Fjármál og fjármögnun


Hækkun á heildartekjum milli ára

 • Heildartekjur hækkuðu um 7,8% milli ára og námu 48,5 ma. kr. á árinu sem skýrist aðallega af hærri vaxta- og þóknanatekjum.
 • Hreinar vaxtatekjur voru  33,7 ma. kr. og jukust um 5,6% milli ára sem skýrist aðallega af útlánavexti. Vaxtamunur var 2,8% (2018: 2,9%). Þess er vænst að vaxtamunur haldist rétt undir 3,0% til skamms og meðallangs tíma.
 • Hreinar þóknanatekjur voru 13,4 ma. kr. samanborið við 12,2 ma. kr. á sama tímabili í fyrra sem er hækkun um 9,8% milli ára. Skýrist þetta meðal annars af hærri þóknanatekjum hjá dótturfyrirtækjum bankans sem og meiri umsvifum í gjaldeyris- og verðbréfamiðlun sem og fyrirtækjaráðgjöf.
 • Tekjur af grunnstarfsemi (hreinar vaxta- og þóknanatekjur) mynduðu 97% af heildarrekstrartekjum fyrir árið 2019. Bankinn leggur áfram ríka áherslu á að viðhalda sterkum grunntekjum og stöðugu tekjustreymi til lengri tíma.
 • Hrein fjármagnsgjöld voru 817 m.kr. á árinu 2019, samanborið við 962 m. kr. á árinu 2018. Helstu þættir gjaldfærslu á árinu 2019 voru tap á veltubók verðbréfa og niðurfærsla eigna í fjárfestingarbók.
 • Aðrar rekstrartekjur námu 2,1 ma. kr. á árinu 2019, samanborið við 1,8 ma. kr. árið 2018 og eru aðallega tilkomnar vegna samkomulags bankans við gamla Byr vegna ágreinings um virði hluta útlánasafns þess síðarnefnda við yfirtöku Íslandsbanka á Byr árið 2011. Einnig var bakfært áður gjaldfært framlag vegna Tryggingarsjóðs innstæðueigenda (TIF) þar sem bankinn telur að hann sé ekki skyldugur til að greiða skuldbindingu vegna ársins 2010.

Kostnaðarhlutfall fer lækkandi

 • Stjórnunarkostnaður jókst um 457 m.kr. á árinu sem samsvarar 1,7% hækkun milli tímabila. Hækkunin stafar af launakostnaði vegna starfsloka sem áttu sér stað á árinu 2019 sem nam 805 m.kr og aukinna afskrifta vegna grunnkerfa.
 • Fjöldi starfsmanna í móðurfélagi fyrir utan árstíðabundna starfsmenn var 749 í lok ársins (2018: 834) og 984 hjá samstæðu (2018: 1.075). Vegna starfsloka sem áttu sér á árinu 2019 er þess vænst að launakostnaður lækki á árinu 2020. Á síðastliðnum fimm árum hefur stöðugildum í móðurfélagi fækkað um 169.
 • Kostnaðarhlutfall samstæðu var 62,4% á árinu 2019 samanborið við 66,3% á árinu 2018 en bankaskattur og einskiptistekjur eru undanskilin við útreikning kostnaðarhlutfalls. Kostnaðarhlutfall móðurfélags var 57,1% samanborið við 60,4% á árinu 2018.
 • Tap af aflagðri starfsemi eftir skatta var 125 m.kr. árið 2019 samanborið við 912 m.kr. hagnað árið 2018. Tapið er tilkomið vegna lækkunar á verðmati á fullnustueignum.

Neikvæð virðisbreyting útlána endurspeglar breyttar efnahagshorfur

Hrein virðisbreyting útlána var neikvæð um 3.663 m.kr. á árinu 2019 samanborið við 1.584 m.kr. jákvæða virðisbreytingu á árinu 2018. Virðisbreytingin 2019 er að mestu tilkomin vegna aukinnar virðisrýrnunar hjá tilteknum viðskiptavinum, versnandi efnahagshorfa og óhagstæðrar niðurstöðu í dómsmáli. Virðisbreyting útlána á árinu 2019 var í heildina í samræmi við væntingar, þó heldur lægri en áætlun gerði ráð fyrir.

Skattar og gjöld hafa áfram mikil áhrif á hagnað og arðgreiðslugetu

 • Tekjuskattur tímabilsins var 3,7 ma. kr. samanborið við 4,7 ma. kr. árið 2018. Virkur tekjuskattur var 30,1%, samanborið við 32,7% árið 2018. Bankaskatturinn var 3,5 ma.kr. árið 2019 samanborið við 3,3 ma.kr. árið 2018. Bankinn greiðir sérstakan 6% fjársýsluskatt á hagnað umfram 1 ma. kr. ásamt því að greiða framlag í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta, til Seðlabankans, til Umboðsmanns skuldara, fjársýsluskatt og tryggingagjald vegna starfsfólks. Framlag í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta á árinu 2019 var 936 m.kr. sem er lækkun um 237 m.kr. frá fyrra ári. Heildarskattar og gjöld voru 10,3 ma. kr. á árinu 2019 samanborið við 11,4 ma. kr. 2018.
 • Með breytingu á lögum nr. 155/2010 í desember 2019 var lækkun sérstaks skatt á fjármálafyrirtæki samþykkt. Mun bankaskattur lækka línulega úr núverandi 0,376% fram til ársins 2023 þegar skatturinn verður 0,145%. Þrátt fyrir þessa lækkun ber fjármálageirinn á Íslandi enn mjög háa skattbyrði, bæði í samanburði við aðra geira á Íslandi og í samanburði við evrópskra banka.

Lækkun á hagnaði markast af neikvæðri virðisbreytingu útlána

 • Hagnaður eftir skatta var 8,5 ma. kr. (2018: 10,6 ma. kr.) og arðsemi eigin fjár á árinu var 4,8% á ársgrundvelli (2018: 6,1%). Hagnaður af reglulegri starfsemi var 10,5 ma. kr. (2018: 12,0 ma. kr.)  og arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi miðað við 16% eiginfjárhlutfall þáttar 1 (CET1) var 6,6% á ársgrundvelli samanborið við 8,0% árið 2018. Hagnaður af reglulegri starfsemi dróst saman um 1,5 ma. kr. milli ára sem skýrist af aukinni virðisrýrnun útlána.
 • Arðsemi bankans er í takt við áætlun bankans en undir langtímamarkmiðum. Arðsemismarkmið bankans er eftir sem áður áhættulausir vextir  að viðbættum 4-6%. Miðað við meðaltal áhættulausra vaxta á árinu 2019 væri markmiðið 7,7–9,7%. Til þess að ná markmiði um arðsemi var ráðist í ýmsar aðgerðir á árinu 2019. Meðal annars var mörkuð ný stefna fyrir bankann þar sem áfram verður unnið að einföldun í rekstri.

EFNAHAGSREIKNINGUR


Eignir- áframhaldandi vöxtur útlána til viðskiptavina

 • Heildareignir jukust um 6,1% á árinu 2019 í 1.199 ma. kr. Útlán til viðskiptavina jukust um 6,3% eða um 53,0 ma. kr. Útlánaaukningin var þvert á viðskiptaeiningar bankans en mest til stærri fyrirtækja. Húsnæðislán jukust um 32,2 ma. kr. frá árslokum 2018. Ný útlán voru 226 ma. kr. á tímabilinu samanborið við 239 ma. kr. á sama tíma í fyrra sem er 5,7% lækkun. Útlán til ferðaþjónustu hafa lækkað lítillega og eru nú 10% af vel dreifðu heildarlánasafni.
 • Vöxtur útlána var meiri á fyrri hluta ársins eða 5,7% en rólegri á þeim síðari, 0,6%. Heildarvöxtur útlána var 6,3% sem er umfram 0,3% hagvöxt á árinu 2019. Vöxtur útlánasafnsins var fyrst og fremst í íslenskum krónum. Á árinu 2019 var stærri hluti útlána fjármagnaður með innlánum en áður hefur verið.
 • Hlutfall útlána viðskiptavina á móti innlánum til viðskiptavina lækkaði í 145,5% í lok árs samanborið við 146,2% í lok árs 2018.
 • Veð útlána eru almennt traust þar sem íbúða- og atvinnuhúsnæði og skip eru ennþá mikilvægustu tegundir trygginga bankans. Vegið meðaltal veðsetningarhlutfalls (LTV) húsnæðislánasafns bankans var 62% í lok desember 2019 en var 61% í lok árs 2018. Þetta má að hluta til skýra með því að viðbótalán vegna fyrstu kaupa eru nú talin með sem hluti af húsnæðislánasafninu.
 • Veðsetningarhlutfall bankans var 18,1% í lok desember 2019 samanborið við 18% í lok árs 2018.
 • Þrír liðir, handbært fé og innstæður hjá SÍ, skuldabréf og skuldagerningar og útlán til lánastofnana nema samtals u.þ.b. 254 ma. kr. og af því eru 223 ma. kr. laust fé.

