Áfram hægði á verðbólgu í febrúar

12 mánaða verðbólga gekk niður í febrúar í takt við spár greiningaraðila. Mælingin er sú síðasta fyrir næsta fund peningastefnunefndar og ætti að reynast henni gott veganesti fyrir fund marsmánaðar. Húsgögn heimilisbúnaður o.fl. vógu þyngst til hækkunar í mánuðinum en þar á eftir komu verðhækkanir á matar- og drykkjarvörum. Næstu mánuði eigum við von á að áfram hægi á verðbólgu.


Vísistala neysluverðs hækkaði um 0,91% í febrúar samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu. Verðbólga á ársgrundvelli lækkaði því úr 4,6% í 4,2%. Verðbólga án húsnæðis hjaðnaði úr 3,0% í 2,7%. Mæling febrúarmánaðar var í takt við okkar spá. Spár greiningaraðila voru á bilinu 0,61% til 1,1% hækkun VNV en við spáðum 0,9% hækkun.

Vetrarútsölur ganga til baka

Verðhækkanir húsgagna, heimilisbúnaðar o.fl. vógu þyngst til hækkunar VNV í mánuðinum. Hækkunina skýra útsölulok en vetrarútsölur janúarmánaðar ganga alla jafna til baka að hluta eða öllu leyti í febrúar. Útlit er fyrir að útsölur á húsgögnum, heimilisbúnaði og tengdum vörum hafi gengið til baka að öllu leyti í febrúar en verð þeirra hækkaði um 5,6% í febrúar (0,26% áhrif á VNV) eftir lækkun upp á 4,64% í janúar (-0,23% áhrif á VNV). Annar undirliður VNV sem einkennist venjulega af útsöluáhrifum eru föt og skór. Verð þeirra hækkaði um 2,09% í febrúar (0,07% áhrif á VNV) eftir lækkun upp á 6,92% í janúar (-0,26% áhrif á VNV). Mögulega eiga því verðhækkanir vegna útsöluloka í fataverslunum eftir að teygja sig fram í mars.

Þó nokkur verðhækkun matar-og drykkjarvöru

Mest áhrif til hækkunar VNV í febrúar að húsgögnum og heimilisbúnaði undanskildum höfðu verðhækkanir á matar- og drykkjarvörum. Hækkunin var nokkuð umfram okkar spá en við spáðum 0,46% verðhækkun (0,07% áhrif á VNV). Hækkunin er einnig talsvert meiri en hækkun dagvöruvísitölu ASÍ sem hefur oft haft mikla fylgni við þennan undirlið VNV undanfarið. Alls hækkuðu matar- og drykkjarvörur um 1,1% í verði (0,17% áhrif á VNV).

Að okkar mati skýra helst tveir þættir þessa hækkun. Í fyrsta lagi koma til áhrif vegna erfiðra aðstæðna við uppskeru ýmissar hrávöru á borð við kaffi og kakó svo dæmi sé tekið, en heimsmarkaðsverð á viðkomandi vörum hefur hækkað hratt undanfarið. Í öðru lagi koma til umsamdar launahækkanir sem tóku gildi um áramótin. Við fjölluðum um þróun launavísitölunnar í nýlegu korni. Næstu mánuði eigum við von á heldur hægari hækkun matvælaverðs en óvissa er enn til staðar hvað varðar uppskeru á hinum ýmsu hrávörum til matvælaframleiðslu sem og mögulegt tollastríð. Óvissan sem snýr að mögulegu tollastríði hefur raunar einnig neikvæð áhrif jafnvel þótt aldrei komi til slíkra ráðstafana.

Aðrir liðir

Liðurinn húsnæði, hiti og rafmagn hækkaði um 0,5% (0,15% áhrif á VNV). Þar af hækkaði reiknuð húsaleiga um 0,41% (0,08% áhrif á VNV). Við höfðum spáð 0,45% hækkun reiknaðrar húsaleigu (0,09% áhrif á VNV) en erfitt hefur reynst að spá fyrir um breytingar undirliðarins upp á síðkastið. Nokkuð sterk merki um kólnandi leigumarkað hafa litið dagsins ljós nýlega og ef sú þróun heldur áfram mun verðbólga að öðru óbreyttu færast hraðar nær markmiði en spár gera nú ráð fyrir. Annað vegna húsnæðis hækkar alla jafna í febrúar þegar fyrstu greiðslur vegna verðskrárhækkana þjónustu vegna húsnæðis fara fram. Alls hækkaði liðurinn annað vegna húsnæðis um 1,82% (0,03% áhrif á VNV). Mikla lækkun 12 mánaða verðbólgu skýra meðal annars sterk grunnáhrif í liðnum en hækkun sorphirðugjalda vó óvenjuþungt í febrúar á síðasta ári.

Eftir óvenjumikla lækkun flugfargjalda til útlanda í janúar áttum við von á því að lækkunin gengi til baka af meiri krafti í febrúar en raun bar vitni. Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 2,18% (0,05% áhrif á VNV) í mánuðinum samanborið við okkar spá upp á 5,0% hækkun (0,11% áhrif á VNV).

Verðbólguhorfur

Við eigum von á því að áfram hægi á verðbólgu næstu mánuði og að hún fari inn fyrir efri vikmörk (4%) verðbólgumarkmiðs Seðlabankans strax í næsta mánuði. Við gerum ráð fyrir eftirfarandi í bráðabirgðaspá okkar:

  • Mars: 0,4% hækkun VNV (ársverðbólga 3,8%)
  • Apríl: 0,5% hækkun VNV (ársverðbólga 3,7%)
  • Maí: 0,3% hækkun VNV (ársverðbólga 3,4%)

Nýgerðir kjarasamningar hins opinbera við kennara gætu haft nokkur áhrif á verðbólguþróun þegar fram í sækir þó þeir hafi eytt nokkurri óvissu sem að viðræðunum sneri. Fyrsta kastið verða þó áhrifin væntanlega minniháttar og snúast fyrst og fremst um heldur meiri neyslugetu hjá þeim hluta launafólks og trúlega minna aðhald opinberra fjármála. Með tímanum gæti þó launaskrið á vinnumarkaði almennt aukist fyrir vikið og síðast en ekki síst hefur óvissa um hvað tekur við í lok samningstímabils núverandi samninga vaxið að okkar mati.

Þar að auki er óvissa af pólitíska sviðinu sem og í alþjóðamálum og miklar vendingar í þeim efnum kunna að breyta myndinni töluvert. Verðbólgumæling mánaðarins ætti þó að reynast peningastefnunefnd gott veganesti við næstu vaxtaákvörðun en mælingin er sú síðasta fyrir næstu vaxtaákvörðun nefndarinnar sem tilkynnt verður 19. mars næstkomandi.

Höfundur


Birkir Thor Björnsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband