Allbreið samstaða um vaxtalækkun í október

Meiri samhljómur var meðal peningastefnunefndar Seðlabankans um vaxtalækkun í októberbyrjun en margir höfðu búist við. Nefndin mun vafalítið horfa til stjórnarslita og yfirvofandi kosninga við vaxtaákvörðun í nóvember en ólíklegt er að óvissa því tengd komi í veg fyrir vaxtalækkun ef rök hníga að öðru leyti til lækkunar vaxta. Við gerum ráð fyrir að vaxtalækkunarferlið sem hófst í október haldi nokkuð linnulítið áfram á komandi fjórðungum.


Allir meðlimir peningastefnunefndar Seðlabankans kusu með tillögu Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra um 25 punkta vaxtalækkun þann 2. október síðastliðinn, en Herdís Steingrímsdóttir hefði þó frekar kosið að halda vöxtum óbreyttum. Virðist hafa verið meiri samhljómur meðal nefndarmeðlima en búast hefði mátt við eftir nokkuð lífleg skoðanaskipti stjórnenda bankans á kynningarfundinum eftir vaxtaákvörðunina. Þá markar bæði atkvæðagreiðslan, sem og umræður innan nefndarinnar, heldur meiri stefnubreytingu frá vaxtaákvörðuninni í ágúst en við og sjálfsagt margir fleiri bjuggust við. Þetta má ráða af fundargerð fundar peningastefnunefndarinnar 30. september og 1. október 2024 sem birtist á vef Seðlabankans í gær.

Ágætt er að rifja upp að á fundi nefndarinnar í ágúst var yfirhöfuð ekki rætt um möguleikann á vaxtalækkun samkvæmt fundargerð þess fundar. Að þessu sinni voru hins vegar ræddir þeir möguleikar að annars vegar lækka vexti og hins vegar að halda þeim óbreyttum í 9,25%.

Helstu rök með lækkun vaxta að mati nefndarmanna voru samkvæmt fundargerðinni:

  • Nefndin var sammála um að ýmsar vísbendingar bentu til þess að áfram hefði dregið úr vexti efnahagsumsvifa.
  • Verðbólga hefði hjaðnað meira en gert var ráð fyrir, dregið hefði úr framlagi innlendrar vöru og þjónustu til verðbólgu og verðhækkanir væru ekki á jafn breiðum grunni og áður.
  • Verðbólguvæntingar hefðu lækkað á suma mælikvarða.
  • Þótt vinnuaflseftirspurn væri enn mikil væru skýrari vísbendingar um að tekið hefði að hægja á þar sem áfram drægi úr fjölgun starfa og skráð atvinnuleysi héldi áfram að þokast upp.
  • Skortur á starfsfólki virtist hafa minnkað, dregið hefði úr ráðningaráformum og hlutfall fyrirtækja sem starfa við full afköst lækkað.
  • Nýleg hækkun verðtryggðra vaxta á húsnæðislánum viðskiptabankanna og ýmsar breytingar á lánamarkaði sem hertu skilyrði til lántöku gætu að öðru óbreyttu leitt til þess að það myndi draga hraðar úr útlánavexti en ella.
  • Því gæti hægt hratt á umsvifum á húsnæðismarkaðnum en hækkun húsnæðisliðar vísitölu neysluverðs skýrði enn stóran hluta af ársverðbólgu.
  • Það gæti almennt dregið hratt úr efnahagsumsvifum á næsta ári.
  • Margt hefði því þokast í rétta átt undanfarið og áhrif hárra raunvaxta væru skýr.

