Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hefur kaupmáttur rýrnað?

Þótt kaupmáttur launa hafi rýrnað undanfarið samkvæmt vísitölu Hagstofunnar er myndin önnur ef stuðst er við sams konar mælingu og nágrannaríki nota. Minni verðbólga og hraðari hækkun launa á Íslandi en í samanburðarlöndum veldur því að neikvæð áhrif af efnahagsþróun á heimsvísu á heimilin verða væntanlega mildari hér á landi en víða í nágrannalöndum á komandi vetri.


Laun fyrir hverja unna vinnustund hækkuðu um 0,8% í september frá mánuðinum á undan samkvæmt launavísitölu Hagstofunnar. Hækkunin milli mánaða skýrist ekki af samningsbundinni hækkun launa. Hins vegar er hækkun í september árviss og tengist því að ýmsar álagsgreiðslur koma aftur inn af fullum krafti eftir sumarleyfi. Einnig kann launaskrið hugsanlega að skýra einhvern hluta hækkunarinnar.

Undanfarna 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 8,1%. Verðbólga í september mældist hins vegar 9,3% miðað við vísitölu neysluverðs (VNV) og á þann mælikvarða hefur kaupmáttur launa því skroppið saman um 1,1% undanfarið ár.

Kaupmáttur hefur vaxið á ýmsa mælikvarða

En er það svo að laun landsmanna hrökkvi skemur þetta haustið en í fyrrahaust eins og ætla mætti við fyrstu sýn af þróun vísitölu kaupmáttar? Hér er fróðlegt að skoða bæði mismunandi mælikvarða á verðlagsþróun og einnig hvernig innbyrðis þróun launa og verðlags er hjá mismunandi hópum á vinnumarkaði.

Sé launavísitalan raunvirt með öðrum neysluverðsvísitölum sem Hagstofan reiknar út kemur á daginn að samkvæmt bæði vísitölu neysluverðs án húsnæðis og samræmdri vísitölu neysluverðs hefur kaupmáttur launa aukist undanfarið ár. Kaupmáttarvöxturinn nemur 1,0% sé miðað við vísitölu neysluverðs án húsnæðis en 2,1% ef stuðst er við samræmda vísitölu neysluverðs. Þróun beggja þessara vísitalna ræðst í minna mæli af þróun íbúðaverðs en raunin er með vísitölu neysluverðs og mældist verðbólga í september 7,0% samkvæmt VNV án húsnæðis en 5,9% samkvæmt samræmdu VNV.

Síðarnefnda mælingin er sérlega áhugaverð þar sem henni er ætlað að auðvelda samanburð milli verðbólguþróunar í löndum EES-svæðisins og er meðal annars sú vísitala sem Evrópski seðlabankinn miðar verðbólgumarkmið sitt við. Á þann kvarða var verðbólga á Íslandi hin næst minnsta á svæðinu og að meðaltali var verðbólgan í EES-löndum 10,9% í síðasta mánuði mælt með þessum hætti. Lesa má um aðferðafræðina við samræmdu vísitöluna og hverju munar á henni og hinni séríslensku VNV í gagnlegri samantekt á vef Hagstofunnar.

Í velflestum löndum á EES-svæðinu mælist verðbólga talsvert meiri nú um stundir en sem nemur hækkun launa undanfarið ár, ekki síst þar sem kostnaður við húshitun og raforkunotkun hefur aukist hratt í Evrópu á sama tíma og laun hafa almennt hækkað talsvert hægar í okkar nágrannalöndum en raunin er hér á landi. Ísland er því ánægjuleg undantekning frá reglunni þegar kemur að kaupmáttarþróun á ofangreindan mælikvarða.

Kaupmáttur aukist meira hjá láglaunastéttum

Þar sem Lífskjarasamningarnir byggðu á krónutöluhækkunum sem þar að auki voru drýgri hjá þeim sem tóku laun miðað við launatöflur en hjá öðrum hefur kaupmáttaraukning verið nokkuð mismunandi eftir ólíkum hópum á vinnumarkaði. Sundurliðuð gögn Hagstofunnar fyrir ólíka launþegahópa ná fram til síðastliðins júlímánaðar en þann mánuð náði verðbólga hérlendis einmitt hámarki á alla framangreinda verðbólgumælikvarða.

Það er því forvitnilegt að skoða hvernig kaupmáttarmyndin lítur út gagnvart hinum ýmsu launþegahópum. Í júlí mældist árshækkun launavísitölu ívið meiri á almenna markaðinum en hjá ríkisstarfsmönnum en starfsfólk sveitarfélaga hafði þó vinninginn gagnvart báðum fyrrnefndu hópunum.

Ef miðað er við samræmdu VNV hafði kaupmáttur allra þessara hópa að jafnaði aukist milli ára í júlímánuði en sé stuðst við VNV án húsnæðis hafði kaupmáttur ríkisstarfsmanna rýrnað lítillega.

Enn skarpari skil milli hópa má sjá þegar laun í einkageiranum eru skoðuð. Miðað við VNV hafði kaupmáttur flestra starfsstétta rýrnað í júlí frá sama tíma fyrir ári en laun verkafólks og fólks í almennum þjónustustörfum höfðu þó haldið í við verðbólgu á þann mælikvarða.

Eins og sést á myndinni blasir talsvert önnur mynd við þegar stuðst er við aðrar neysluverðsvísitölur. Starfsfólk í almennri þjónustu sem og verkafólk hefur á þá mælikvarða notið talsverðrar kaupmáttaraukningar og í raun er það einungis í hópi stjórnenda sem kaupmáttarrýrnun mælist milli ára á alla mælikvarða. Þessi þróun er vitaskuld í öfugu hlutfalli við meðallaun innan hverrar starfsstéttar sem voru hæst meðal stjórnenda um mitt síðasta ár en hvað lægst hjá verkafólki og almennu þjónustustarfsfólki.

Hagfelldari kaupmáttarþróun en gengur og gerist

Kaupmáttur launa, hvernig sem hann er reiknaður, er vissulega ekki algildur kvarði á þróun lífskjara í landinu. Þar skipta tilfærslukerfin líka máli, sem og þróun eignatekna, skattbyrði svo ekki sé minnst á atvinnustigið. Hér er einnig um meðaltöl að ræða en þegar öllu er á botninn hvolft er neyslumynstur hvers heimilis einstakt og vafalaust hefur verðbólguþróun undanfarinna fjórðunga valdið hluta heimila talsverðum búsifjum. Framangreind talnaæfing sýnir okkur þó að á mælikvarða sem sambærilegir eru við löndin í kring um okkur standa íslensk heimili trúlega sterkar í aðdraganda óvissuvetrar en gengur og gerist.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband