Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Afkoma Íslandsbanka á þriðja ársfjórðungi ársins 2020

Hagnaður þriðja ársfjórðungs nam 3,4 ma. kr. og kostnaður lækkar áfram í kjölfar hagræðingaraðgerða síðustu missera


Helstu atriði í afkomu þriðja ársfjórðungs 2020 (3F20)

  • Hagnaður af rekstri Íslandsbanka eftir skatta nam 3,4 ma. kr. á 3F20 samanborið við 2,1 ma. kr. á 3F19. Arðsemi eigin fjár var 7,4% á ársgrundvelli (3F19: 4,7%).
  • Hreinar vaxtatekjur jukust um 1,4% á milli ára. Vaxtamunur var 2,5% samanborið við 2,6% á 2F20. Hreinar þóknanatekjur jukust um 12,3% á milli ára sem skýrist af hærri tekjum frá eignastýringu, fjárfestingabankastarfsemi og verðbréfamiðlun en einnig vegna sölu Borgunar hf. þar sem eyðingarfærslur fyrsta árshelmings voru bakfærðar í kjölfar sölu dótturfélagsins. Hrein fjármagnsgjöld voru 255 m.kr. (3F19: 602 m.kr.).
  • Stjórnunarkostnaður lækkaði um 8,9% sem skýrist af áframhaldandi kostnaðarhagræðingu og aðgerðum fyrri tímabila. Kostnaðarhlutfall bankans var 46,7% á 3F20 (3F19: 56,3%) og uppfyllir því markmið bankans um að kostnaðarhlutfall skuli vera lægra en 55%.
  • Neikvæð virðisbreyting útlána á 3F20 nam 1,1 ma. kr. og tengist að mestu leyti áhrifum af COVID-19 faraldrinum og uppfærslu efnahagssviðsmynda.
  • Útlán til viðskiptavina jukust um 37,0 ma. kr. á fjórðungnum þar vegur þyngst aukning húsnæðislána. Innlán viðskiptavina jukust um 17,4 ma. kr. á fjórðungnum aðallega vegna aukningar í innánum frá einstaklingum og lífeyrissjóðum.

Helstu atriði í afkomu á fyrstu níu mánuðum ársins 2020 (9M20)

  • Hagnaður af rekstri Íslandsbanka á fyrstu níu mánuðum ársins nam 3,2 ma. kr. (9M19: 6,8 ma. kr.) og arðsemi eigin fjár eftir skatt var 2,4% á ársgrundvelli (9M19: 5,1%).
  • Minni hagnaður skýrist aðallega af neikvæðri virðisbreytingu útlána að fjárhæð 7,0 ma. kr. en mat á væntu útlánatapi byggist meðal annars á ítarlegu mati á áhrifum COVID-19 faraldursins á útlánasafn bankans. Að auki námu fjármagnsgjöld 2,2 ma. kr. sem má að mestu leyti rekja til óhagfelldra aðstæðna á mörkuðum á fyrsta ársfjórðungi.
  • Hreinar vaxtatekjur jukust um 2,4% samanborið við 9M19 og vaxtamunur var 2,6% (9M19: 2,7%). Hreinar þóknanatekjur drógust saman um 3,7% miðað við sama tíma í fyrra sem má helst rekja til minni kortaveltu í kjölfar COVID-19.
  • Stjórnunarkostnaður dróst saman um 7,6% frá 9M19 sökum fækkunar stöðugilda, hóflegra launahækkana og lækkunar á flestum kostnaðarliðum. Kostnaðarhlutfall var 55,3% á 9M20 (9M19: 57.5%).
  • Útlán til viðskiptavina námu 970 ma. kr. í lok september og jukust um 7,9% frá áramótum eða um 70,7 ma. kr. Aukningin er að mestu tilkomin vegna aukinna húsnæðislána og gengislækkunar krónu á árinu. Hlutfall lána með laskað lánshæfi á stigi 3 nam 3,3% (vergt bókfært virði) í lok 9M20 samanborið við 3,6% í lok 6M20.
  • Innlán frá viðskiptavinum námu 699 ma. kr. í lok 9M20 og jukust um 13,0% frá áramótum eða um 80,3 ma. kr. Aukningin stafar að mestu leyti af auknum innlánum einstaklinga og lífeyrissjóða. Engin útgáfa skuldabréfa í erlendum gjaldmiðlum fór fram á tímabilinu þar sem lausafjárhlutföll í erlendum gjaldmiðlum eru sterk. Bankinn mun þó áfram skoða möguleika á útgáfu og endurkaupum ef fýsilegar aðstæður koma upp.
  • Heildareiginfjárhlutfall bankans var sterkt og nam 22,2% í lok 9M20, eiginfjárhlutfall þáttar 1 var 19,4% og vogunarhlutfall var 13,4%.  

Hagnaður Íslandsbanka á þriðja ársfjórðungi nam 3,4 ma. kr. Vöxtur var í heildartekjum á milli ára og rekstrarkostnaður hélt áfram að lækka eða um 9% milli ára vegna kostnaðaraðgerða fyrri tímabila. Efnahagsreikningur bankans stækkaði um 2% á milli fjórðunga en mikil eftirspurn hefur verið eftir húsnæðislánum þar sem lægri vextir húsnæðislána spila stórt hlutverk. Stafrænar lausnir hafa hjálpað okkur að veita skjótari þjónustu en ella í einum mesta fjölda umsókna frá upphafi.

Árið hefur einkennst af þjónustu og lausnum fyrir okkar viðskiptavini sem hafa orðið fyrir mestum áhrifum vegna COVID-19 en um 700 viðskiptavinir hafa fengið frystingu á lánum sínum. Í nýrri efnahagsspá er búist við samdrætti á árinu 2020 en að viðsnúningur með jákvæðum hagvexti verði strax á næsta ári. Við munum halda áfram að vera til staðar fyrir okkar viðskiptavini og munum verða þátttakendur í viðspyrnunni með þeim.

Bankinn var umsjónaraðili með vel heppnuðu hlutafjárútboði Icelandair á fjórðungnum sem kemur til með að tryggja góða undirstöðu fyrir ferðaþjónustuna þegar ferðatakmörkunum léttir. Í aðdraganda útboðsins kom sjálfvirk stofnun viðskipta með fjármálagerninga sér vel en þúsundir viðskiptavina nýttu lausnina við þátttöku í útboðinu.

Íslandsbanki kynnti í lok október sjálfbæran lánaramma, fyrst íslenskra fjármálafyrirtækja. Ramminn mun auðvelda skuldabréfaútgáfur á sjálfbærum bréfum. Við erum einnig mjög stolt af þekkingarverðlaunum Félags viðskipta- og hagfræðinga sem Íslandsbanki hlaut fyrir að skara fram úr á sviði sjálfbærrar þróunar. Verðlaunin eru viðurkenning á sjálfbærnistefnu bankans og því mikilvæga hlutverki sem fyrirtækið gegnir í því að vera hreyfiafl til góðra verka í íslensku samfélagi.

Birna Einarsdóttir,
Bankastjóri Íslandsbanka

Fjárfestatengsl

Símafundur með fjárfestum á ensku kl. 9.30

Símafundur með markaðsaðilum vegna uppgjörs verður haldinn 29. október kl. 9.30. Farið verður yfir helstu atriði í íslenskum efnahagsmálum, afkomu bankans og spurningum svarað. Fundurinn verður á ensku.

Vinsamlegast skráið ykkur á símafundinn með að senda póst á: ir@islandsbanki.is. Fundargögn og aðgangsorð vegna símafundar verða send út til skráðra aðila fyrir fundinn.

Öll gögn tengd uppgjöri ásamt upplýsingum um fjárhagsdagatal og þögul tímabil má finna hér: https://www.islandsbanki.is/is/flokkur/bankinn/fjarfestatengsl

Nán­ari upp­lýs­ing­ar veit­a:


Mar­grét Lilja Hrafnkels­dót­tir

Fjárfestatengsl


Senda póst
844-4033

Edda Hermannsdóttir

Samskiptastjóri


Senda póst
844-4005