Eignasafn bankans sterkt í alþjóðlegum samanburði

 • Í lok desember 2019 var hlutfall lána með laskað lánshæfi 2,4% hjá Íslandsbanka (2018: 1,7%) miðað við 2,9% vegið meðaltal hjá evrópskum bönkum (miðað við lok september 2019) (2018: 3,4%). Ef miðað er við gæði lánasafns fyrir útlán til viðskiptavina, var vanskilahlutfall 3,0% í lok desember miðað við vergt bókfært virði lána (2018: 2,0%).

Skuldir – farsæl fjármögnun með innlánum og á markaði

 •  Heildarskuldir námu 1.019 ma. kr. sem er 6,8% hækkun frá fyrra ári. Bankinn viðhélt sterkri lausafjárstöðu og voru lausafjárhlutföll vel umfram kröfur eftirlitsaðila og innri viðmið.
 • Í lok árs var lausafjárhlutfall (LCR) 155% fyrir samstæðuna í öllum gjaldmiðlum (144% fyrir móðurfélagið), 325% í erlendum gjaldmiðlum eingöngu og 110% í íslenskum krónum. Hlutfall stöðugrar fjármögnunar (NSFR) var 119% fyrir samstæðuna í öllum gjaldmiðlum og 156% í erlendum gjaldmiðlum.
 • Innlán frá viðskiptavinum jukust um 6,8% á árinu í 618 ma. kr. Innlán eru áfram stærsti fjármögnunarliður bankans og er vel fylgst með samþjöppunaráhættu.
 • Skuldabréfaútgáfa bankans var áfram farsæl á árinu með útgáfu á innlendum víxlum, sértryggðum skuldabréfum og almennum skuldabréfaútgáfum í íslenskum krónum og almennum skuldabréfum og víkjandi skuldabréfi í erlendum myntum. Útgáfunum er meðal annars ætlað að draga úr áhættu með því að auka fjölbreytni fjármögnunar. Heildarútgáfa sértryggðra skuldabréfa nam 29 ma. kr. á árinu sem var í takt við útgáfuáætlun bankans. Að teknu tilliti til gjalddaga tveggja flokka var nettó útgáfa sértryggðra bréfa um 10 ma. kr. á árinu.
 • Bankinn gaf út 300 m. evra skuldabréf í byrjun apríl 2019 með 130 punkta álagi yfir þriggja mánaða millibankavöxtum í evrum. Samhliða útgáfunni keypti bankinn til baka 300 m. evra af 500 m. evra skuldabréfi sem er á gjalddaga árið 2020 með það að markmiði að minnka endurgreiðsluáhættu.
 • Í júní gaf bankinn út víkjandi skuldabréf að fjárhæð 500 m. sænskra króna til 10 ára með innköllunarheimild af hálfu útgefanda eftir 5 ár (10NC5). Þetta var þriðja víkjandi skuldabréfaútgáfa Íslandsbanka. Með þessari útgáfu náði bankinn markmiði sínu um útgáfu á Tier 2 skuldabréfum og var þetta mikilvægur áfangi í uppbyggingu á langtíma eiginfjár samsetningu bankans.
 • Í nóvember gaf bankinn út sína fyrstu almennu skuldabréfaútgáfu í íslenskum krónum er hann gaf út 3,6 milljarða króna jafngreiðslubréf til 5 ára. Skuldabréfið ber 1 mánaða REIBOR vexti að viðbættu 90 punkta álagi. Útgáfan markar jákvætt skref í þróun og uppbyggingu íslensks verðbréfamarkaðar. Bréfin voru seld í lokuðu útboði til breiðs hóps innlendra fjárfesta.
 • Í desember nýtti bankinn sér sterka lausafjárstöðu og keypti til baka eigin skuldabréf. Annars vegar keypti bankinn um 142,7m evra af 200m evru skuldabréfi með gjalddaga í september 2020 í skilyrtu endurkaupatilboði og hins vegar skuldabréf að fjárhæð 250m sænskra króna með gjalddaga í febrúar 2020. Við endurkaupin minnkaði endurgreiðsluáhætta bankans umtalsvert.
 • Samkvæmt útgáfuáætlun Íslandsbanka fyrir árið 2020 er áætlað að fjármögnunarþörf í erlendri mynt verði takmörkuð á árinu 2020 en þó verður útgáfa á bréfum sem telja til víkjandi eiginfjárþáttar 1 skoðuð.