Helstu rök með óbreyttum vöxtum:

  • Um helmingur af hjöðnun verðbólgu undanfarið skýrðist af einskiptisliðum og að enn væri undirliggjandi verðbólguþrýstingur til staðar.
  • Ekki væri augljóst að undirliggjandi verðbólguþrýstingur hefði minnkað að ráði á milli funda.
  • Innlend eftirspurn væri enn mikil, nokkur kraftur væri fyrir hendi á fasteignamarkaði og tölur um greiðslukortaveltu bentu til þess að eftirspurn hefði heldur aukist á þriðja ársfjórðungi enda væru undangengnar launahækkanir enn að styðja við eftirspurn.
  • Það virtist því enn vera undirliggjandi spenna í þjóðarbúinu.
  • Staða heimila væri á heildina sterk sem endurspeglaðist í háu sparnaðarstigi og miklum vexti innlána.
  • Við framangreindar aðstæður gætu tilfærslur stjórnvalda til heimila ýtt undir eftirspurn.
  • Þótt verðbólga myndi hjaðna áfram næsta kastið gæti hún í kjölfarið staðnað nokkru yfir markmiði og því væri mikilvægt að viðhalda þéttu taumhaldi fram á veginn.
  • Þótt gert væri ráð fyrir í nýframlögðu fjárlagafrumvarpi að aðhaldsstig ríkisfjármála yrði nokkurn veginn hlutlaust á næsta ári þá ætti frumvarpið eftir að hljóta meðferð á Alþingi.

Nefndin tók svo saman þessa áhrifaþætti í eftirfarandi stöðumati (feitletrun er okkar):

Á heildina litið hefði dregið jafnt og þétt úr vexti efnahagsumsvifa frá því í fyrra. Nefndin var jafnframt sammála um að taumhald peningastefnunnar hefði aukist undanfarið, sérstaklega í ljósi þess að miðlun út í langtímaraunvexti hefði aukist enn frekar. Jafnframt væri líklegt að taumhaldið myndi fara vaxandi á næstunni. Í ljósi þess væri hægt að taka varkár skref til lækkunar nafnvaxta en viðhalda jafnframt hæfilegu aðhaldsstigi.

Hafa stjórnarslit og kosningar áhrif á nóvemberákvörðunina?

Óhjákvæmilegt er að okkar mati að stjórnarslit og yfirvofandi kosningar muni bera á góma á vaxtaákvörðunarfundunum í nóvember enda útlit fyrir að Alþingiskosningar verði þá á allra næsta leyti. Gagnlegt er því að skoða hvernig slíkar vendingar hafa endurspeglast í umræðum og ákvarðanatöku peningastefnunefndar undanfarin ár, sér í lagi þegar slíkt umrót hefur átt sér stað með tiltölulega skömmum fyrirvara líkt og nú er raunin.

Líkt og margir muna voru árin 2016-2017 nokkur umrótatími í stjórnmálunum. Kosið var til Alþingis haustið 2016 og svo aftur haustið eftir. Haustið 2016 er vísað til óvissu vegna kosninga og stjórnarskipta bæði í nóvember, þegar stýrivöxtum var haldið óbreyttum, og í desember þegar vextir voru lækkaðir um 0,25 prósentur. Í yfirlýsingu nóvembermánaðar 2016 er til að mynda sagt:

Ákvörðun peningastefnunefndar um óbreytta vexti er tekin með hliðsjón af fyrirliggjandi spá og áhættumati nefndarinnar. Má þar sérstaklega nefna óvissu um stefnuna í ríkisfjármálum, en aðhald hennar hefur slaknað nokkuð undanfarin tvö ár og óljóst er á þessu stigi hver efnahagsstefna næstu ríkisstjórnar verður.

Þá kemur fram í fundargerð nóvemberfundarins að:

„..þótt aðstæður til lækkunar vaxta kynnu að vera að skapast væri ekki tímabært að taka slíka ákvörðun í ljósi þess að óvissa um mikilvæga þætti hefði aukist, a.m.k. tímabundið. Þar skipti miklu óvissa um stefnuna í ríkisfjármálum í framhaldi af nýafstöðnum kosningum og að ekki lægi fyrir hver efnahagsstefna næstu ríkisstjórnar yrði að öðru leyti.“

Í desember sama ár voru vextir hins vegar lækkaðir um 0,25 prósentur þrátt fyrir að „enn ríkti töluverð óvissa um launaþróun á komandi misserum og aðhaldsstig opinberra fjármála.“

Ný ríkisstjórn tók svo við um miðjan janúar 2017.

