Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Aldrei jafn hagstæð utanríkisviðskipti á lokafjórðungi árs

Afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum á lokafjórðungi síðasta árs var sá mesti í sögunni. Þrátt fyrir ágjöf á útflutningsgreinar voru utanríkisviðskipti í fyrra með hagstæðasta móti og útlit er fyrir að viðskiptin verði áfram hagstæð enn um sinn.


Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar var afgangur af þjónustuviðskiptum tæpir 56 ma.kr. á lokafjórðungi síðasta árs. Í krónum talið jókst afgangurinn um 20 milljarða milli ára þrátt fyrir minni tekjur ferðaþjónustunnar. Skýring þessa er að stórum hluta auknar tekjur af notkun hugverka ásamt því að tekjur af seldri annarri viðskiptaþjónustu jukust allnokkuð milli ára. Alls nam þjónustuútflutningur tæpum 171 ma.kr. á fjórðungnum en þjónustuinnflutningur nam 115 mö.kr. á sama tíma.

Bakslag í ferðaþjónustu setur svip á tölurnar

Eins og nærri má geta setur bakslag í ferðaþjónustu í kjölfar falls WOW air og Max-vandræða Icelandair töluverðan svip á tölur 4. fjórðungs síðasta árs. Góðu heilli voru áhrifin þó hóflegri en margir óttuðust, m.a. vegna breyttra áherslna Icelandair í farþegaflutningum og veikari krónu.

Alls nam afgangur vegna ferðalaga milli landa og farþegaflutninga með flugi 36 mö.kr. á lokafjórðungi ársins 2019 samanborið við 48 ma.kr. afgang á sama tíma ári fyrr. Í krónum talið voru útgjöld vegna ferðalaga Íslendinga á erlenda grund svipuð á milli ára en tekjur innlendra aðila af ferðalögum útlendinga hérlendis og erlendis drógust hins vegar saman um 14 ma.kr. á sama tíma.

Metafgangur á lokafjórðungi ársins 2019

Í heild nam afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd tæplega 44 mö.kr. á lokafjórðungi síðasta árs. Hefur afgangurinn aldrei mælst svo mikill áður á síðasta fjórðungi árs. Ásamt myndarlegum þjónustuafgangi skýrist þessi metafgangur af óvenju litlum vöruskiptahalla á fjórðungnum, en halli á vöruskiptum var aðeins 12 ma.kr. á tímabilinu og hefur ekki verið minni í 5 ár.

Lítill vöruskiptahalli skýrist að mestu af hóflegum vöruinnflutningi en einnig var vöruútflutningur nokkuð myndarlegur á lokafjórðungi síðasta árs.

Gott ár að baki í utanríkisviðskiptum þrátt fyrir skelli

Síðasta ár skilaði þjóðarbúinu býsna miklum afgangi af utanríkisviðskiptum þrátt fyrir ágjöf á útflutningsgreinar. Alls nam afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum ríflega 140 mö.kr. í fyrra og var þar með 56 mö.kr. meiri en árið 2018. Raunar er þetta mesti afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum frá árinu 2016 og koma þessar tölur ánægjulega á óvart eftir þann hressilega mótvind sem lék um ýmsar útflutningsgreinar þjóðarbúsins á síðasta ári. Enn og aftur er það vöruinnflutningshliðin sem skýrir að stórum hluta þessa hagstæðu niðurstöðu, en eins og sjá má af myndinni skrapp vöruskiptahalli talsvert meira saman á milli ára en afgangur af þjónustujöfnuði.

Seðlabankinn birtir tölur um viðskiptajöfnuð og tengdar stærðir á árinu 2019 næstkomandi mánudag. Eftir birtinguna í morgun má það ljóst vera að viðskiptaafgangur í fyrra var býsna myndarlegur. Í þjóðhagsspá okkar sem kom út í janúar sl. var áætlað að viðskiptaafgangur í fyrra hefði numið ríflega 4% af VLF og líklega er sú áætlun varleg ef eitthvað er í ljósi nýjustu talna. Þar var því einnig spáð að myndarlegur afgangur af þjónustujöfnuði muni áfram  vega þyngra á metunum en vöruskiptahalli og eiga drýgstan þátt í því að viðskiptaafgangur reynist tæp 3% af VLF í ár. Hins vegar er því ekki að neita að frá því spáin kom út hafa blikur vaxið á lofti varðandi skammtímahorfur í ferðaþjónustu, ekki síst vegna áhrifa COVID-19 veirunnar á ferðaþjónustu á heimsvísu. Er því óvissan að okkar mati á þá leið að þjónustuafgangur og þar með viðskiptaafgangur verði minni í ár en við spáðum í janúar.

Skráðu þig á póstlista Greiningar hér

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband