Afkoma á þriðja ársfjórðungi 2025

Hagnaður af rekstri nam 6,9 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi 2025. Arðsemi eigin fjár var 12,2% á ársgrundvelli.


Helstu atriði í fjárhagslegri afkomu þriðja ársfjórðungs 2025 (3F25)

  • Hagnaður af rekstri nam 6,9 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi 2025 (3F24: 7,3 milljarðar króna). Arðsemi eigin fjár var 12,2% á ársgrundvelli (3F24: 13,2%). Arðsemi eigin fjár var 12,9% á ársgrundvelli þegar leiðrétt er áhrifum varúðarfærslu vegna dómsmála.
  • Hreinar vaxtatekjur námu 13,3 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi 2025 og hækkuðu um 1.483 milljónir króna á 3F25 samanborið við 3F24.
  • Vaxtamunur var 3,1% á þriðja ársfjórðungi 2025, samanborið við 2,9% á 3F24. Þegar leiðrétt er fyrir áhrifum varúðarfærslu vegna dómsmála var vaxtamunur 3,2% á 3F25.
  • Hreinar þóknanatekjur á þriðja ársfjórðungi 2025 voru sambærilegar við þóknanatekjur á þriðja ársfjórðungi 2024 og námu samtals 3,2 milljörðum króna á 3F25.
  • Hrein fjármagnsgjöld voru 353 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi 2025, samanborið við fjármagnstekjur að fjárhæð 228 milljónir króna á 3F24.
  • Aðrar rekstrartekjur námu 115 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi 2025, samanborið við 357 milljónir króna á 3F24.
  • Stjórnunarkostnaður nam 6,5 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi 2025, en nam 6,4 milljörðum króna á 3F24.
  • Kostnaðarhlutfall bankans var 38,2% á þriðja ársfjórðungi 2025 og undanskilur 550 milljónir króna innan vaxtaliðar sem varúðarfærslu vegna dómsmála. Kostnaðarhlutfallið var 40,4% á 3F24.
  • Virðisbreyting fjáreigna var jákvæð um 7 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi 2025 samanborið við jákvæða virðisbreytingu sem nam 860 milljónum króna á 3F24. Áhættukostnaður útlána (e. Cost of risk) var 0 punktar á ársgrundvelli á þriðja ársfjórðungi 2025 samanborið við -27 punkta á 3F24.
  • Útlán til viðskiptavina jukust um 2 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi 2025 frá öðrum ársfjórðungi 2025 og voru 1.333 milljarðar króna í lok þriðja ársfjórðungs 2025.
  • Innlán frá viðskiptavinum jukust um 4,4% milli loka annars og þriðja ársfjórðungs 2025 og námu 1.009 milljörðum króna í lok 3F25.
  • Eigið fé nam 227,0 milljörðum króna í lok þriðja ársfjórðungs 2025, samanborið við 227,4 milljarða króna í lok árs 2024.
  • Eiginfjárhlutfall var 21,9% í lok þriðja ársfjórðungs 2025 að meðtöldum hagnaði á 3F25, samanborið við 23,2% í lok árs 2024. Samsvarandi eiginfjárhlutfall almenns þáttar 1 (CET1) var 18,9% að meðtöldum hagnaði 3F25, samanborið við 20,1% í árslok 2024. Eiginfjárhlutfall almenns þáttar 1 var 370 punktum yfir kröfum eftirlitsaðila í lok þriðja ársfjórðungs 2025, og hærra en fjárhagslegt markmið bankans sem er að vera með 100-300 punkta eiginfjár svigrúm umfram kröfur eftirlitsaðila.
  • Lágmarkskrafa um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar (MREL) er 19,6% af áhættugrunni, til viðbótar við samanlagða kröfu um eiginfjárauka. Í lok þriðja ársfjórðungs 2025 var MREL hlutfall bankans 36,8%, 740 punktum yfir kröfum eftirlitsaðila. Ný skilaáætlun fyrir Íslandsbanka var samþykkt 17. Október og þar með uppfært MREL fyrir bankann sem 18,8% af áhættugrunni, til viðbótar við samanlagða kröfu um eiginfjárauka. Eftir samþykkt skilaáætlunarinnar er MREL hlutfall bankans 37,1% (að meðtöldum hagnaði 3F25), 850 punktum yfir kröfum eftirlitsaðila.