Í október 2017, mánuði eftir að slitnað hafði fyrirvaralítið upp úr ríkisstjórnarsamstarfi fjallaði peningastefnunefndin um þær vendingar á vaxtaákvörðunarfundi:

Nefndin ræddi einnig áhrif stjórnarslitanna og komandi kosninga á peningastefnuna. Að mati nefndarmanna getur aukin óvissa, í stjórnmálum eins og af öðrum ástæðum, hægt á eftirspurn ef hún leiðir til þess að heimili og fyrirtæki haldi að sér höndum. Aukin óvissa gæti einnig leitt til fjármagnsútflæðis sem gæti leitt til lækkunar á gengi krónunnar og kallað á vaxtabreytingar. Að mati nefndarmanna höfðu hins vegar ekki komið fram skýr merki um fjármagnsútflæði af þessum sökum. Hins vegar töldu nefndarmenn nokkra hættu á að afleiðing kosningabaráttunnar verði sú að sveifluleiðrétt afkoma ríkissjóðs versni, en það myndi kalla á hærri vexti en ella. Þá var einnig nefnt að aukinn trúverðugleiki peningastefnunnar gerði peningastefnunefnd auðveldara með að horfa í gegnum tímabundin áhrif aukins pólitísks óróa en t.d. þegar stjórnarslit urðu í fyrra, þar sem minni hætta væri á að tímabundinn órói smitist út í langtímaverðbólguvæntingar.

Á vaxtaákvörðunarfundinum í október voru vextir lækkaðir um 0,25 prósentur. Í nóvember var vöxtum hins vegar haldið óbreyttum og meðal annars vísað til þess „..nokkuð hefði slaknað á aðhaldi ríkisfjármála í ár og undanfarin tvö ár en samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi ætti það að ganga að nokkru leyti til baka á næstu árum. Nefndarmenn töldu hins vegar að töluverð óvissa væri um afdrif fjárlagafrumvarpsins og ljóst væri að peningalegt aðhald þyrfti að vera meira en ella ef enn frekar slaknaði á aðhaldsstigi ríkisfjármála á næstu árum.“

Við teljum okkur geta ráðið af ofangreindu, og með hliðsjón af því hverjar áherslur flestra flokka virðast vera í aðdraganda komandi kosninga, að óvissa tengd kosningunum og stjórnarmyndun í kjölfar þeirra gæti haldið aftur af peningastefnunefndinni við að stíga stórt vaxtalækkunarskref í nóvember. Hins vegar teljum við ólíklegt að þær áhyggjur ríði baggamuninn ef aðrir áhrifaþættir á borð við þróun verðbólgu, verðbólguvæntinga og efnahagshorfa samrýmast lækkun vaxta að mati peningastefnunefndar.

Líkur á frekari lækkun stýrivaxta fyrir áramót

Frá vaxtaákvörðunarfundinum í októberbyrjun hefur þróun ýmissa þátta orðið til þess að styrkja rök fyrir vaxtalækkun í nóvember. Til að mynda hefur verðbólguálag á skuldabréfamarkaði lækkað nokkuð, bæði til lengri og skemmri tíma. Þá benda nýbirtar vísitölur íbúðaverðs og leiguverðs hjá HMS til þess að eitthvað hafi dregið úr spennu á viðkomandi mörkuðum en báðar vísitölurnar lækkuðu í september.

Verðbólgumæling októbermánaðar mun svo trúlega verða mikilvægur áhrifaþáttur við vaxtaákvörðunina í nóvember og þar spáum við áframhaldandi hjöðnun verðbólgunnar úr 5,4% í 5,2%.

Það eru því að okkar mati meiri líkur en minni á því að stýrivextir verði lækkaðir aftur í nóvemberlok. Hversu stórt vaxtalækkunarskref verður stigið þá ræðst svo ekki síst af þróun framangreindra þátta sem og annarra tímanlegra hagvísa næstu vikurnar. Í kjölfarið fylgi svo áframhaldandi vaxtalækkunarferli sem standa mun linnulítið fram á mitt ár 2026, gangi forsendur í nýlegum spám okkar um verðbólgu og efnahagsþróun eftir.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband