Vísitala launa hækkaði um 3,1% í janúar frá fyrri mánuði samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu. Árshækkunin mældist óvenjumikil, eða um 9,1%, en það á sér hins vegar eðlilega skýringu. Inni í árshækkunartakti launavísitölunnar eru nú tvær umsamdar launahækkanir þar sem fyrsta hækkunin var greidd í mars í fyrra en í janúar í ár. Því er um að ræða tímabundin áhrif sem hanga inni í árshækkunartakti launavísitölunnar þar til tölur fyrir marsmánuð birtast í apríl.
Kaupmáttur vex í ársbyrjun
Vísitala launa hækkaði umtalsvert á milli mánaða í janúar og tólf mánaða hækkun mældist 9,1% samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu. Hækkun launavísitölunnar í janúar er meiri en venjulega vegna þess að umsamdar launahækkanir á stórum hluta vinnumarkaðar voru greiddar í janúar, ætla má að mánaðarhækkanir verði talsvert hægari á næstunni. Kaupmáttur launa jókst sömuleiðis í mánuðinum og útlit er fyrir áframhaldandi hóflegan kaupmáttarvöxt á næstunni.
Kaupmáttarvöxtur í fyrra
Á síðasta fjórðungi 2024 hækkaði launavísitala miðað við fast verðlag um 1,27% milli ára. Í janúar hækkaði vísitala launa miðað við fast verðlag um 3,3% frá fyrri mánuði og um 4,3% á milli ára. Kaupmáttarvöxtur á síðasta ári var því með góðu móti og verðbólguhorfur gefa til kynna áframhaldandi vöxt á næstu misserum.
Kjarasamningar SA við öll aðildarfélög fyrir tímabilið 2024-2028 koma til endurskoðunar 1. september næstkomandi ef 12 mánaða verðbólga mælist yfir 4,95% í ágúst. Samkvæmt okkar spá mun ársverðbólga mælast nær 3% þegar þar að kemur. Samningarnir koma einnig til endurskoðunar þann 1. september 2026 ef 12 mánaða verðbólga mælist yfir 4,7% í ágúst það ár. Samkvæmt okkar spá mun ársverðbólga mælast rétt undir 3% um það leyti. Verðlagsforsendur teljast þó hafa staðist ef meðaltal 12 mánaða verðbólgu á tímabilinu mars – ágúst 2025 verður 4,7% eða lægra og 4,4% eða lægra á sama tímabili 2026. Samkvæmt okkar verðbólguspá munu verðlagsforsendur halda og samningarnir því ekki koma til endurskoðunar á samningstímanum.
Launaþróun nokkuð svipuð eftir launþegahópum
Nýjustu gögn um launahækkanir eftir launþegahópum og atvinnugreinum ná til og með nóvember. Launaþróunin er nokkuð svipuð milli hópa en undanfarið ár hafa starfsmenn á almennum vinnumarkaði hækkað mest í launum, eða um 6,5%. Launaþróun opinberra starfsmanna hefur verið með svipuðu móti en laun starfsmanna sveitarfélaga höfðu hækkað um 5,2% undanfarið ár í nóvember og laun starfsmanna ríkis um 4,3%. Þar ber vitaskuld að hafa í huga að kennarar, sem eru drjúgur hluti af heildarstarfsfólki ríkis og sveitarfélaga, áttu enn ósamið við opinbera vinnuveitendur við lok tímabilsins.
Hratt minnkandi spenna á vinnumarkaði dregur úr launaskriði
Atvinnuleysi mældist 4,2% í janúar og hefur ekki mælst meira í nærri þrjú ár. Nýlegar viðhorfskannanir benda einnig til minnkandi spennu á vinnumarkaði. Í nýjustu könnun Gallup svöruðu 23% fyrirtækjastjórnenda þeirri spurningu játandi að skortur sé á starfsfólki í þeirra fyrirtæki. Það hlutfall hefur ekki mælst lægra frá miðju ári 2021. Við spáðum því að atvinnuleysi yrði 3,8% árið 2025 í síðustu þjóðhagsspá okkar og aukist því um tæplega 0,3 prósentustig milli ára. Aðrar vísbendingar um rólegri vinnumarkað má sjá í fólksfjöldaþróun en samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu fjölgaði landsmönnum aðeins um 660 á síðasta ársfjórðungi 2024 þar sem aðeins 240 fluttu til landsins umfram brottflutta. Það er mikil breyting frá því fyrir skömmu síðan þegar fjölgun landsmanna var margfalt hraðari.
Samhliða vaxandi meðbyr í hagkerfinu eigum við von á hægum samdrætti atvinnuleysis og spáum því að það mælist 3,6% á næsta ári og 3,5% árið 2027. Minnkandi spenna á vinnumarkaði ásamt langtímakjarasamningum við stóran hluta hans hafa dregið úr launaskriði. Við gerum samt sem áður ráð fyrir allnokkurri kaupmáttaraukningu á spátímanum. Við spáum því einnig að laun hækki um 5,1% að jafnaði á þessu ári, 4,7% á næsta ári og 4,4% árið 2027. Gangi spá okkar eftir mun kaupmáttur launa vaxa um 1,4% á þessu ári, 1,7% á því næsta og 1,2% árið 2027.