Eigið fé

 • Heildar eigið fé bankans nam 180 ma. kr. í lok árs 2019 samanborið við 176,3 ma. kr. í lok árs 2018, þar af er hlutdeild minnihluta 2,4 ma. kr. Á aðalfundi bankans í mars 2019 var samþykkt að greiða 5,3 ma. kr. af hagnaði ársins 2018 í arð til hluthafa í takt við markmið bankans um arðgreiðsluhlutfall.
 • Eiginfjárhlutfall bankans var 22,4% í lok árs 2019 (2018: 22,2%) sem er ívið hærra en langtímamarkmið bankans. Eiginfjárhlutfall þáttar 1 (Tier 1) var 19,8% í lok árs samanborið við 20,3% í árslok 2018. Í október 2019 lækkaði Seðlabankinn heildarkröfu um eiginfjárgrunn úr 19,3% í 18,8% sem er til marks um að dregið hafi úr áhættu í rekstri bankans.
 • Í ljósi breytinga á eiginfjárkröfu og efnahagsumhverfi ákvað bankinn að aðlaga stjórnendaaukann úr 0,5%-1,5% í 0,5-2,0% á árinu. Fyrr á árinu hækkaði Seðlabankinn sveiflujöfnunarauka úr 1,25% í 1,75% og tók sú hækkun gildi í maí 2019. Frekari hækkun á sveiflujöfnunaraukanum tók gildi þann 1. febrúar 2020 og fór hann þá í 2,0%. Eiginfjármarkmið Íslandsbanka er 19,5-21,0% og tekur mið af hækkun sveiflujöfnunarauka í febrúar.
 • Íslandsbanki notar staðalaðferð til að meta áhættuvegnar eignir sem námu 884,5 ma. kr. í lok árs 2019 eða 73,7% af heildar eignum. Vogunarhlutfallið í lok árs var 14,2% samanborið við 14,6% í lok árs 2018 og telst það hóflegt í alþjóðlegum samanburði.
 • Stjórn bankans leggur til á aðalfundi bankans að 4,2 ma. kr. af hagnaði ársins 2019 verði greiddir í arð til hluthafa. Greiðslan samsvarar um 50% af hagnaði ársins 2019 og er í samræmi við langtímastefnu bankans um 40-50% arðgreiðsluhlutfall. Stjórn bankans getur boðað til sérstaks hluthafafundar síðar á árinu þar sem tillaga um greiðslu arðs af hagnaði fyrri rekstrarára kann að vera lögð fram.

Lánshæfismat

 • Íslandsbanki er með lánshæfismat frá alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækinu S&P Global Ratings og í júlí 2019 staðfesti S&P lánshæfismat Íslandsbanka í BBB+/A-2 en breytti horfum úr stöðugum í neikvæðar.
 • Í rökstuðningi sínum vísar S&P til þess að Íslandsbanki sé með stöðuga markaðshlutdeild á innlendum markaði og hafi náð góðum árangri á sviði stafrænnar þróunar og upplýsingatækni þar sem hann standi framar en margir erlendir bankar. Bankinn sé jafnframt með sterka lausa- og eiginfjárstöðu auk þess sem lánasafn hans sé traust.
 • Ástæður S&P fyrir breytingu á horfum má meðal annars rekja til krefjandi rekstrarumhverfis fyrir íslenskar bankastofnanir sem einkennist af kólnandi hagkerfi, lækkandi vaxtaumhverfi, hárrar skattlagningar og ójafnrar samkeppnisstöðu við íslenska lífeyrissjóði en allt þetta hafi leitt til lækkandi arðsemi hjá íslenskum bönkum.
 • Í janúar 2019 sagði bankinn upp samningi við Fitch Ratings af hagkvæmissjónarmiðum en Fitch hafði í nóvember 2018 staðfest lánshæfismat Íslandsbanka í BBB/F3 með stöðugum horfum.