Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Afkoma fyrri árshelmings 2019

Ágætur gangur var í rekstri Íslandsbanka á fyrri helmingi ársins 2019 og var bankinn með yfir 40% markaðshlutdeild á nýjum útlánum til einstaklinga á tímabilinu. Viðskiptavinir hafa tekið stafrænum lausnum vel en bankinn kynnti fyrir skömmu nýja húsnæðislánaþjónustu og sjálfvirkt greiðslumat á vefnum auk þess að bjóða nú upp á Apple Pay þjónustu.


Helstu atriði í afkomu Íslandsbanka fyrir fyrri helming ársins 2019 (1H19)

  • Hagnaður eftir skatta var 4,7 ma. kr. (1H18: 7,1 ma. kr.) og arðsemi eigin fjár var 5,4% á ársgrundvelli (1H18: 8,2%).
  • Hagnaður af reglulegri starfsemi var 5,7 ma. kr. (1H18: 6,8 ma. kr.) og arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi miðað við 16% eiginfjárhlutfall þáttar 1 (CET1) var 7,2% á ársgrundvelli (1H18: 9,4%).
  • Hreinar vaxtatekjur voru 16,8 ma. kr. (1H18: 15,3 ma. kr.) sem er 9,4% hækkun á milli ára og var vaxtamunur 2,8% (1H18: 2,8%).
  • Hreinar þóknanatekjur voru 6,6 ma. kr. (1H18: 5,8 ma. kr.) sem er 14% hækkun frá 1H18.
  • Virðisbreyting útlána var neikvæð um 1.848 m.kr. á tímabilinu samanborið við að vera jákvæð um 1.934 m.kr. á 1H18.
  • Stjórnunarkostnaður jókst um 4,7% á milli ára og nam 14,4 ma. kr. (1H18: 13,7 ma. kr.).
  • Kostnaðarhlutfall samstæðu á tímabilinu var 62,0% samanborið við 67,3% á sama tímabili í fyrra, á meðan kostnaðarhlutfall móðurfélags var 55,4% sem er við 55% langtímamarkmið bankans.
  • Útlán til viðskiptavina jukust um 5,7% (47,8 ma. kr.) frá lokum árs 2018 og námu 894 ma. kr. í lok júní. Ný útlán á fyrri árshelmingi voru 107,4 ma. kr. og dreifðust vel á milli viðskiptaeininga bankans. 
  • Innlán frá viðskiptavinum hækkuðu um 6,4% eða 36,9 ma. kr. frá lokum árs 2018 og námu 616 ma. kr. í lok júní.
  • Lausafjárstaða bankans er sterk bæði í íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðlum og vel umfram kröfur eftirlitsaðila og innri viðmið. Eiginfjárhlutföll eru sterk og í takti við langtímamarkmið bankans.

Helstu atriði í afkomu annars ársfjórðungs 2019 (2F19) 

  • Hagnaður eftir skatta var 2,1 ma. kr. (2F18: 5,0 ma. kr.) og arðsemi eigin fjár 4,9% á ársgrundvelli (2F18: 11,6%).
  • Hagnaður af reglulegri starfsemi nam 3,0 ma. kr. (2F18: 3,9 ma. kr.) og var arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi miðað við 16% eiginfjárhlutfall þáttar 1 (CET1) 7,8% á ársgrundvelli (2F18: 11,1%).  
  • Hreinar vaxtatekjur voru 8,6 ma. kr. (2F18: 7,6 ma. kr.) og var vaxtamunur 2,8% (2F18: 2,8%).
  • Hreinar þóknanatekjur voru 3,4 ma. kr. (2F18: 3,0 ma. kr.).

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka

Ágætur gangur var í rekstri Íslandsbanka á fyrri helmingi ársins 2019 og það var ánægjulegt að sjá bankann með yfir 40% markaðshlutdeild á nýjum útlánum til einstaklinga á tímabilinu. Viðskiptavinir hafa tekið stafrænum lausnum vel en bankinn kynnti fyrir skömmu nýja húsnæðislánaþjónustu og sjálfvirkt greiðslumat á vefnum auk þess að bjóða nú upp á Apple Pay þjónustu.

Hlutdeild Íslandsbanka sem aðalviðskiptabanki fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki er sú hæsta á markaðnum eða 37% samkvæmt Gallup auk þess sem þjónustukannanir sýna fram á hæsta NPS skor frá upphafi mælinga. Bankinn hefur verið í sókn á verðbréfamarkaði frá áramótum og var Íslandsbanki með mestu hlutdeild allra á skuldabréfamarkaði og næst mestu á hlutabréfamarkaði. Þóknanatekjur jukust á tímabilinu um 14% og vaxtatekjur um 9,4%.

