lífeyrissjóðir og fjártæknifyrirtæki hafa bæst í hóp samkeppnisaðila án þess að greiða samsvarandi gjöld til ríkisins.

Hvítbókin fjallar einnig um skilvirkni fjármálamarkaða og mikilvægi þess að þrýsta á um rekstrarhagræðingu sem geti skilað sér í betri kjörum til neytenda. Íslandsbanki vinnur að því að lækka kostnað í rekstrinum til að ná því markmiði. En á sama hátt er það ábyrgðarhlutur hins opinbera að gæta þess að skattar og gjöld á fjármálafyrirtæki séu ekki of íþyngjandi þannig að það veiki samkeppnisstöðu bankans. Ennþá eru skattar á íslensk fjármálafyrirtæki margfalt hærri en í nágrannalöndunum. Slíkt er bagalegt í umhverfi þar sem lífeyrissjóðir og fjártæknifyrirtæki hafa bæst í hóp samkeppnisaðila án þess að greiða samsvarandi gjöld til ríkisins. Samkeppni er af hinu góða en þá er nauðsynlegt að allir aðilar sitji við sama borð og búi við sömu skilyrði.

Ábyrgur þátttakandi í samfélaginu

Íslandsbanki gerðist á árinu hluti af samtökum sem nefnast Nordic CEOs for a Sustainable Future en þar eru samankomin nokkur af stærstu fyrirtækjum Norðurlanda. Markmiðið er að vinna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna í samvinnu við stjórnvöld. Íslandsbanki hefur lagt mikinn þunga í samfélagsábyrgð enda mikilvægt að stór fyrirtæki sýni gott fordæmi og séu jákvæð hreyfiöfl í samfélaginu. Ábyrg viðskipti hafa áhrif á samkeppnishæfni fyrirtækja til framtíðar og bankar leika þar stórt hlutverk við fjárfestingar og við að fjármagna ábyrg verkefni. Jafnréttismál hafa lengi verið ofarlega á blaði og hefur bankinn verið leiðandi í jafnréttisumræðunni og árlega haldið fundi um jafnréttismál. Bankinn hefur einnig verið virkur í umhverfismálum og tók m.a. þátt í að stofna Votlendissjóðinn sem mun hafa mikil áhrif á loftslagsmál til framtíðar auk þess sem dótturfélag bankans, Íslandssjóðir, stofnaði fyrsta innlenda græna skuldabréfasjóðinn í lok árs 2018.

Faglegir stjórnarhættir

Íslandsbanki hefur lagt áherslu á að viðhalda stjórnarháttum sem samræmast bestu framkvæmd á sviði stjórnarhátta. Starfsfólki og stjórn bankans er umhugað um að vinna eftir gildum bankans og vera jákvæð, fagleg og framsýn. Stefna um góða stjórnarhætti hefur verið innleidd en liður í því er að bæta ákvarðanatöku og auka traust hagsmunaaðila til bankans. Íslandsbanki hlaut fyrst viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum í mars 2014 frá Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Viðskiptafræðistofnun Háskóla Íslands. Viðurkenningin var veitt í kjölfar ítarlegrar skoðunar á starfsháttum stjórnar, undirnefndum stjórnar og stjórnenda bankans. Viðurkenningin var endurnýjuð árin 2015, 2016, 2017 og 2018.

Nánar um stjórnarhætti

Þakkir til starfsfólks

Starfsfólk Íslandsbanka hefur unnið frábært starf á undanförnum árum – oft við erfiðar aðstæður. Full ástæða er því til að þakka starfsfólki og stjórnendum sem áfram munu gera sitt besta til að styrkja starfsemi bankans og afla honum trausts. Það eru spennandi tímar framundan á bankamarkaði sem tekur sífellt örari breytingum. Ég treysti vel þessum kraftmikla hópi til að leiða okkur inn í nýja tíma.