Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Áfram mælist allmyndarleg árshækkun launa

Árstaktur launavísitölunnar hefur verið með svipuðu móti undanfarna mánuði. Ef miðað er við vísitölu neysluverðs heldur kaupmáttur launa áfram að rýrna en ef miðað við aðra vísitölur sem gjarnan eru notaðar við útreikning kaupmáttar þá hefur hann aukist. Útlit er fyrir að talsverðar frekari launahækkanir séu í kortunum en kjarasamningar losna hver á fætur öðrum nú í vetur.


Hagstofan birti í morgun gögn um vísitölur launa og kaupmáttar fyrir októbermánuð. Launavísitalan hækkaði um 0,3% á milli mánaða og mælist árshækkun launavísitölunnar nú 7,9%. Er það svipaður árstaktur og hefur verið undanfarna mánuði. Verðbólga í október mældist hins vegar 9,4% og á þann mælikvarða hefur kaupmáttur launa því skroppið saman um 1,4% undanfarið ár. Kaupmáttur launa hefur rýrnað á þennan mælikvarða síðan í júní síðastliðnum en fram að því hafði hann vaxið samfellt frá árinu 2010. Líklegt er að þessi þróun haldi áfram á næstunni á meðan verðbólga mælist jafn mikil og raunin er.

Eins og við fjölluðum um hér hefur kaupmáttur launa hins vegar aukist undanfarið ár ef launavísitalan er raunvirt með öðrum neysluverðsvísitölum Hagstofunnar. Sveiflukenndir liðir eins og íbúðaverð er ekki hluti af þeim vísitölum og samræmda vísitalan er oft notuð í slíka útreikninga í öðrum Evrópuríkjum. Miðað við samræmdu vísitölu neysluverðs hefur kaupmáttur launa aukist um 1,4% og 0,6% miðað við vísitölu neysluverðs án húsnæðis. Ef miðað er við þessar vísitölur mælist enn vöxtur í kaupmætti launa en heldur hefur dregið úr vextinum að undanförnu.

Ríkisstarfsmenn hafa hækkað minnst í launum

Samhliða birtir Hagstofa frekara niðurbrot á launavísitölunni sem nær til ágústmánaðar. Sé vísitalan skoðuð eftir helstu launaþegahópum hefur þróunin tekið nokkrum breytingum að undanförnu. Starfsfólk sveitarfélaga hafa hækkað mest í launum eða um tæplega 9% undanfarið ár og helst sú staða óbreytt frá undanförnum mánuðum. Þar á eftir koma laun á almennum vinnumarkaði sem hafa hækkað um 8% og laun ríkisstarfsfólks reka lestina með 7% árshækkun. Þarna hefur orðið breyting á en lengi vel var árshækkun starfsfólks á almennum vinnumarkaði lægst. Í mars síðastliðnum tók almenni vinnumarkaðurinn hins vegar fram úr ríkisstarfsfólki og hefur það verið staðan síðan.

Í Lífskjarasamningum vorið 2019 var samið um krónutöluhækkanir og þar sem laun hjá starfsfólki sveitarfélaga er yfirleitt lægri en hjá hinum framangreindu hópunum hafa þau laun hækkað hlutfallslega meira. Einnig hefur stytting vinnuvikunnar sitt að segja sem hefur alla jafna verið meiri hjá opinberu starfsfólki en starfsfólki á almenna vinnumarkaðnum. Nú eru hins vegar vaxandi líkur á að laun á almenna vinnumarkaðnum fari að sækja í sig veðrið enda mælist atvinnuleysi 2,8% og spennu gætir á markaðnum.

Sé almenni vinnumarkaðurinn skoðaður nánar hafa laun í ferðaþjónustu hækkað hvað mest frá ágúst 2021 fram til sama mánaðar á þessu ári, eða um nær 12%. Næst á eftir koma laun í bæði byggingargeiranum og veitustarfsemi sem hafa hækkað um 9%. Laun í fjármálageiranum hafa hækkað minnst eða um 6% á meðan laun annarra atvinnugreina hafa hækkað með svipuðu móti eða í kringum 8%.

Líklega skýra Lífskjarasamningar að einhverju leyti mismuninn í launaþróuninni á milli atvinnugreina. Þau sem eru með lægstu launin hækka mest. Þó er ekki hægt að líta framhjá því að töluverður skortur er á starfsfólki á vinnumarkaði og þá sérstaklega í greinum á borð við ferðaþjónustu og byggingarstarfsemi. Ef marka má nýlega könnun Gallup meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins telja 56,5% stjórnenda skort vera á starfsfólki og hefur þetta hlutfall aldrei verið hærra frá því að mælingar hófust árið 2006. Það kemur því ekki á óvart að laun hafa hækkað á almenna vinnumarkaðinum né að laun hafi hækkað mest í þessum tveimur atvinnugreinum.

Frekari launahækkanir í kortunum

Nú eru kjarasamningar að losna hver á fætur öðrum. Útlit er fyrir að snúið geti orðið að semja á stórum hluta vinnumarkaðar enda virðist bera talsvert í milli krafa ýmissa helstu launþegasamtaka annarsvegar, og hugmynda vinnuveitenda hins vegar. Í þjóðhagsspá okkar frá því í september spáðum við 7,6% launahækkun á þessu ári, en miðað við nýjustu tölur er líklegt að hækkunin verði enn meiri. Á næsta ári spáðum við að laun myndu hækka um 7,4% sem er lítillega yfir meðaltali síðustu ára. Líklega er óvissan hér upp á við en að okkar mati er ljóst að talsverðar frekari launahækkanir eru í kortunum. Hversu miklar mun vonandi ráðast á næstu mánuðum.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur


Hafa samband