Helstu atriði í fjárhagslegri afkomu Íslandsbanka á fyrstu níu mánuðum ársins 2025 (9M25)

  • Hagnaður af rekstri bankans á fyrstu níu mánuðum ársins 2025 nam 19,3 milljörðum króna (9M24: 18,0 milljarðar króna). Arðsemi eigin fjár á 9M25 var 11,5% á ársgrundvelli (9M24: 10,9%). Bankinn leiðbeinir í þá átt að arðsemi verði um 11% fyrir 2025 í heild, að því gefnu að virðisrýrnun hefðbundnari í gegnum hagsveifluna.
  • Hreinar vaxtatekjur á fyrstu níu mánuðum 2025 námu 40,1 milljarði króna, sem er aukning um 10,1% milli 2024 og 2025.
  • Hreinar þóknanatekjur námu 9,9 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2025 og jukust um 4,2% samanborið við fyrstu níu mánuði ársins 2024 þegar þær námu 9,5 milljörðum króna.
  • Hrein fjármagnsgjöld voru 1.326 milljónir króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2025, samanborið við fjármagnsgjöld að fjárhæð 507 milljónir króna á sama tímabili í fyrra.
  • Stjórnunarkostnaður var 21,1 milljarður króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2025, en var 20,5 milljarður króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2024, þegar frá er talin 470 milljón króna stjórnvaldssekt sem gjaldfærð var á öðrum ársfjórðungi 2024.
  • Kostnaðarhlutfall bankans lækkaði úr 43,3% á fyrstu níu mánuðum ársins 2024 í 42,1% á fyrstu níu mánuðum ársins 2025. Kostnaðarhlutfall á 9M24 undanskilur gjaldfærslu stjórnvaldssektar að fjárhæð 470 milljónir króna sem gjaldfærð var á 2F24 og hlutfallið fyrir 9M25 undanskilur varúðarfærslu innan vaxtaliðar að fjárhæð 550 milljónir króna vegna dómsmála.
  • Virðisbreyting á fjáreignum var jákvæð um sem nam 406 milljónum króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2025 samanborið við jákvæða virðisbreytingu sem nam 293 milljónum króna fyrir 9M24.

Rekstur Íslandsbanka á þriðja ársfjórðungi 2025 var með ágætum og má rekja sterka afkomu bankans til góðs árangurs þvert á viðskiptaeiningar. Hagnaður af rekstri bankans nam 6,9 milljörðum króna sem er yfir spám greinenda fyrir fjórðunginn. Vaxtamunur var 3,1% á fjórðungnum. Arðsemi eigin fjár á fjórðungnum var 12,2% á ársgrundvelli og kostnaðarhlutfallið var 38,2% á fjórðungnum.

Síðustu vikur hafa verið viðburðaríkar í rekstri bankans. Tilkynning um samrunaviðræður Íslandsbanka og Skaga hf. er fyrsta skrefið í spennandi vegferð og er í takt við það sem bankinn hefur sagt undanfarin misseri um ytri vöxt. Við sjáum mikil tækifæri í samruna félaganna tveggja og ljóst er að samlegðin er talsverð. Tækifæri til samþættingar innan íslenska fjármálakerfisins eru fjölmörg og teljum við að samruni Íslandsbanka og Skaga geti skapað veruleg verðmæti fyrir sameinað félag, viðskiptavini þess og aðra hagsmunaaðila. Þá hefur samstarf bankans við VÍS (dótturfélag Skaga) gengið afar vel og mikil ánægja meðal viðskiptavina og starfsfólks með samstarfið.

Í október kvað Hæstiréttur Íslands upp dóm í máli um breytilega vexti á óverðtryggðu fasteignaláni. Hæstiréttur ógilti skilmála bankans um vaxtabreytingar að hluta. Unnið er að því að greina til fulls áhrif dómsins og mun bankinn hafa frumkvæði að því að hafa samband við viðskiptavini þegar niðurstöður liggja fyrir. Á sama tíma og við fögnum því að óvissunni um þetta atriði hafi verið eytt bíða fleiri mál er varða aðra viðskiptabanka og önnur afbrigði útlána málflutnings í Hæstarétti. Mikilvægt er að úrlausn fáist í þessi mál hið fyrsta svo óvissu verði eytt og vöruframboð til frambúðar skýrist. Bankinn hefur kynnt tímabundnar breytingar á vöruframboði sínu. Þá hefur ríkisstjórnin tilkynnt að í samráði við Seðlabanka Íslands verði hafin birting vaxtaviðmiðs eins fljótt og auðið er. Bankinn mun fylgjast náið með tíðindum af slíkri vinnu.

Við náðum góðum árangri á þriðja ársfjórðungi, bæði í þjónustu við viðskiptavini okkar en ekki síður í uppbyggingu traustra innviða og í þróun lausna sem styðja viðskiptavini okkar í þeirra verkefnum. „Fjölskyldan saman“ er nýjung í appinu sem gefur foreldrum góða yfirsýn yfir fjármál barna sinna og auðveldar setningu sparnaðarmarkmiða og eftirfylgni. Nýjungar í appi Íslandsbanka undanfarin misseri mælast vel fyrir og eru vinsælar enda sjáum við að einkunn appsins hefur hækkað eftir innleiðingar þeirra. Fjármögnun bankans, ásamt nokkrum lífeyrissjóðum, á byggingu nýrrar Ölfusársbrúar er þýðingarmikið innviðaverkefni fyrir samfélagið á mikilvægum vegkafla þjóðvegarins. Íslandsbanki fagnar því að taka þátt í að leggja inn á uppsafnaða innviðaskuld og er í sterkri stöðu til að koma að fleiri verkefnum á því sviði. Ergo er á mikilli siglingu og nýrri vöru, sem auðveldar fjármögnun á notuðum bílum óháð aldri þeirra, hefur verið afar vel tekið. Íslandsbanki nýtur hæsta meðmælaskors (NPS) meðal lítilla og meðalstórra fyrirtækja á landinu. Við leggjum mikið upp úr persónulegu sambandi við fyrirtæki í viðskiptum og erum stolt af þeim góða árangri sem náðst hefur um allt land.

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka heldur áfram að vera stærsti góðgerðarviðburður landsins og í ár var enn eitt metið slegið í áheitasöfnun þegar meira en 327 milljónir króna söfnuðust. Þessi viðburður er einn sá gleðilegasti á árinu í starfsemi bankans þar sem þúsundir koma saman og styrkja góðgerðarfélög og samtök um land allt.

Íslandsbanki er í öfundsverðri stöðu. Bankinn býr enn yfir miklu magni af umfram eigin fé og mun fyrirhugaður samruni við Skaga síst hafa neikvæð áhrif á umfram eigið fé. Innleiðing CRR3 tilskipunarinnar mun einnig hafa jákvæð áhrif. Bankinn hyggst meðal annars nýta þessa góðu stöðu til að sækja fram í erlendum lánveitingum. Mikil vinna hefur farið í að greina þá markaði og hefur stefna verið mörkuð um hvert skuli sækja þegar kemur að erlendum lánveitingum. Þar skiptir miklu máli að velja samstarfsaðila vel og taka þátt í verkefnum þar sem Íslandsbanki þekkir vel til atvinnugeirans eða verkefnanna sem unnið er að. Endurkaup á eigin hlutum eru einnig mikilvægur þáttur í ráðstöfun umfram eigin fjár og hefur bankinn verið virkur á þeim vettvangi mestan hluta 2025.

Við horfum með eftirvæntingu fram á veginn og fögnum þeim tækifærum sem við fáum til að efla viðskiptavini okkar, hvort sem það er með þátttöku bankans í mikilvægum verkefnum þeirra, með fjármálafræðslu við mikilvæg tímamót í lífi þeirra eða með nýjum og endurbættum lausnum sem einfalda okkur að veita áfram framúrskarandi þjónustu.

Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka

Fjárfestaefni

Allt fjárfestaefni er birt á vefsvæði fjárfestatengsla þar sem upplýsingar um fjárhagsdagatal og þögul tímabil eru einnig aðgengilegar.

Fyrirvari

Framangreind fréttatilkynning gæti vísað til spár um framtíðarhorfur sem er háð áhættu- og óvissuþáttum og getur þýtt að raunverulegur árangur verði umtalsvert frábrugðinn því sem spáð er í þessari fréttatilkynningu. Íslandsbanki hf. hefur ekki skyldu til að, og mun ekki, uppfæra þessar spár um framtíðarhorfur félagsins til að endurspegla atburði og aðstæður sem eiga sér stað eftir útgáfu þessarar fréttatilkynningar. Það er á ábyrgð fjárfestis að reiða sig ekki seinna meir á spár um framtíðarhorfur sem eru settar fram í þessari fréttatilkynningu þar sem þær eiga eingöngu við á þeim tíma sem hún er gefin út. Spár um framtíðarhorfur gefa ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur og eru allar yfirlýsingar um framtíðarhorfur félagsins fullgildar í heild sinni með tilliti til þessa fyrirvara.