Kostnaðarhlutfall móðurfélags er nú 55% sem er í takt við markmið bankans. Þetta er jákvætt og endurspeglar vinnu undanfarinna mánaða við að auka tekjur og draga úr kostnaði en samsvarandi hlutfall fyrir samstæðu er 62%. Útlánavöxtur hefur haldist stöðugur og mælist eignasafn bankans sterkt í alþjóðlegum samanburði.

Neikvæðar virðisbreytingar á útlánum í kjölfar versnandi efnahagsástands og áframhaldandi taprekstur hjá einu af dótturfélögum bankans draga hinsvegar niður afkomu samstæðu sem skilaði 4,7 milljarða króna hagnaði á fyrri árshelmingi 2019 en það er lækkun miðað við sama tímabil í fyrra.

Lausafjárhlutföll bankans hafa hækkað frá áramótum og eru vel yfir innri mörkum og kröfum eftirlitsaðila auk þess sem eiginfjárhlutföll eru við langtímamarkmið bankans. Fjármögnun bankans hefur gengið vel og höfum við haldið áfram að gefa út víkjandi skuldabréf í sænskum krónum auk þess sem innlán hafa aukist frá áramótum.

Það styttist í Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka sem er stærsti fjáröflunarviðburður ársins en það verður haldið þann 24. ágúst. Við erum stolt af því að vera aðalstyrktaraðili hlaupsins og hvetjum við landsmenn til að hlaupa og styðja við góðan málstað.

Helstu atriði úr rekstri fyrri árshelmings (1H19)

  •  Í sumar hóf Íslandsbanki að bjóða viðskiptavinum sínum upp á Apple Pay kortaþjónustu.
  •  Ný húsnæðislánaþjónusta og sjálfvirkt greiðslumat á Íslandsbanka vefnum var nýlega kynnt viðskiptavinum.
  •  Íslandsbanki var með hæstu hlutdeild í veltu á skuldabréfamarkaði í júní en hlutdeild bankans var 19,7% í mánuðinum.
  •  Í júní gaf Íslandsbanki út víkjandi skuldabréf að fjárhæð 500 m. sænskra króna.
  •  Íslandsbanki birti skýrslu um íslenska ferðaþjónustu í maí og hélt ráðstefnu þess efnis á Hilton Reykjavík Nordica.
  •  Ný þjóðhagsspá „Lægð í lofti“ var birt í byrjun júní og greinin „Er krónan í jafnvægi“ var birt á vef bankans í júlí.
  •  Íslandsbanki lækkaði vexti á húsnæðis- og bílalánum í júlí í kjölfar stýrivaxtaákvörðunar Seðlabankans.
  •  Í júlí var tilkynnt að Riaan Dreyer hafi verið ráðinn nýr framkvæmdastjóri Upplýsingatæknisviðs Íslandsbanka.
  •  Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings staðfesti lánshæfismat Íslandsbanka í BBB+/A-2 en breytti jafnframt horfum úr stöðugum í neikvæðar.

Símafundur með fjárfestum á ensku kl. 9.00 fimmtudaginn 1. ágúst

Símafundur með markaðsaðilum vegna uppgjörs verður haldinn fimmtudaginn 1. ágúst kl. 9.00. Farið verður yfir helstu atriði í íslenskum efnahagsmálum og afkomu bankans. Fundurinn verður á ensku.

Vinsamlegast skráið ykkur á símafundinn með að senda póst á: ir@islandsbanki.is. Fundargögn og aðgangsorð vegna símafundar verða send út til skráðra aðila fyrir fundinn.

Afkomufundur á íslensku kl. 10.30 fimmtudaginn 1. ágúst

Markaðsaðilum er boðið á fjárfestafund á íslensku fimmtudaginn 1. ágúst kl. 10.30 sem verður haldinn á 9. hæð höfuðstöðva bankans að Hagasmára 3, 201 Kópavogi.

Skráning á fundinn er skilyrði. Vinsamlegast skráið ykkur á símafundinn með að senda póst á: ir@islandsbanki.is.

Frekari upplýsingar um uppgjörið er hægt að nálgast hér

Nánari upplýsingar veitir:


Gunnar S. Magnússon

Fjárfestatengsl


Senda póst
4404665