Allnokkur raunvöxtur kortaveltu á lokafjórðungi síðasta árs

Kortavelta heimila innanlands hélt áfram að aukast að raunvirði í desember. Allnokkur þróttur var í kortaveltu á seinasta ári en hún jókst á milli ára alla fjórðunga síðasta árs. Kortavelta heimila utanlands skýrir að stórum hluta aukningu í kortaveltunni alls en raunvöxtur innanlands var nokkru hóflegri.


Kortavelta heimila hélt áfram að aukast á milli ára í desember sl. líkt og alla aðra mánuði síðasta árs. Kortavelta innlendra greiðslukorta var alls 142,1 ma.kr. í desember og  jókst því um 3,6% að raunvirði í mánuðinum og um 4,1% á nýliðnum lokafjórðungi ársins 2024. Lokafjórðungurinn reyndist því kraftmestur allra fjórðunga í fyrra hvað þetta varðar.

Kortavelta utanlands hefur sótt í sig veðrið

Þó kortavelta heimila hafi aukist allnokkuð að raunvirði á heildina litið var vöxturinn fremur hóflegur hér innanlands. Kortavelta heimila innanlands jókst um 1,4% að raunvirði í desember og 1,6% á lokafjórðungi ársins. Kortavelta utan landsteinanna á því stærstan þátt í aukningu kortaveltunnar þegar allt er talið en hún jókst um 13,3% að raunvirði í desembermánuði og um 14,1% á lokafjórðungi ársins. Brottförum Íslendinga um Keflavíkurflugvöll fækkaði um 0,4% í fyrra frá árinu áður. Stór hluti aukningar kortaveltunnar erlendis skýrist því af aukinni netverslun en hún sótti í sig veðrið á árinu.

 Kortaveltutölur geta almennt verið nokkuð sveiflukenndar og einkennst af árstíðaráhrifum. Því vekur athygli hve stöðugt hlaupandi þriggja mánaða meðaltalið var allt síðasta ár. Þriggja mánaða hlaupandi meðaltal á raunvexti  kortaveltu heimila alls mældist á bilinu 1,4-4,1% á árinu öllu en 2,6-3,8% ef janúar og desember eru undanskildir. Síðastliðin ár hefur þessi mælikvarði á breytingu kortaveltu verið mun sveiflukenndari.

Hóflegur vöxtur einkaneyslu á árinu

Þó vöxtur kortaveltu innlendra greiðslukorta hafi verið með myndarlegra móti er ekki útlit fyrir sérlega mikinn vöxt einkaneyslu á síðasta ári. Einkaneysla jókst óvænt á fyrsta fjórðungi síðasta árs en kortaveltutölur höfðu bent til samdráttar. Nokkru síðar voru kortaveltutölurnar endurskoðaðar og í ljós kom að vöxtur kortaveltu var 3,5% að raunvirði á fyrsta fjórðungi ársins. Á þriðja ársfjórðungi 2024 jókst einkaneysla um 0,8% að raunvirði samanborið við sama tímabil árið áður. Á sama fjórðungi var vöxtur kortaveltu 2,6% að raunvirði. Samkvæmt gögnum Hagstofu vó þar þyngst aukning neyslu Íslendinga utanlands á meðan mikill samdráttur mældist í neyslu varanlegra neysluvara en sú þróun einkenndi allt síðasta ár. Þar vó þungt krappur samdráttur í bifreiðakaupum milli ára.

Líklega var vöxtur einkaneyslu á síðasta ári fremur hóflegur. Í nýjustu spá Seðlabankans sem birtist í Peningamálum 2024/4 var því spáð að vöxtur einkaneyslu yrði 1% árið 2024. Við spáðum því í þjóðhagsspá okkar í september að vöxturinn yrði 0,8% á árinu. Flestar vísbendingar benda til þess að hún verði á þessu bili.

Bjartsýni heimila og fyrirtækja eykst

Við fjölluðum um það í korni fyrir skemmstu að nýlegar kannanir bentu til aukinnar bjartsýni meðal íslenskra heimila og fyrirtækja. Væntingavísitala Gallup mældist í desember í sínu hæsta gildi í nærri þrjú ár og fór yfir 100 stiga jafnvægisgildið í fyrsta sinn frá árslokum 2022. Áhugi á utanlandsferðum og bílakaupum hefur aukist, en lítilsháttar samdráttur er í áhuga á húsnæðiskaupum. Gefur það merki um aukinn vöxt einkaneyslu á næstunni.

Stjórnendur fyrirtækja eru einnig bjartsýnni á núverandi og framtíðarhorfur í efnahagslífinu en áður. Skortur á starfsfólki hefur minnkað þar sem aðeins 23% telja sig búa við slíkan vanda, en hlutfallið hefur ekki verið lægra frá miðju ári 2021.

Höfundur


Profile card

Birkir Thor Björnsson

Hagfræðingur


Hafa samband